Saturday, May 19, 2007

Síðustu dagarnir í Nepal

Að mestu skrifað fyrir tveimur vikum síðan:

Ég var að koma úr afmæli þriggja ára nepalskrar stúlku. Hún er dóttir leiðsögumannsins sem fylgdi mér upp og niður Langtang dalinn. Langtang dalurinn er einn af þremur vinsælustu göngusvæðum túrista í Nepal. Annað frægt göngusvæði er Evrestsvæðið en Nepal hefur að geyma 8 af 10 hæstu tindum heimsins - algjör einokun.

Í göngunni miklu, sem þó telst fremur stutt miðað við ferðir sumra göngugarpa hér, ætlaði ég mér að komast upp í a.m.k. helming hæðar Everest tinds eða um 4400 metra hæð. Strandbæjarpésinn hann ég dreif þó ekki upp í nema 4000 metra hæð og var þá kominn með stífann höfuðverk. Ég vildi ekki taka hæðarlyfin sem ég hafði meðferðist frá Íslandi né heldur verkjalyf sem mér stóðu til boða og því gekk ég með höfuðverk til baka daginn eftir. Hæðarlyf á reyndar ekki að nota til að fara hærra og á helst ekki að nota til að sleppa því að fara niður - þau eru því yfirleitt gagnslaus.

Í Langtang dalnum gisti ég á fjórum mismunandi stöðum; í 1500 metra hæð, því næst 2420 metra hæð, svo 3400 metra hæð og loks 3750 metra hæð. Hæsta gistiplássið í dalnum var sem sagt í 3750 metra hæð og þar fór ég að finna fyrir höfuðverk eftir nokkurra tíma viðveru. Ég náði þó að ganga upp á lítinn hrygg sem virðist klemmdur milli tveggja skriðjökla á veturna. Eitt af stærstu vandamálum heimsins varðandi gróðurhúsaáhrif er rýrnun jöklanna sem sjá Suður-Asíubúum fyrir vatni. Skriðjöklarnir sem ég sá virtust sannarlega vera á undanhaldi (myndir verða settar inn seinna).

Til að komast í grennd við Langtang dalinn tók ég 10-tíma rútu sem hossaðist hálfa leið á malbiki en hoppaði restina á afleitum vegum. Ferðin var óvenju skemmtileg. Ég átti m.a. góðar stundir uppi á þaki rútunnar með tveimur geitum (myndbrot verður birt á youtube á næstu tveimur vikum).

Ég lét nægja að ganga upp nokkrar tröppur í hóteli daginn sem ég tók rútuna. Samkvæmt skipulaginu átti gangan mikla að hefjast daginn eftir. Ég reyndi því hvað ég gat að safna kröftum fyrir fyrsta og erfiðasta daginn, nema hvað, hundur hélt fyrir mér vöku og í þokkabót vaknaði ég með túrista-magapest og gat því ekkert borðað um morguninn.
Leiðsögumaðurinn minn kæri, Raj, hughreysti mig með því að í næsta gistihús væri aðeins eins og hálfs klukkustunda ganga og því gekk ég af stað. Um 10 kílómetrum og fáeinum magauppreisnum seinna auk þúsund metrum hærra og nokkrum gistihúsum lengra komst ég á áfangastað fyrsta dagsins. Ég hafði þá gengið í um 6 klukkustundir upp og niður hæðir á tómum tanki og var gjörsamlega úrvinda á leiðarenda. Ég var mjög ánægður með að hafa náð fyrsta áfangastað því ég hef aldrei keyrt mig jafn mikið áfram með svo litla orku í kroppinum og auk þess með bakpokann minn á bakinu (ég afþakkaði burðarmenn þrjóskunar vegna). Með öðrum orðum: Segið húrra fyrir mér!

Næsta dag vaknaði ég eiturhress, hljóp af stað og kláraði dag tvö á góðum tíma. Á þriðja degi var ég orkuminni því háloftaveikin var farin að gera vart við sig og þeim degi lauk með fyrrgreindum afleiðingum.

Mín fyrsta alvöru fjallganga var aldeilis ekki hræðileg lífsreynsla þó að svo megi auðveldlega skilja það sem skrifað er hér fyrir ofan. Fyrsti dagurinn var reyndar ekkert sérstaklega 'ánægjulegur'. Vindurinn dreifir Buddha-bænum um Langtang dalinn með því að blása á bænaflöggin
Útsýnið á leiðinni var fallegt og 6000 metra hvítir tindar virtust á hverju strái. Ég held ég hefði líklegast notið þeirra betur ef ég hefði ekki gengið jafn hratt og ég gerði. Leiðsögumanninum mínum og nokkrum öðrum kynntist ég á leiðinni:
Raj er rólyndis náungi, 22 ára að aldri. Hann á konu og eina dóttur. Þau búa ásamt móður Raj í 15 fermetra herbergi - sama herbergi og ég hitti aðra 15 afmælisgesti í fyrir einni klukkustund síðan. Pabbi Raj var myrtur þegar hann var þriggja ára og því þurfti móðir hans að vinna baki brotnu til að koma börnunum sínum fimm á fót. Raj fluttist eftir skólagöngu sína - sem móðir hans náði einhvernvegin að borga fyrir - til Kathmandu. Eftir nokkuð langa leit, einn í ókunnugri stórborg, fékk hann vinnu hjá fjallgöngufyrirtæki sem burðarmaður í Langtang. Í Langtang er enginn vegur fyrir ökutæki og því sjá burðarmenn um að bera mat og allt það sem þarf upp í hæstu hæðir - m.a. bjór fyrir túristana. Burðarmenn bera líka bakpoka þeirra ferðamanna sem kjósa það. Raj vann sem burðarmaður ferðamanna í 6 ár og bauðst þá að gerast leiðsögumaður.

Raj er forseti lítilla samtaka sem fjármagna fátæk börn í námi og taka að sér fræðslu fullorðinna. Ein saga Raj gaf mér betri skilning á þörf Nepala (og annarra) fyrir menntun: Á námskeiði samtakanna fyrir fátæka bændur um getnaðarvarnir sýndi fræðslufulltrúi nokkur hvernig nota ætti smokkinn. Til að gæta velsæmis lét hann þó duga að setja smokk á þumalputtann á sér. Nokkrum mánuðum seinna hitti fræðslufulltrúinn óánægðann fyrrum nemanda sem átti ólétta konu. Þá kom í ljós að nemandinn hafði alltaf sett smokkinn á þumalinn en ekki getnaðarliminn.

Við Raj hittum á ferð okkar 12 ára dreng sem fylgdi okkur upp í hæsta fjallaþorpið. Hann á fimm systkini og hafði verið sendur til að vinna fyrir hjón í hóteli/teskála fyrir um 1000 krónur á mánuði (sem sendar eru til fátæku foreldranna nánast óskertar). Á venjulegum degi þvær hann upp og heggur við meðal annars auk þess sem hann gengur með túristum upp dalinn til að reyna að fá þá til að stunda viðskipti við svefn- og teskála sem þá greiða hótelinu hans fyrir. Þessi drengur hefur ekki kost á því að fara í skóla því vinnuveitendur hans taka það ekki í mál - það er reyndar ólöglegt. Raj ætlaði að reyna að finna heimili í Kathmandu fyrir drenginn þar sem hann getur bæði unnið og gengið í skóla, en hann er auðvitað einn af mörgum börnum fátækra foreldra sem neyðast til að senda þau að heiman. Ég mun verða í sambandi við Raj vegna þess að ég kosta tvö systkin í námi í gegnum samtökin hans og reyni að pressa á hann að finna gott heimili fyrir blessaðan drenginn. Einn daginn spurði hann Raj ,,bróðir, getur þú hjálpað mér héðan burt? Ég vil fara í skóla".

Ég man satt að segja ekki hvað drengurinn heitir en þegar ég horfi á myndina hér að neðan rifja ég upp þegar ég fylgdist með honum á fimmta deginum í laumi út um glugga á einum teskálanum. Hann hafði lokið við að vaska upp í jökulvatninu og kynda upp í skálanum og stóð því við göngustíginn og svipaðist um eftir túristum (til að bjóða í teskálann). Ég reyndi að skilja hvað drengur í þessari stöðu á þessum undarlega stað hugsaði um í frístundum sínum og hvort hann ætti einhverja vini eða vinkonur sem hann gæti spjallað við ef hann á annað borð hefði leyfi til þess. Ég fylgdist með fjórum eldri strákum sem sáu um teskála hinum megin við göngustíginn kalla á vin okkar einhver ókvæðisorð. Ég heyrði ekkert sem þeim fór á milli en ég sá og skildi nokkurn vegin hvað fólst í því sem eldri drengirnir sögðu. Þegar vinur okkar leit niður og reyndi að brosa yfir gríninu sem var á hans kostnað fann ég fyrir óþægindum sem gáfu til kynna hve nálægt þessir fáu dagar höfðu fært mig þessum dreng. Margir þeir sem hafa orðið á vegi mínum í þessu ferðalagi áttu í töluvert meiri erfiðleikum en vinur okkar í kókbolnum. Fáir urðu mér þó jafn kærkomnir sökum þess að ég hitti þá aðeins í skamma stund.
Raj (t.v.) og drengurinn síbrosandi
Raj aðhyllist kommúnisma en kommúnistar eiga 5 sæti, líkt og Maóistar, á 22 manna þingi Nepala. Raj vill meina að rétta leiðin fyrir Nepal til að gerast lýðræðisríki sé að kjósa kommúnista. Hóteleigandi sem ég spjallaði við í Pokhara eftir fjallgönguna vildi meina að margir Nepalar hefðu enga hugmynd um hvað kommúnismi og maóismi gengju út á. Margir þættir hafa skemmt ímynd hinna flokkanna sem eru á þingi. Til að byrja með hafa þeir þurft að vera hliðhollir konunginum í langan tíma og hafa þurft nokkuð mikla hvatningu til hætta því. Í öðru lagi er núverandi forsætisráðherra 84 ára að aldri og virðist eðlilega ekki vera rétti maðurinn til að leiða hið Nýja Nepal til lýðræðis. Önnur ástæða eru lág laun þingmanna, 4000 krónur á mánuði án ellilífeyris, sem hefur skemmt orðspor eldri flokkanna með spillingarmálum. Aldursdýrkun verður líka til þess að steingervingar sitja í efstu sætum.
Konungurinn fékk áður rúmlega 200 miljónir á mánuði en eftir að hann var gerður valdlaus voru launin lækkuð í um 120 milljónir á mánuði.

Eftir fjallgönguferðina fór ég í 6 daga reisu vestur til Pokhara og Bandipur. Bandipur er æðislegt þorp, byggt á fjallahrygg ekki langt frá dásamlegum hvítum 6000+ tindum. Á aðalgötu Bandipur sjást fáir túristar en hundruðir skólabarna þegar skólar þorpsins opna og loka dyrum sínum. Ég var ansi hissa á, að því er virtist, ótrúlegri kynorku bæjarbúa - fyrir hvert hús í þorpinu sá ég 10 börn á aldrinum 6 til 15. Seinna heyrði ég að japanskar nunnur hafi opnað kaþólskan skóla í þorpinu á sjötta áratug síðustu aldar. Fleiri kristnir skólar hafi svo fylgt í kjölfarið þegar hróður fyrsta skólans barst um sveitirnar og börn fluttust í heimavistir þorpsins - sem útskýrir barnafjöldann. Upphaflega ætlaði ég að stoppa við í einn sólarhring í Bandipur en átti á endanum þrjá frábæra daga.

Pokhara er ein vinsælasta túristaborgin í Nepal. Vegurinn til Pokhara var ekkert annað en slóði þegar svissneskur ,,landkönnuður" ,,uppgötvaði" þorpið, sem þá var, á sjötta áratugnum. Í dag er Pokhara álíka fjölmenn og Reykjavík. Bæði í Pokhara og Bandipur stundaði ég einhverskonar útivist, þ.e. hjólaði og gekk upp á nærliggjandi hóla og tók myndir með nýju linsunni sem ég hafði keypt nokkrum dögum áður.

Þann 10. maí flaug ég frá Kathmandu til Delhi, þaðan til London og loks til Keflavíkur. Alls tók ferðlagið um 24 klukkustundir. Á flugvellinum í Delhi átti ég góða stund þegar fulltrúar flugfélagsins Jet Airways tóku eftir því að í vegabréfi mínu var pakistanskur stimpill. Eftir smá yfirheyrslu um hvað ég hafi viljað til Pakistans og svo Indlands reyndu þeir hvað þeir gátu að finna eitthvað að vegabréfinu mínu, t.d. þeirri staðreynd að enginn enskur stimpill er í vegabréfinu þrátt fyrir millilendingu mína í Englandi áður en ég heimsótti Indland. Eftir útskýringar vísuðu þeir mér beint í flugvélina - Pakistana sleikjur eru ekki vinsælar hjá sumum Indverjum. Jet Airways er annars frábært flugfélag.

Ég hugðist eyða 8. og 9. maí í Kathmandu til að kaupa gjafir en náði að rumpa því af á 4 klukkustundum og ákvað í skyndi að fara í eina loka raftingferð 9. maí, þá þriðju í ferðinni. Ferðin var ágæt og búlgarski hópurinn, sem ekki vissi hvað 'forward' eða 'backward' þýddi, ógleymanlegur.

Ég er kominn aftur til Íslands og þessi færsla er mögulega næstsíðasta færslan um ferðina. Auðvitað hefur ferðin haft mikil áhrif á mig eins og hún átti að gera svo að ég get engu lofað um að innslög í náinni framtíð verði ekki innblásin af ferðinni á einhvern hátt. Ég er farinn að vinna á veðurstofunni við jarðskjálftarannsóknir (??) og hef í dag aðlagast lífinu á Íslandi. Hvað varðar seinasta innslagið um ferðalagið í Suður-Asíu að þá finnst mér ég skulda færslu um trúarbrögðin í Suður-Asíu eins og þau birtust mér.

Ég mun halda áfram að senda inn myndir á myndasíðuna og fáein myndbrot á youtube síðuna. Þar sem ég er farinn að vanda mig meira eftir að ég kom heim við tölvuvinnslu á myndunum mun ég líklegast geta lifað á því safni sem ég á enn eftir í nokkrar vikur.
Ég mun halda áfram að senda inn færslur á þessa síðu þó að sendingarnar gætu orðið jafnvel óreglulegri en áður.

Tuesday, April 24, 2007

Frábærir dagar í stríðshrjáðu landi

Eins og hefur komið fram áður eru Nepalar að reyna að losa sig við konunginn. Í dag var haldið upp á það að eitt ár er liðið frá því að konungurinn kom fram í sjónvarpi landsmanna og tilkynnti að hann muni láta af stjórn landsins. Um daginn heyrði ég nokkrar ljótar sögur af honum sem ég hafði ekki lesið mér til um á netinu þegar ég skrifaði um Nepal í desember. Í desember minntist ég á að árið 2001 hafi þáverandi erfingi krúnunnar, Dipendra, drepið foreldra sína, konunginn og drottninguna, en síðan framið sjálfsmorð. Þetta er það sem opinberir aðilar gáfu til kynna þá en í dag komst ég að því að meirihluti Nepala trúir því að Dipendra hafi verið fundinn með skotsár í bakinu og hafi því verið drepinn ásamt foreldrum sínum. Margir trúa því að núverandi konungur, Gyanendra, næsti erfingi á eftir bróðursyni sínum Dipendra, hafi komið þessu öllu í kring.
Fleiri ljótar sögur heyrði ég af konunginum Gyanendra.
Konungsfjölskyldan hefur þangað til í júní 2006 verið yfir lögin höfð, þ.e. ekki er hægt að ákæra meðlimi hennar fyrir lögbrot. Gyanendra lagði niður ríkisstjórn landsins í febrúar 2001 í því yfirskyni að geta sjálfur séð um baráttuna við uppreisnarmennina, Maóistana. Í framhaldinu valdi hann sjálfur 3 forsætisráðherra en rak þá hvern af öðrum en einnig hafði hann slæm áhrif á fjölmiðlafrelsi í landinu - Nepal átti t.d. heimsmet a.m.k. þrjú ár í röð í því hve margir fjölmiðlamenn hurfu eða voru handteknir.
Nepölum lýst líklegast ekki vel á að krónprinsinn taki við krúnunni af Gyanendra þar sem hann virðist vera afar drykkfeldur maður og hefur samkvæmt fjölmiðlum drepið a.m.k. 6 menn í ofsafengnum ökuferðum sínum. Hver veit hve mörgum hann hefur mútað til að leka ekki fleiri slysum í fjölmiðla.
Í dag er Gyanandra algjörlega valdlaus en reynir með miklum auð sínum að finna leiðir til að grafa undan núverandi stjórn landsins sem síðan 14. janúar 2007 er skipuð maóistum að einum fjórða hluta á þingi. Frá því 1. apríl á þessu ári hafa Maóistar einnig tekið við fáeinum ráðuneytum landsins og hafa ráðherra yfir þeim úr sínum röðum.

Maóistarnir og borgarstríðið í Nepal er auðvitað sér kapítuli. Eins og aðrir Maóistar, t.d. vopnuðu maóistarnir í austur Indlandi , virðast þeir nepölsku eiga rætur sínar í langvarandi vanrækslu yfirvalda á þeim fátæku. Ég ætla ekki að skrifa um borgarstríðið í Nepal en þess í stað að skrifa um stöðuna í Nepal eins og hún birtist mér í gegnum fjölmiðla og samtöl við Nepala.

Vopnahlé tók gildi í Nepal milli stríðandi fylkinga í maí á síðasta ári og í framhaldi af því samþykktu Maóistarnir og forsætisráðherra Nepala að sitja saman á þingi og vinna saman að því að koma konungi Nepal frá völdum. Vopnabúr Maóista hefur verið afhent yfirvöldum smám saman með milligöngu sameinuðu þjóðanna. Enn í dag eru þó um 20 varðstöðvar maóískra hermanna í landinu sem verða ekki lagðar niður fyrr en meðlimir Maóistaflokksins treysta öðrum embættismönnum til þess að sparka þeim ekki út af þingi.

Það er ekki hlaupið að því að leggja niður heilan her manna og barna sem hafa barist við lögreglu og her Nepala í nokkur ár, þ.e. þá sem ekki tilheyra varðstöðvunum. Sumir hverjir geta ef til vill farið aftur til síns heima og hafið störf að einhverju tagi en nú á síðustu vikum berast enn fregnir af vopnuðum Maóistum sem skattleggja bændur og eiga í vopnuðum átökum við þorpsbúa. Það kann að vera erfitt fyrir suma að fara aftur heim þegar þeir hafa ef til vill skattlagt sín eigin þorp óhóflega og gert búnað eins og farartæki upptæk. Ég las frétt í blaði um daginn sem sagði frá Nepala sem hafði misst jeppa sinn í hendur Maóista fyrir tveimur árum síðan. Bróðir fórnalambsins fann svo jeppann fyrir tilviljun fyrir utan hótel í Kathmandu og þá kom í ljós að hátt settur pólitíkus í Maóista flokknum hafði notað hann sem einkabíl.

Lögreglan virðist fara varlega í að handtaka Maóista sem eru til vandræða eins og þá sem skattleggja bændur en gerir þó enn rassíur í að leita t.d. að vopnum í höfuðstöðvum Maóista. Auðvitað vill engin vopnuð átök við Maóistana aftur. Maóistar hafa enn völdin í afskekktum dölum Nepal en hægt og bítandi taka sveitir lögreglunnar við. Stundum virðist þó gæta misskilnings um hver hefur völdin, t.d. fóru lögreglusveitir um daginn þrjár fýluferðir í afskekktan dal til að taka við völdum af Maóistum. Ungar Maóistasveitir taka sjálfsagt við skipunum frá stjórnmálaleiðtogum Maóista en sveitir lögreglu taka (óbeint) við skipunum frá öðrum stjórnmálamönnum sem tilheyra kanski ekki sama flokki.
Skoðanir Nepala á Maóistum, sem voru harðlega gagnrýndir af sameinuðuþjóðunum fyrir að nota barnunga hermenn í borgarstríðinu, virðast jafn skiptar og skoðanir Íslendinga á Sjálfstæðismönnum.

Túristi tekur venjulega aðeins eftir vandamálum Nepala hvað varðar fátækt. Síðustu daga hef ég t.d. búið á aðal túristasvæði Nepal í Kathmandu og þar hef ég allt sem ég þarf - þó ég geri auðvitað ferðir út úr þessari 'einangrun'. Það eina sem ég hef séð óvenjulegt var þegar ákafur maður stökk inn í rútuna sem ég var farþegi í til að tilkynna nepölskum farþegum og bílstjóra að næsta dag yrði verkfall og mótmæli á aðalgötu Kathmandu. Mótmælin sá ég ekki og heyrði heldur ekki af þeim. Fámenn mótmæli virðast nokkuð algeng, þau geta ýmist verið skipulögð af Maóistum eða andstæðingum þeirra. Margir eiga auðvitað um sárt að binda eftir borgarstyrjöld og undanfarna daga hefur félag fórnarlamba Maóista (Maoist Victims Association) staðið fyrir mótmælum og um 200 manns úr sveitum Nepal hafa tjaldað fyrir utan borgina í þessum tilgangi.

Raftingferð í Bhote Kosi

Ég fór í frábæra tveggja daga rafting ferð niður Bhote Kosi fyrir skömmu. Nokkuð lítið vatn var í ánni báða dagana sem skapaði æðisleg vandræði á leiðinni niður. Nánast ómögulegt er að velta rafting bátunum en eina hættan er kanski sú að róðrarmenn eða konur hendist útbyrðis ef menn halda sér ekki vel í bátinn í stærstu flúðunum. Enginn féll útbyrðis á dögunum tveimur fyrir utan 3-4 árar en þeim var öllum bjargað af Kajakmönnunum sem fylgdu okkur hvert 'ármál'. Sumir voru þó nálægt því að detta útbyrðis.

Ég átti nokkrar einstakar upplifanir á ánni. Hver ræktanlegur fermetri er notaður í Nepal og því voru bröttu brekkurnar umhverfis ánna þakin hrísgrjónaþrepum. Börn bænda kölluðu oft til okkar og veifuðu og skemmtilegt var að sjá bændur í innsveitum Nepal vinna á ökrunum og einnig börn og fullorðna sem veiddu fisk í ánni með geysilöngum bambusveiðistöngum. Við sigldum í gegnum þorp sem umkringdu brýr yfir ánna og þar þurfti maður að hafa sig allan við að veifa börnum á brúnni, í húsunum eða á svölum blokka sem virkuðu á mann eins og stúkur áhorfenda. Dalurinn sem áin hefur sorfið var afar fallegur.

Skemmtileg vandamál sem tengdust litlu vatnsmagn árinnar einkenndust af því að stór grjót stóðu upp úr flúðunum. Leiðsögumenn okkar náðu þó yfirleitt að stýra okkur fram hjá þeim og á tveimur stöðum létu þeir okkur ganga fram hjá flúðunum.
Á einum stað skorðaðist báturinn ofan á steini þannig að áin tók að streyma yfir hann. Það var nokkuð kalt en það tók ekki langan tíma að losa hann.
Í eitt skipti fór einn báturinn upp á grjót í miðri ánni og var pikk-fastur. Stuttu seinna kom annar bátur sem tilheyrði sömu ferð og keyrði yfir þann fyrrnefnda en auk þess flæddi vatn yfir hann svo hann varð sjálfsagt mörg tonn að þyngd (fyrir utan kraftinn frá straumnum sem hélt honum föstum). Á endanum þurfti að koma fólkinu yfir á næsta bakka en sumir áttu erfitt með að stíga ofan í straumharða ánna þó að margar hendur leiðsögumanna og þorpsbúa héldu þeim stöðugum. Eftir nokkurn tíma unnu fjórir leiðsögumenn það þrekverki að velta seinni bátnum og fengu að launum lófaklapp þorpsbúa og okkur hinna.


Framhaldið
Ég er á leiðinni í 8 eða mögulega 13 daga fjallgöngu hér fyrir norðan Kathmandu í Langtang (ísl. Langitangi, takk Guðrún). Ég mun þramma upp í yfir 5100 metra hæð ef allt gengur að óskum og vonandi geng ég stoltur hluta af leiðinni í sokkum merktum með íslenska fánanum. Ekki verður úr Tíbetsku ferðinni en þegar ég kom til Kathmandu var ég orðinn svo rútuþreyttur að ég gat ekki hugsað mér dýra níu daga ferð til Lhasa og svo að þurfa að koma mér aftur til baka.
Hluti göngunnar minnar verður víst á svæði í um 4 km fjarlægð frá Kína/Típet sem telst vera nokkuð típetskt. Þeir Típetar sem flýja heimaland sitt þurfa einmitt að fara um skörð sem geta hæst verið um 5000-6000 metrar.

Ég á bókað flug til Íslands þann 10. maí, ég hlakka mikið til að hitta fólkið mitt heima. Ég mun skrifa meira á þessa síðu um ferðina þó að eðlilega muni lítið gerast hér eða á myndasíðunni á næstu átta dögum a.m.k .

Fólk á förnum vegi
Ég hef hitt skemmtilegt fólk á ferðum mínum undanfarið eins og endranær.

Í Rishikesh gisti ég á farfuglaheimili sem hét Moma's Guest House. Heimilinu var stjórnað af indverskri mömmu sem kallaði alla gesti 'sonur' eða 'dóttir' eftir atvikum. Fólk sem kom til hennar í leit að gistingu kallaði hún þessum nöfnum líka, umsvifalaust - hvort sem hún átti herbergi eða ekki. Á kvöldin eldaði hún alltaf frábæran 'eins og þú getur í þig látið'-Thali sem þó var ekki alltaf eins því Thali er margrétta indversk máltíð.

Í Varanasi átti ég frábærar stundir á kvöldin niður við Ganges í taflmennsku. Hópur áhugasamra taflmanna söfnuðust alltaf saman á sama stað upp úr klukkan 5 eftir vinnu og tefldu langt fram á kvöld.

Í Kathmandu kynntist ég frábærum ísraelskum, samkynhneigðum búddista. Samkynhneigðir fá ekki mikinn skilning í gamla testamentinu og mögulega þess vegna hefur vinur minn, Shahaf, leitað í Búddisma. Shahaf varð vitni að því þegar brjálæðingur réðst á gay-pride göngu samkynhneigðra í Jerúsalem vopnaður hnífi fyrir fáeinum árum síðan.
Shahaf var duglegur að fræða mig um búddista hofin sem við heimsóttum hérna í Kathmandu dalnum. Á einum tímapunkti var ég, þökk sé honum, staddur í herbergi mikilsvirts Búdda prests. Það var svolítið undarlegt að vera ekki búddista trúar og fylgjast með öðrum búddistum, sem báru greinilega mikla virðingu fyrir honum, spjalla við hann. Eins og hefð er fyrir gekk ég til hans með silkiklút og lagði um hálsinn á honum og buktaði mig.
Shahaf gefur tíbetsku menningarfélagi vinnu sína í Dharamsala. Í dag flaug hann þangað aftur og heldur þar áfram að hanna heimasíðu fyrir mikilvægt bókasafn Tíbeta.
Shahaf kom mér á óvart þegar hann sagði mér að 70-80% Ísraela væru ekki sérstaklega trúaðir.

Þjóðverja kynntist ég í raftingferðinni. Hann var skemmtilegur kauði en alveg sérstaklega týpískur Þjóðverji því hann á stóran BMW, elskar pulsur og bjór og talar með æðislegum þýskum hreim.

Friday, April 13, 2007

Ekki-svo-alvarlegt innslag

Ég er óðum að jafna mig eftir að hafa borðað heitan hafragraut og heitan búðing í eftirrétt í hitanum við landamæri Nepal og Indlands. Ég er ekki viss hvort ég skolaði þessu niður með dönskum bjór eða hvort það hafi verið öfugt. Í öllu falli var þetta furðuleg máltíð og ég svitnaði eins og svið í suðupotti jafnvel þótt klukkan hafi verið að ganga 8 um kvöld og mesti hiti dagsins yfirstaðinn.

Fyrir utan hótelið mitt er trukkalengja sem bíður þess að komast yfir landamærin, ekki ósvipuð þeirri sem ég sá við landamæri Pakistan. Á þessum landamærum þarf ekki að tæma alla trukkana yfir í trukka í næsta landi enda eru samskipti Nepal og Indlands mikið betri en Indlands og Pakistan. Á landamærunum eru því engir bláir maurar - það var það sem ég kallaði burðarmennina á landamærum Pakistan. Annars hef ég ekkert á móti maurunum, blessi þá alla með tölu og það ætti að vera auðvelt því þeir voru allir með númer á handleggnum.
Mig grunar að nokkrir trukkanna í þessari tveggja kílómetra lengju hafi verið að flytja mat til Nepal, Nepal er fátækasta ríkið í suður Asíu. Nú er þó útlit fyrir breytta og betri tíma í Nepal. Maóistarnir eru komnir inn í ríkisstjórn og líklegast hættir að þjálfa börn í skæruhernaði á meðan konungurinn hefur nánast ekkert vald lengur. Núverandi konungur hefur sýnt einræðistilburði á þessari nýju öld en bráðum verður honum sparkað algjörlega.

Í fyrramálið held ég til Kathmandu, þar finn ég vonandi svala.

Ég skulda nú eitthvað í ferðasögunni. Frá því ég yfirgaf fjallabæinn í Himachal Pradesh - svitabæ Bretanna - hef ég heimsótt Sewa Ashramið, eins og komið hefur fram, en auk þess Uttaranchal héraðið og Varanasi.
Við landamæri Himachal héraðsins og Uttaranchal átti ég eftirminnilegt ævintýri á reiðhjóli sem ég segi aðeins frá hér (smellið á myndina):
Eftir hjólreiðatúrinn fór ég til Dehra Dun og kynntist þar tveimur Indverjum á fyrstu 4 tímunum. Þeir eru báðir í frásögu færandi. Annar þeirra, Randy, er fyrrum stærðfræðikennari sem sestur er í helgan stein og reynir hvað hann getur að lifa af systrum sínum og gjafmildum túristum sem hann leggur sig fram við að spjalla við. Þar sem hann vann aldrei hjá ríkinu hefur hann engan ellilífeyri. Hann býr í hrörlegu en stóru húsi sem hann erfði frá foreldrum sínum. Hann giftist aldrei. Ég gaf blessuðum karlinum ekki margt, máltið og stöku kaffibolla.

Öðrum ungum manni kynntist ég í Dehra Dun, honum Anupam. Anupam er á aldur við mig og var staddur á sama stað til að hitta unnustu sína. Unnusta hans er hins vegar töluvert yngri en við Anupam eða 18 ára. Unga parið ætlar að gifta sig eftir um hálft ár og hefur valið fyrrum portúgölsku nýlenduna Góu til þess - 'partýpleis' Indlands. Parinu var ekki komið saman af foreldrum eða ættmennum og því mun hjónaband þeirra kallast "Love Marriage" en ekki ráðgert hjónaband. Eitthvað var Anupam súr út í unnustuna þegar ég hitti hann því hún hafði lítið viljað hitta hann frá því hann tók sér frí í Delhi og gerði sér ferð norður til Uttaranchal (þar sem hann gistir hjáfrænda sínum). Hann sagði mér frá vandræðum þeirra um afbrýðissemi og annað týpískt sem hlítur að hrjá par í sínu fyrsta sambandi á unga aldri.
Anupam spurði mig ráða en einu ráðin sem ég hafði voru evrópsk eins og reynsla mín öll. Ég hef velt fyrir mér hvernig fara eigi að því að tala um hjónaband eða samband við einhvern sem hefur allt annað viðhorf til sambanda. Ég bíst við að tvær manneskjur hafi sjaldnast nákvæmlega sama skilning/tilfinningu á hvaða hugtaki sem er en til að hafa söguna stutta og óalvarlega sagði ég honum einfaldlega að 18 ára stúlka, sérstaklega eins og hann lýsti henni, væri ekki tilbúin í hjónaband þar sem hún þekkir sjálfa sig ekki nógu vel. Evrópskt ráð en óindverskt.

Eftir Dehra Dun fór ég til Rishikesh. Rishikesh er stundum kölluð jóga-höfuðborg heimsins og bítlarnir vörðu 1-2 mánuðum þar eins og frægt var. Liverpool búsetinn ég gat ekki látið mig vanta á stórfenglegar bítlaslóðir Rishikesh. Nú er varla liðið hálft ár frá því ég og mamma fórum í útskriftina í Liverpool og á bítlasafnið í sömu ferð.

Sérstök hótelherbergi, sem bítlarnir gistu sjálfsagt aldrei í, að hverfa í gróðri

Ég eyddi einum eftirmiðdegi með alvöru Baba - þ.e. Baba sem biður ekki um peninga, mat eða neitt annað í staðin fyrir tíma sinn og hjálp - ég og 2 aðrið túristar stunduðum smá hugleiðslu við bakka Ganges og fórum í gönguferð í gamalt Hindúahof fyrir ofan Rishikesh. Þessi baba, eins og margir aðrir babar, reykir kannabisefni stíft.
Ég læt duga að setja inn myndir með lýsingum á næstu 2 dögum sem sýna bítlaslóðirnar í Rishikesh.

Rishikesh stúlka og barn

Í Rishikesh fór ég í rafting í Ganges, ég hafði aðeins farið einu sinni áður í rafting á Jökulsá Austari (já, Austari). Ég hitti einn Nepala þar sem þekkti nokkra Nepala sem vinna hjá frænda mínum við rafting ferðir á norðurlandi.Eftir Rishikesh fór ég til Haridwar og þaðan í Sewa Hælið (sjá síðasta innslag). Frá Sewa fór ég svo í Corbett tígrisdýraþjóðgarðinn. Þar sá ég fimm tígrisdýr á fyrsta hálftímanum - margir eyða 2-3 dögum þarna án þess að sjá þau - og seinna villta fíla, kyrkislöngu, krókódíla og dádýr til að nefna það helsta. Morguninn eftir tígrisdýrafundinn var ég óvænt spurður hvort ég hefði áhuga á að fara á fílsbaki frekar en í jeppasæti inn í þjóðgarðinn en ég og þeir fjórir Bandaríkjamenn sem ég ferðaðist með þarna höfðum gefið upp alla von um á gera slíkt því biðlistar voru langir. Ég þáði það og hafði gaman af að geta farið út fyrir vegi þjóðgarðsins og inn á veiðilendur tígrisdýranna. Við sáum engin tígrisdýr í fílaferðinni sem þó var engin fíluferð því andrúmsloftið var spennuþrungið og hrægammar og hlaupandi dádýrshjarðir gerðu ferðina góða.

Varanasi var síðasti viðkomustaður minn í Indlandi. Ganges áin er orðin frekar skítug þegar hún hefur runnið alla leið frá Himalaya fjallgarðinum og til Varanasi og því sleppa margir Hindúar því að drekka vatnið úr henni og fáir túrista baða sig í henni þar. Ganges áin virtist nokkuð hreynleg í raftingferðinni í Rishikesh en þó fann ég fljótlega subbulega lykt eftir að við lönduðum bátnum í grennd við fyrstu byggðir í Rishikesh.
Varanasi er vinsæll ferðamannastaður enda er hún ein heilagasta borgin í Indlandi í augum Hindúa og Búddista. Þeir sem baða sig í Ganges ánni hreynsa burt allar sínar syndir og þeir sem deyja í grennd við Ganges í Varanasi fara beint í himnaríki samkvæmt Hindúatrú. Sumir hindúar flytja til Varanasi á gamals aldri til þess að njóta þessara fríðinda.

Ég var hissi yfir því hve margir Indverjar böðuðu sig og gleyptu vatn úr Ganges ánni. Skelfilegar niðurstöður mælinga á bakteríuinnihaldi, hálf-brenndum líkamsleifum og skolpi virðist ekki hræða pílgrímana mikið.

Monday, April 09, 2007

Umferðin og Ashramið

Á götum Indlands má finna bíla, rútur, mótorhjól, vespur, traktora, flutningabifreiðar, þríhjólaða vagna eins og Auto Rickshaw og Rickshaw, mototaxi (samsuða mótorhjóls og pallbíls), share auto (þríhjóluð Rickshaw-rúta) og einnig tvíhjólaða vagna dregna af ösnum, vatna-buffalóum, uxum, hestum, mönnum og múlösnum.

Venjulega eru öll þessi farartæki yfirhlaðin af mönnum og varningi og oft eru fólksflutningafarartæki líka notuð fyrir flutning á varningi og eins eru flutningabifreiðar notaðar til fólksflutninga.
Þessi farartæki má öll sjá á sömu götu á sama augnabliki.
Ekki er óalgengt að sjá traktor draga stóra kerru fulla af fólki - mögulega hundrað manns. Flutningabifreið gæti verið notuð til flutninga á varningi eina leið en fólki á leiðinni til baka en með bílstjóranum sitja að jafnaði um 4 farþegar óháð því hvað er á pallinum. Stundum er fólk sent upp á þak rútu ef hún er troðin - og þá er hún virkilega troðin, því rútur eru yfirleittar troðnar.
Oftar en einu sinni hef ég séð 6 farþega á einu mótorhjóli. Margoft hef ég séð reiðhjólsbílstjóra rickshawsins draga á eftir sér 6 manna fjölskyldu.
Þegar varningur er fluttur á milli staða í trukkum, traktorum, vagni dregnum af húsdýri eða flutnings-rickshaw er allt gert til að troða sem mestu í pallana og framlengja þá uppávið.
Með öðrum orðum eru vélar, skepnur og menn notaðar til hins ítrasta við flutninga hér í Indlandi.

Eðlilega gengur indverska umferðin stundum hægt fyrir sig, sama hve mikið menn flauta. Flautan gegnir mikilvægu hlutverki í Indlandi því hér nota menn varla baksýnisspegla. Það virðist á ábyrgð þess sem tekur fram úr að flauta áður en hann gerir það frekar en þess sem á undan fer að halda sig á einni akrein og fylgjast með baksýnisspeglunum. Akreinar eru reyndar ekki nærri því alltaf vel skilgreindar.
Þar sem hámarkshraði ökutækjanna hér að ofan er mjög mismunandi og þar sem þjóðvegir Indlands eru oft ekki nógu breiðir eða sléttir fyrir umferðina þarf ekki að koma á óvart að indverskir bílstjórar taka fram úr mjög reglulega. Hér virðist svolítið öðruvísi hugmyndafræði tíðkast við framúrakstur: Sá sem tekur fram úr gerir yfirleitt ráð fyrir því að þeir sem keyra á móti vilji frekar hægja ferðina snögglega eða keyra út í kant frekar en að lenda í alvarlegum árekstri. Það er því oft sem farartæki á eigin akrein þurfi að gefa réttinn yfir á þann sem tekur fram úr en hann er jú yfirleitt á meiri ferð og getur ekki farið á eigin akrein í miðjum framúrakstri. Áður en þeir gefa réttinn og bremsa blikka þeir þó ljósum og flauta í 1-2 sekúndur - sem stundum virðast 1-2 mínútur - til þess að láta ekki valta algjörlega yfir sig.

Andlát í umferðarslysum á Íslandi virðast ekki vera mikið færri en þau á Indlandi miðað við höfðatölu, merkilegt nokk. Það skal þó taka fram að höfðatölusamanburðurinn er eiginlega ónýtur sökum þess hve margir nota farartæki á Íslandi miðað við á Indlandi.

Þangað til nýlega hafði Indian Railways (IR) einokunarstöðu yfir lestarsamgöngum í landinu. Í dag hefur IR mestan fjölda starfsfólk í öllum heiminum og á ári hverju flytja lestir fyrirtækisins 6 milljarða manna og 750 milljón tonn af varningi.
Líkt og önnur farartæki í Indlandi eru lestirnar yfirfullar, þó eru aldrei fleiri farþegar í dýrari farrýmum lestanna en sem nemur sæta- eða beddafjölda. Þeir fátækustu nota tómar faraangursgeymslur lestanna til að ferðast á milli staða. Troðningur á ódýrustu farrýmum lestanna verður oft til þess að fólk dettur út úr lestunum á ferð og stórslasast. Sumir þessara óheppnu farþega stinga upp kollinum á Sewa hælinu (e. Sewa Ashram) sem ég heimsótti um daginn.

Sewa Ashram
Sewa hælið var stofna af kristnum Hollendingi sem dag einn í ferðalagi sínu í Indlandi ákvað að taka að sér hætt kominn þurfaling og flytja hann í herbergið sitt í Delhi. Hollendingurinn Ton, sem í dag er kallaður Ton Baba, stjórnar 120 manna hæli fyrir sjúka, slasaða, munaðarlausa og ósjálfbjarga þurfalinga sem hann finnur á sunnudagsrúntum sínum í Delhi.


Ton Baba (til vinstri)


Heimsókn mín í Sewa hælið var vægast sagt mögnuð lífsreynsla og jafnframt áhrifamesta lífsreynslan mín hérna úti. Af veikum mætti reyndi ég að hjálpa til í þá tvo daga sem ég gisti í Sewa hælinu. Meðal þess sem ég gerði var að taka myndir með það að markmiði að færa þær inn á myndasíðuna mína og vekja fólk til umhugsunar. Ég hjálpaði líka manni við að læra að ganga og aðstoðaði áströlsku vinkonu mína Erin í leikfimitímunum sem hún heldur fyrir íbúa hælisins. Sewa hælið þiggur frjáls framlög í gegnum heimasíðu sína.
Sjá nýtt myndaalbúm á síðunni minni fyrir frekari upplýsingar.


Daginn sem ég heimsótti hælið dó gamall maður sem Ton hafði nýlega fundið. Um þennan mann má lesa á bloggsíðu Erin. Myndbrot úr jarðarförinni er á youtube síðunni minni en myndir á myndasíðunni.

Sunday, March 25, 2007

Himalaya ferðalag

Kæri lesandi!

Ég er staddur í fjallaborginni Shimla en hún er jafnframt höfuðborg Himachal Pradesh héraðsins. Himachal er helmingurinn af Íslandi að stærð og íbúar þess eru um 6 milljónir talsins. Shimla er í um 2200 metra hæð yfir sjávarmáli og þess vegna varð Shimla kærkominn staður fyrir sveitta Breta þegar þeir tóku að flykkjast hingað árið 1819 til að þurka af sér sléttu-svitann í hinum heitu apríl og maí mánuðum (áður en regntímabilið byrjaði). Það er alveg furðulegt að koma í þessa borg og finna evrópskan arkítektúr eftir allt það sem á undan hefur gengið, alveg magnað einhvernveginn.

Á fjórða degi í Mcleod Ganj var ég í sakleysi mínu að taka myndir af gömlum Tíbeta sem hafði flúið landið 2 árum á undan Dalai Lama þegar Sonam, fimmtugur Tíbeti sem búsettur er í Nepal, tók að spjalla við mig. Sjálfur flúði Sonam Tíbet þegar hann var um tvítugt, hann fékk mig til umhugsunar hvað felst í því að vera flóttamaður - að geta ekki farið til síns heimalands! Ég ferðast glaður um Indland og veit að ég get alltaf snúði aftur heim til landsins míns, það geta Tíbeskir flóttamenn ekki gert.
Allavega. Eftir að Sonam hafði fylgst með mér taka myndir af gamla manninum spurði hann mig hvort ég hefði áhuga á að gerast opinber ljósmyndari Vestur-Tíbeta, samtakanna sem hann er í forsvari fyrir, á hátíð sem haldin var 19. og 20. mars í Mcleod Ganj. Ég var fyrst efins, þar sem það þýddi að ég þyrfti að ,,bíða" í 5 daga eftir hátíðinni, en eftir að ég skráði mig á matreiðslunámskeiðið og komst að því að ég fengi tækifæri til að taka myndir af Dalai Lama, þegar Vestur-Tíbetarnir heilsuðu honum á leið í Búdda-hofið sitt, sló ég til.
Hátíð Vestur-Tíbeta fólst í því að heilsa upp á guðinn sinn, Dalai Lama, dansa svolítið fyrir utan bústaðinn í fullum skrúða og svo almennilega næsta dag í menningarmiðstöð Tíbeta í Mcleod Ganj. Um 12 mismunandi svæði Vestur-Tíbet áttu sína fulltrúa á hátíðinni, búninga, dans, söng og trumbuslátt. Búningarnir voru gjörsamlega ótrúlegir!
Ég hef tekið eftir því á ferðum mínum í Himachal Pradesh að Tíbetarnir hérna virðast eiga nóg af peningum. Til að mynda er menningarmiðstöðin sem ég mynntist á mikilfengleg og eitthvað hef ég séð af nýjum hofum og einnig hof sem eru í smíðum.
Dalai Lama er víst forríkur. Á meðan Dalai Lama var í hofinu biðu Vestur-Tíbetar og aðrir í um 3 tíma eftir því að sjá hann aftur þegar hann gekk til baka í bústað sinn. Af þessum þremur tímum fór um hálfur tími í að bera gjafir inn í bústaðinn hans. Um 800 manns (engar ýkjur!) báru glæsilega umbúin búddista rit, silkiklúta, mat ( t.d. hrísgrjónasekki) en þó aðalega gullslegnar styttur af búdda inn í bústað hans. Dalai Lama gefur víst mikið til líknarmála.

Því miður var Sonam of seinn til að leggja inn umsókn mína með tilheyrandi passamyndum til að fá leyfi til myndatöku af Dalai Lama þegar blessaður karlinn gekk til hofs. Dalai Lama býr með um 100 tíbeskum vörðum og fyrir utan bústað hans eru jafnan indverskir hermenn. Dalai Lama á sjálfsagt enga óvini fyrir utan kanski nokkra Kínverja.

Mér fannst nú of langt gengið þegar Sonam kynnti mig sem atvinnuljósmyndara fyrir kunningjum sínum í samtökunum en það keyrði um þverbak þegar hann á öðrum degi hátíðarhalda kynnti mig sem opinberan atvinnuljósmyndara í hátalarakerfi menningarmiðstöðvarinnar fyrir framan um 1000 áhorfendur. Þetta gaf mér þó vald til að stýra hópunum 12 í stellingar fyrir hópmyndatökur sem og frelsi til að mynda dansatriðin úr innanverðum danshringnum. Ég tók um 350 myndir á seinni deginum, þær hefðu margar orðið betri ef gamalmennin í hópunum hefðu gert svolítið af því að brosa. Þetta var samt frábær upplifun og á endanum ákvað ég að taka enga greiðslu fyrir þetta, enda er ég ekki atvinnuljósmyndari.

Eftir hátíðarhöldin í Mcleod Ganj stefndi ég á Shimla en ákvað þó að fara lengri leið til þess að koma við í Mandi og til að skoða Rewalsar vatn, hátt uppi í fjöllunum. Rewalsar vatn er heilagt í augum bæði Hindúa og Búddista og því má finna mörg hof í kringum vatnið. Í stað þess að taka rútu frá vatninu aftur til Mandi gekk ég í um tvo tíma eftir veginum sem rútan keyrir. Útsýnið var með ólíkindum.

Ferðalögin í þessu héraði eru engu lík. Fyrir það fyrsta er útsýnið - þrepaklæddar hrísgrjónabrekkurnar hafa fengið mig til að íhuga kaup á ,,sumarbústaði" hérna. Hins vegar eru ferðalögin í rútunum frekar óþægileg. Fjallavegirnir eru reyndar malbikaðir að mestu en stundum er varla hægt að tala um bundið slitlag í orðsins fyllstu merkingu á sama tíma. Um aksturslag Indverja má nú skrifa heila grein og það stóð reyndar alltaf til..
Í dag komst ég yfir 100 klukkustunda rútu-múrinn, þ.e. ég hef spanderað 100 klukkustundum í rútum á ferðum mínum í Indlandi og Pakistan. Þetta finnst mér markverður áfangi sökum þeirra þjáninga sem fylgja þeim oft (sár bossi). Í dag enduruppgötvaði ég reyndar ipod-spilastokkinn minn sem gerði 5 tíma útsýnisferð dagsins í Himalayafjöllunum næstum því dásamlega. Venjulega sit ég í fremsta sætinu (stress-sætinu) í rútunum hérna þar sem fá sæti bjóða upp á það fótarými sem ég þarf. Ég sit því við hliðina á vélinni sem urrar á gólfinu við hliðina á stressaða bílstjóranum.

Frá Shimla ætla ég til næsta fjallahéraðs, Uttaranchal. Ég mun líklegast brjóta upp þá 10 tíma fjallaferð með stoppi í litlum bæ, Nahan, eins og ég gerði með stoppi mínu í Mandi á leið til Shimla.
Það getur verið gott að vera eini túristinn í indverskum bæ milli þess sem maður heimsækir túristabæi. Þá kemst ég í prímadonnugýrinn, ég á athygli allra og er ekki bara ,,einn af túristunum".

Sjá lýsingu á venjulegum degi Dalai Lama í Dharamsala/Mcleod Ganj á opinberri síðu hans.

Friday, March 16, 2007

Mcleod Ganj

Ég er staddur í ,,Litlu Lhasa" eða Mcleod Ganj eins og bærinn heitir réttu nafni. Lhasa er höfuðborg Tíbet en hér í Mcleod, Indlandi býr nokkur þúsund manna samfélag tíbetskra flóttamanna ásamt Tenzin Gyatso, núverandi Dalai Lama og útlægri ríkisstjórn Tíbeta.
Í dag lauk ,,fyrirlestra röð" Dalai Lama í aðal Búddistahofinu í bænum. Ótal munkar og Búddistar, m.a. frá Suð-austur Asíu, Japan, Nepal og jafnvel Vesturlöndum, hafa því gist hér í bænum og erfitt hefur verið að finna gistingu. Í lang flestum húsum og hótelum er engin kynding sem kemur sér illa í þessum fjallabæ í 1.700 metra hæð sem hefur aldeilis orðið fyrir barðinu á stanslausri rigningu undanfarið. Í dag hefur lítið rignt og spáin fyrir næstu daga er góð en ég mun þó sjálfsagt halda áfram að sofa í nánast öllum fötunum á næturna eins og flestir íbúar hér.Útsýnið hérna er frábært og nokkrar myndir eiga sjálfsagt eftir að rata inn á síðuna mína á næstunni.

Núna, tveimur dögum seinna eftir síðustu efnisgrein er ég enn í bænum. Kuldabylgjan sem gekk yfir norður-Indland er farin á kaldari stað og mér hefur tekist að brenna nýskafaðann hausinn á mér - í gær skafaði tíbetskur munkur af mér allt hárið. Tíbetski munkurinn var hof-vörður og yfirskafari í nærliggjandi munkabyggð og þess skal getið að hann skafaði mig af frjálsum vilja. Myndir af þessu detta inn á myndasíðuna á næstu dögum en thangad til smaatridin koma i ljos:

Ég hef fundið mér eitt og annað að gera hérna í bænum.

Í dag gekk ég til liðs við hippahreyfingu og týndi rusl upp úr árfarvegi og af leikvelli í næsta smábæ. Eins og ég hef áður sagt eru engar ruslatunnur á götum í Indlandi og þess vegna neyðast Indverjar til þess að vera sóðar - eða eru þeir kanski sóðar af því að hér eru engar ruslatunnur?
Átakið í dag vakti athygli og okkur hippunum tókst að fá nokkra indverska krakka til að týna rusl með okkur (eldri Indverjar hristu yfirleitt hausinn). Krakkarnir urðu töluvert mótiveraðir (ach, íslenska orðið?) á því að fá að nota appelsínugula gúmmíhanska en hvort hippunum hafi tekist að koma af stað tískubylgju eða umhverfisátaki verður tíminn að leiða í ljós.
Eftir rétt rúmlega tveggja tíma vinnudag tók svo við þriggja tíma hádegisverður og þá voru flestir orðnir of skakkir til að halda áfram. Aðalhippinn borgaði úr eigin vasa fyrir 5 ruslatunnur sem byrjað var að setja upp í dag, ég er yfir mig hrifinn af framtakinu hans. Rusltínslan hafði góð áhrif á samviskuna mína. Nú get ég haldið ótrauður áfram í að henda rusli á göturnar hérna.
Það sem skiptir máli í þessu sambandi er að losa sig við ruslið þar sem maður veit að það verður hreynsað upp.

Annað sem ég hef stundað hér í bæ er að sitja indverskt matreiðslunámskeið. Á námskeiðinu hefur verið lögð áhersla á norður-indverska matargerð. Hér í bæ er reyndar auðvelt að finna tíbetsk námskeið en tíbetskur matur finnst mér allt að því barnalega einfaldur við hliðina á þeim indverska. Ég hlakka til að geta prufað nokkrar uppskriftir þegar ég kem heim til Íslands.

Eitthvað hef ég spilað skák við einn rússa og kashmírska sölumenn - þeir síðar- og fyrrnefndu eru áhugasamir um taflmennsku.
Að lokum hef ég farið í skemmri göngutúra upp í nærliggjandi fjöll (myndir væntanlegar).


Nú hefur hálfgerður fjallapartur tekið við í ferðalagi mínu með viðkomum hér í Himachal Pradesh, Uttarachnal, Sikkim, Nepal (Everest!) og Tíbet - Himalaya fjallgarðurinn teygir sig inn á öll þessi svæði.

Wednesday, March 07, 2007

Pakistan

Jahérna. Í nokkra daga, þangað til í dag, hef ég ekki komist inn á þessa síðu þó svo að þið hafið getað það.

Pakistanar og Indverjar eiga margt sameiginlegt eins og t.d. gestrisnina. Ekki eru nema 60 ár síðan að gamla Indlandi var skipt upp og það ævintýri byrjaði með ófriði og 2000 kílómetra girðingu.

Í Pakistan hef ég engar moskítóflugur séð en í stað þeirra lögregluþjóna í þúsundum. Sem betur fer eru þeir síðarnefndu ekki í felum í hótelherberginu mínu eins og flugurnar.
Í Pakistan eru asnar ekki eingöngu bjánar í umferðinni heldur líka dráttardýr í umferðinni. Segja má að ég hafi tekið annað skref aftur í tímann.

Ég kynntist svissneskum ungum manni hérna sem hefur hjólað alla leið frá Sviss til Pakistan. Í því felst að hjóla frá Sviss að landamærum Tyrklands, hjóla svo eftir endilöngu Tyrklandi og endilöngu Íran en Tyrkland og Íran eru RISAstór lönd. Hann hefur verið 6 mánuði á leiðinni og haft gaman að - þangað til hann kom til Pakistan. Á mörgum svæðum í Pakistan er þess krafist af ferðamönnum að þeir hafi með sér vopnaðan vörð. Á öðrum svæðum getur ferðamaður átt von á því að lögreglumenn krefjist þess að fá að vernda þá.
Lögreglumönnum við landamæri Írans og Pakistan fannst vinur okkar Steven eitthvað berskjaldaður og fylgdu honum því 1000 km leið til Lahore.
Ferðalagið tók hann um 4 vikur og allan tímann var lögreglubifreið á eftir honum. Á næturnar svaf hann í lögreglustöðvum og fékk yfirleitt mat sem lögreglumenn færðu honum - að ná í hann sjálfur var of ,,hættulegt" (bull). Oftar en einu sinni notuðu lögreglumenn bambusprikin sín til að fæla burt áhugasama Pakistana frá Steven, þrátt fyrir góðan ásetning Pakistananna og reiði Stevens. Steven virðist nokkuð taugatrektur eftir þennan Pakistan spotta og ætlar ekki að dvelja hér lengur en fara þess í stað beint til Indlands. Þegar hann kom hingað til Lahore spurði hann mig og aðra í fullri alvöru hvort hann mætti í alvöru fara einn út af hótelinu án lögreglufylgdar.

Ég hef spjallað við heilu hrúgurnar af áhugaverðu fólki. Sumir eru útlendingar sem koma aftur og aftur til Pakistan. Af þeim sem ég hef hitt í Lahore má helst nefna pakistanskan (kristinn) prest, nýsjálenska konu sem á gamals aldri ,,hitti" löngu dáinn múslimskan dýrling og gerðist múslimi, stofnanda hótelsins sem ég gisti í - fyrrum blaðamaður sem skrifaði hættulegar greinar í pakistönsk blöð og að lokum Englending sem hefur verið 4 ár á leiðinni í kringum hnöttinn á hjóli en segist eiga 5 ár framundan í að hjóla strandlengju Afríku.
Í Pakistan finnur maður ferðamenn sem þora að ferðast hvert sem er og þeir eru nánast alltaf einir á ferð. Fólkið sem gistir hérna núna hefur prufað allt! Íran, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Kasakstan, Úsbekistan, Kyrgistan, Afganistan, Tíbet...

Síðasti útlendingurinn sem var drepinn í Pakistan var frægur blaðamaður, gyðingur sem eltist við hryðjuverkamenn í suður Pakistan þangað til hann var drepinn um það bil árið 1997.

Pakistanar sem ég hef hitt hafa verið mjög leiðir yfir fordómum Evrópubúa gagnvart múslimum og Pakistönum. Þó að ég hafi kannski ekki verið fordómafullur gagnvart múslimum áður en ég kom hingað finn ég núna að margt hefur breyst í viðhorfum mínum gagnvart múslimum, Íslam og Pakistönum. Þessi breyttu viðhorf verða kannski efni í önnur innslög.

Monday, February 26, 2007

Hermaðurinn

Ég er óðum að venjast því að sjá vopnaða hermenn í grennd við lestarstöðvar og aðra fjölfarna staði. Þar sem ég er Íslendingur hef ég mætt hermönnum með tortryggni og andúð, án þess þó að sýna það. Í einfeldni minni hef ég hugsað að her sé með öllu óþarfur, alltaf.

Í lestarferð á leið frá Jodphur til Delhi (þar sem ég er núna) var ég svo heppinn að ungur maður, Gauji (breytt nafn), gaf sig að tali við mig. Í samræðum okkar, um allt annað en yfirborðslega hluti, kom í ljós að Gauji er hermaður í indverska hernum og af þeim sökum má hann ekki hafa samskipti við útlendinga. Gauji er rólegur og djúpt þenkjandi maður og eftir um tveggja tíma spjall bauð hann mér að eyða deginum með sér í Delhi og þiggja gistingu hjá mági sínum sem ég þáði með þökkum.

Kona Gauja stundar rannsóknir í nanó-tækni í Stokkhólmi og hefur verið í Svíðþjóð í nokkra mánuði.
Gauji er fallhlífarhermaður, kapteinn að tign, sem þýðir að hann stjórnar um 120 manna herdeild. Hann hefur undanfarin ár verið með herdeild sína upp á Siachen jöklinum í Kashmir en jökullinn er mikið þrætuepli í deilu Indverja og Pakistana um Kashmir. Á jöklinum getur hitastigið farið niður í –50 °C og 10,5 metra þykkt lag af snjó fellur á jökulinn yfir veturinn. Pakistanar og Indverjar hafa herstöðvar uppi á jöklinum í yfir 6000 metra hæð og til þessa eyðir t.d. indverski herinn um 60 milljónum króna á dag, því allt þarf að flytja með flugi upp á jökulinn.
Það var á 8. og 9. áratugnum sem pakistanskir hermenn byrjuðu leiðangra upp á jökulinn en eftir nokkuð kapphlaup náðu Indverjar öllum hæstu tindunum 1984. Tindar Siachen eru hernaðarlega mikilvægir sökum þess að þaðan hafa Indverjar yfirsýn yfir Karakoram þjóðveginn sem liggur frá Tíbet til norður-Pakistan – eina leiðin frá Pakistan til Kína.
Pakistanar hafa nokkrum sinnum reynt að ná tindunum með valdi, t.d. leiddi Pervez Musharraf, sem er núverandi forseti Pakistan, fræga árás árið 1987 á stöðu Indverja á jöklinum. Um 2000 hermenn hafa látið lífið á jöklinum sökum frosts, snjóflóða og annars veðurtengds, töluvert fleiri en í átökunum á milli fylkinganna tveggja. Gauji missti næstum því báða fæturna í einhverju kuldakastinu á jöklinum en slapp fyrir horn og hefur aðeins hvíta rönd á öðrum fætinum til að minna sig á atburðinn.

Gauji sagði mér frá einu merkilegu um daginn. Yfirmaður hans og góður félagi í indverska hernum kemur frá litlu afskekktu þorpi í Kashmir. Í þessu þorpi má finna fólk sem sumir vilja kalla Arya.

,, The Hindus of Kashmir come of pure Aryan race and can be recognized by their sharp features, fair complexion, light colored hair and eyes.”
Af indverskri ferðamannasíðu

Samkvæmt yfirmanni Gauja heimsækja þýskar konur þorpið en þó ekki til þess að setjast þar að..... Þetta er nú meira slúðrið.

Í gegnum Gauja hef ég kynnst vinum hans, tengdafólki og frændum. Þó að Gauji hati Pakistan ( kanski að indverskum hermönnum sé innrætt slíkt hatur ) var hann þó nógu viðsýnn til að hringja í múslimskan vin sinn, sem ferðast hefur um Pakistan, til að hitta mig ástam strangtrúaðri eiginkonu hans. Hann vissi að hann væri ekki besti maðurinn til að ráðleggja mér um ferð þangað og bað hann hitta mig.
Föðurbróður Gauja hef ég hitt og meira að segja sofið í sama rúmi og hann. Sá var mjög áhugasamur um Ísland og íslensku stjórnarskránna. Ég gisti í íbúð hans ásamt Gauja en Gauji fór svo aftur á jökulinn um nóttina þar sem hann mun vera fram á haust.

Kvennmannsleysi Gauja á jöklinum sem og hjúskaparstaða hans virðist hvetja hann til dáða til að koma vinum sínum saman við vinkonur sínar og öfugt. Hér í Delhi hitti ég 19 ára fiðrildi undir því yfirskini að fræðast um indverksar bíómyndir. Gauji hafði annað í huga og finnst áhugaleysi mitt á kvennfólki á ferðum mínum óskiljanlegt. Kynni mín af þessari stúlku, Apörnu, hafa verið skemmtileg. Til dæmis hef ég óvart hitt á föðurbróður hennar sem komst nálægt því að yfirheyra mig í óþægilegu símtali. Eftir að ég horfði á bíómynd með henni og vinkonum hennar um nauðungarbrúðkaup þurfti ég svo að þykjast þekkja hana ekki því frændinn var kominn að sækja hana. Ég hélt ég væri nú vaxinn upp úr svona skrípaleikjum.

Vinir Gauja hafa allir verið mjög efnilegir eins og hann var sjálfur þegar hann lauk námi í rússnesku. Í dag er hann ekki jafn efnilegur að margra mati (m.a. honum sjálfum) því hann er vel upplýstur hermaður sem lætur þolir enga vitleysu frá yfirmönnum sínum. Aparna stundar nám í fjölmiðlun af miklum krafti og mun sjálfsagt eignast ,,villu og stóran bíl” – orð sem annar frændi Gauja notaði til að lýsa draumum sínum eftir lögfræðinám í Delhi.

Eftir 2 tíma legg ég af stað til hins indverska hluta Punjab héraðs. Punjab var skipt á milli Pakistan og Indlands við sundrun Indlands 1947.

Monday, February 19, 2007

Gjörningar síðustu daga og fjölbreytni Indlands

Ég hef bætt við myndskeiðum á youtube síðuna mína (sjá krækju til hægri). Mæli sérstaklega með pennabörnunum. Ég tók börnin upp án þess að þau vissu af – ef þau hefðu vitað af því hefðu þau sett sig í stellingar og ekki sagt neitt, þ.e. ekki sagt penni, penni, penni.

Annað nýtt myndbrot tók ég í Bhuj þegar ég sýndi dansandi gestum brúðkaups áhuga með myndatöku. Í þetta skiptið hélt ég sjálfur á myndavélinni þegar ég var gripinn í dansinn og í seinni hluta myndbrotsins fer litla vídjó-myndavélin mín að titra jafnvel meira en venjulega þegar ég dansa með gestunum. Stuttu seinna reyndu karlarnir að kenna mér að dansa því ég held að þeim hafi ekki þótt danstaktar mínir viðeigandi. Á endanum var ég bara orðinn nokkuð afslappaður í dansinum - kannski einum of því ég var auðvitað ekki eiginlegur gestur í brúðkaupinu. Myndbrotin eru alls þrjú.
Jaisalmer stoppið er komið á netið í myndum og myndbrotum. Það sem ég afrekaði helst í Jaisalmer var að skreppa í safaríferð á kameldýrum út í eyðimörkina með nokkrum skammtíma vinum og gista þar eina nótt undir berum himni. Jaisalmer er um 100.000 manna bær sem í er frægt virki, Jaine (?) hof, hallir og Haveli. Á vídjó síðunni og myndasíðunni má lesa meira um dvölina í Jaisalmer.
Eldir myndir setti ég inn á flickr síðuna fyrir 4 dögum síðan.

Ég fékk loksins staðfestingu á því að Ísland er eitt af 8 löndum í heiminum sem þurfa ekki vegabréfsáritun til þess að fá inngöngu í Pakistan. Ein 28 lönd hafa töluvert minni fríðindi eins og t.d. Júgóslavía – bíðum nú við, Júgóslavía er ekki til lengur en listabrotið hér að neðan er frá því 2006??:

28. Yugoslavia - One month - Diplomatic & Official Passport Holders
29. Ice Land - Three months - All nationals of the country
30. Maldives - Three months - All nationals of the country
31. Nepal - One month - All nationals of the country
32. Tobago - Un-specified period - All nationals of the country
33. Tonga - Un-specified period - All nationals of the country
34. Trinidad - Un-specified period - All nationals of the country
35. Western Samoa - One month - All nationals of the country
36. Zambia - Three months - All nationals of the country

Athyglisvert er að sjá að Ís land er eina Evrópulandið sem hefur þessi fríðindi en nokkur Afríkuríki eru á listanum.
Skrifað seinna: Í dag hafði ég samband við pakistanska sendiráðið í Delhi í þriðja skipti og fékk loksins annað svar en venjulega; ég þarf ekki vegabréfsáritun. Það þarf ekki að undra að starfsfólkið muni ekki hvaða lönd eru á listanum því á þessari reglur reynir líklegast afar sjaldan. Afríkubúar ofangreindra Afríkulanda hafa líklegast oft ekki efni á því að ferðast til Pakistan.
Vinalest Indlands og Pakistan sprengd, 65 látnir. Krækja hér.
Ég ætla til Punjab í Indlandi og það var eiginlega aldrei inn í myndinni að nota þessa lest þar sem ég ætlaði að skoða mig um á leiðinni norð-vestur. Ég met stöðuna aftur eftir nokkra daga en hriðjuverkamenn hafa verið í því að sprengja hitt og þetta í norð-vestur Pakistan undanfarið (N.B. ekki norð-vestur Indlandi).

Í gær keypti ég bók um indverska fugla. Ég er í þessum skrifuðu orðum að færa inn rétt nöfn á fuglana á flickr síðunni minni (á ensku).
Mér finnst stórmerkilegt að ég skuli hafi keypt fuglabók því fyrir 2 mánuðum síðan hafði ég afar lítinn áhuga á fuglum. Áhugi minn á dýralífi hefur reyndar aukist mikið eftir að ég fór í þjóðgarðana í Gujarat – ég lá stjarfur um daginn inn á hótelherbergi á meðan ég horfði á David Attenborough þátt í sjónvarpinu. Kannski var ein ástæða fyrir því magakveisan og hitinn sem fylgdi henni en ég naut þess í öllu falli að horfa.
Á síðustu árum hef ég fengið áhuga á því sem ég hafði nánast engan áhuga á í t.d. menntaskóla. Þar má nefna sögu og íslenska goðafræði en svo sé ég líka eftir því að hafa ekki lagt mig meira fram í setningarfræði, bókmenntafræði, dönsku og þýsku.

Áfram með smjerið á þessu Kenny G internetkaffihúsi.

Fjölbreytni Indlands
Áður en ég lagði af stað til Indlands hafði ég litla tilfinningu fyrir því afhverju Indlandi er líkt við heila heimsálfu. Á ensku er Indlandsskaginn oft kallaður ,,sub-continent” og í innslagi á þessari síðu frá því um áramótin ber ég saman Evrópusambandið og Indland. Í Evrópusambandinu búa um 400 milljónir manna en í Indlandi býr 1,1 milljarður manna. Þó að Evrópusambandið sé stærra en Indland má alveg færa rök fyrir því að svæðin séu á ,,sama skala”, 4 millj. ferkílómetra í samanburði við þá 3 sem Indland þekur.
Ég geri mér sífellt betur grein fyrir því hve lítið ég hef séð af Indlandi á þessum eina og hálfa mánuði. Héröðin sem ég hef aðallega heimsótt, Gujarat og Rajasthan, eru hvort um sig stærri en England og hafa bæði fleiri íbúa en England. Það væri því ekki úr vegi að líta á hérað í Indlandi sem svipaða uppsprettu menningar, mannvirkja og annars fróðleiks og lands í Evrópusambandinu. Hvert hérað hefur eigin stjórn, yfirleitt eigið tungumál og sér-staka menningu - eins og aðildarríki Evrópusambandsins.

Í samtali mínu við hollenskan bókasafnsfræðing í Gujarat vildi ég þó meina að Evrópusambandið væri líklegast fjölbreyttara svæði en Indland (án þess að taka fram hvað og hvernig ætti eiginlega að bera saman). Hann var því allsendis ósammála og benti mér á að í mismunandi héröðum í Indlandi megi finna gjörólíka menningu og tungumál auk þess sem að Indland væri stærri suðupottur mismunandi mannhópa. Í Indlandi býr m.a. fólk af mongólskum uppruna og í austur héröðunum hefur fólk oft svipbrigði álík nágrönnum Indverja í suð-austur Asíu auk þess sem straumar fólks úr vestri, t.d. Araba, hafa runnið til Indlands.
Þeir Indverjar sem ég hef hitt hingað til hafa yfirleitt álík svipbrigði og Evrópubúar og í gær hitti ég tvo Indverja sem hafa blá augu og a.m.k. annar þeirra vildi meina að hann ætti ekki ættir að rekja til Evrópu.

Hollendingurinn áðurnefndi fer til Indlands á hverju ári eins og margir aðrið ferðamenn sem ég hef hitt hérna. Hann sagði mér að stundum þætti honum hvoru tveggja í senn svo pirrandi en svo áhugavert hve lítið hann vissi um landið.
Ef maður hefur í huga samanburðinn við Evrópu er þó ekki skrítið að Indland bjóði sífellt upp á nýjar upplifanir fyrir ferðamann – þegar Vesturlandabúar ferðast í Evrópu láta þeir jafnan duga að heimsækja eitt eða tvö lönd í einni ferð. Það er alveg ljóst að Indland má heimsækja aftur og aftur. Í minni ferð hyggst ég heimsækja um 6 héröð af 28, þar af 1 á hundavaði.
Ég er kominn skemur en ég hafði ætlað eftir einn og hálfan mánuð og því lítur út fyrir að ég verði jafnvel lengur en 4 mánuði hérna úti í þessum skrifuðu orðum.

Ég hef reynt af fremsta megni að koma ekki með alhæfingar um Indland – fyrir utan kanski tölfræðilegar staðreyndir – og sérstaklega ekki um Indverja. Það væri undarlegt af ferðamanni að koma með alhæfingar um Evrópubúa eftir að hafa séð aðeins tvö lönd í Evrópu.
Ég veit að ég mun hafa frá nægu að segja á þessari síðu. Ég hef heyrt ýmislegt t.d. um deilur múslima og hindúa en finnst ég verða að kynna mér deilurnar betur áður en ég skrifa nokkuð um þær.

Mér hefur fundist að fólkið á fyrstu áfangastöðum mínum, Delhi, Agra og Rajasthan í heild, hafi peninga á heilanum. Þetta er hins vegar þvæla. Á vinsælum ferðamannastöðum má finna allnokkra ferðamenn sem auðvelt er að plata. Þetta skapar atvinnu fyrir fólk sem reynir meira en venjulegur kaupsýslumaður að hafa fólk að féþúfum. Peningapungarnir eru því afleiðing ferðamannastraumsins en ekki eitthvað sem er greipt í samfélagið á hverjum stað fyrir sig. Auðvitað getur verið hefð fyrir hörkulegum viðskipum á einhverjum stað en aftur á móti flytjast peningapungarnir oft á svæði þar sem punga má út peningum. Því eru pungarnir sjáfsagt oft aðfluttir eða þá að þeim finst þeir tilneyddir að apa upp ósiði annarra af samkeppnis ástæðum.

Ég get ekki tekið undir alhæfingar um að t.d. Indverjar eða Tyrkir séu óheiðarlegir í viðskiptum en því miður virðast margir menn þessara landa hafa komist áfram á því að stíga á tær viðskiptavina. Viðskiptahefðir þessara landa bjóða líka upp á meiri óheiðarleika en t.d. íslenska hefðin, því í þessum löndum er verðlag oft allt á floti – það út af fyrir sig þarf þó ekki að vera eitthvað ósæmilegt fyrir landið.

Saturday, February 10, 2007

Jarðskjálftar, menningarsjokk og annað hræðilegt

Ég sit á svölum hótelsins míns í Bhuj og fylgist með örsmáum fuglum og gífurlega stórum flugum sem flögra rétt fyrir framan mig. Frá svölum hótelsins sé ég í tvær hallir bæjarins. Önnur þeirra er í aðeins 10 metra fjarlægð og er brotin og brömluð eins og hallarmúrinn sem umlykur hallirnar; stórt gat í múrnum gerir mér kleift að sjá til þeirra.
Fyrir tveimur dögum síðan skoðaði ég þorp
í grennd við Bhuj, Anjar, sem varð einna verst úti í jarðskjálftanum 2001 á sjálfstæðisdegi Indverja, 26. janúar. Í íbúðarhverfum þorpsins (sem er að minnsta kosti bær á íslenskum mælikvarða) mátti enn sjá auð svæði og grjóthrúgur í miðju íbúðarhverfi og víða skemmd hús, nú 6 árum seinna. Í bænum kynnstist ég ungum úrviðgerðarmanni, Varesh, sem gerði hlé á vinnu sinni til að skutla mér á vespu sinni á áhugaverðari staði bæjarins. Að skilnaðargjöf færði hann mér Kutch-skyrtu, þrátt fyrir mótbárur mínar.
Varesh fór með mig á stað þar sem frændi hans lét lífið, aðeins barn að aldri, ásamt nokkrum öðrum börnum í jarðskjálftanum. Á staðnum voru eingöngu ný hús.
Við heimsóttum líka tvö hverfi sem reist voru til bráðabirgða sem eru þó enn í notkun þrátt fyrir að vera lítið annað en bárujárnsklæðning á timburgrind. Ekki myndi ég vilja gista kalda vetrarnótt þar.

Eftir mánuð án meltingarvandræða fór ég að verða full fífldjarfur. Þegar ég átti erfitt með að finna veitingastað í Anjar, sætti ég mig við fyrstu skítabúlluna sem ég fann; tómur kofi með svörtu eldhúsi. Ég bjóst ekki við matseðli svo ég bað um einhverskonar grænmetisrétt en var bent á að kjúklingaréttur væri kannski bara „bestur fyrir mig". Þegar ég var við að spíta út úr mér beinum úr einum mögrum kjúklingabitanum bentu Indverjarnir, sem sátu í kringum mig og tóku af mér myndir meðan ég borðaði, á að tvær mýs væru að læðupúkast í eldhúsinu.
Merkilegt nokk, þá brást meltingarkerfið ekki svo illa við þessum málsverði. Það gerði það hins vegar þegar ég fékk mér kranavatn á fínum veitingastað í gær og því húki ég á hótelinu í dag.
Ferðamönnum er ráðlagt að drekka aldrei kranavatn hér eða í öðrum nálægum löndum, en ég hafði reyndar spurt þjóninn hvort vatnið hefði verið hreynsað - sem er leiðandi spurning, þær ber að varast.
Svarta eldhúsið
„Menningarsjokk"
Eftir um 6 vikur í Indlandi hef ég náð að upplifa magapínu og menningarsjokk (M&M) sem teljast líklegast báðar vera klassískar upplifanir fyrir ferðamann hér.
Áður en ég fékk menningarsjokkið hugsaði ég stundum afhverju ég hefði svo litla samúð með betlurunum eða öðrum bágstöddum sem urðu á vegi mínum. Mér fannst stundum eins og ég væri frekar kaldlindur. Einu sinni gerði ég tilraun og gaf 15 betlurum fyrir utan hof í Udaipur klink en fann ekki fyrir neitt mikið bættari samvisku. En einn daginn, þegar ég var ekki á hraðskreiðri göngu fram hjá hinum bágstöddu, varð ég fyrir einhverskonar sjokki.
Ég sat og beið eftir rútu á eyjunni Diu þegar gömul hrörleg kona með veikburða smábarn kom til mín og bað mig um aur. Ég átti ekkert klink í vasanum því ég hafði gefið betlurum það fyrr um daginn til að losna við þá og klinkþungan vasa í löngu rútuferðalagi - og jú, stundum er gott að gefa og þá sérstaklega konum með börn.
Mér fannst leiðinlegt að geta ekkert gefið henni og þar sem ég hafði tíma sagði ég við gömlu konuna að mér þætti leiðinlegt að eiga ekkert klink ( þrátt fyrir að eiga nóg af verðlausum seðlum í vasanum) og að hún ætti samúð mína, svo snerti ég skítugt smábarnið þessu til undirstrikunar og ég meinti það sem ég sagði.
Samúð mín var auðtivað verðlaus fyrir konuna en hefði þó í för með sér að ég fann að einhverju leiti fyrir erfiðleikum konunnar. Konan settist svo rétt hjá mér - við hliðina á dóttur sinni, móður barnsins.
Samviskubit mitt jókst eftir að ég ákvað að hafa samúð með mæðgunum og ég skildi ekkert í því hvernig ég fór að því að segja nei við konuna og ég spurði sjálfan mig aftur og aftur hvernig ég gæti hafa látið klinkbyrgðir mínar ráða svarinu þegar í öðrum vasa hefði ég sand af seðlum.
Um 30 krónum seinna leið mér enn hræðilega þó svo að seðillinn hafi glatt mæðgurnar mikið - þær létu seðilinn í hönd barnsins.
  • Um þriðjungur Indverja lifir á minna en einum dollara á degi hverjum.

  • Betlarar eru að atvinnu betlarar og best er að reyna að styrkja hjálparstarf sem skapar atvinnu fyrir þá í stað þess ýta undir leit þeirra að óáreiðanlegum gjöfum.

  • Ég er mjög sáttur hérna úti og er óðum að jafna mig á magapínunni.

Wednesday, February 07, 2007

Halló

Er kominn til Bhuj og hef bætt inn myndum og a.m.k. einu myndbroti.

Bhuj tilheyrir stóru landsvæði sem heitir Kutch. Ég fór til dæmis í þjóðgarðinn Little Rann í Kutch fyrir nokkru síðan.
Jarðskjálftar hafa haft mikil áhrif á Kutch. Í jarðskjálfta árið 1819 breyttis farvegur Indus árinnar þannig að stór hluti Kutch varð að eyðimörk sem verður að drullusvaði á regntímabilinu. Í nýlegum jarðskjálfta árið 2001 týndu t.d. 10% íbúa Bhuj lífi og margar sögulegar byggingar urðu fyrir stórskemmdum.

Ég hef hitt ótrúlega færa ljósmyndara á síðustu tveimur dögum. Sá fyrri heldur bloggsíðuna
http://www.pohanginapete.blogspot.com/

en hinn (eða hin) heldur flickr síðu sem inniheldur t.d. þetta portrait set.
Það merkilega við þessa, Meenu Kandri frá Nýja Sjálandi, er að hún hefur aldrei notað neytt annað en stafrænar compact vélar - hún notar t.d. canon Ixus núna. Tólin skipta ekki öllu máli - takmarkanir á áhuga skipta sköpum líka eins og með flest annað. Aðstæður skipta einnig máli, en þær eru aldeilis góðar á Indlandi, virkilega frjótt myndefni fyrir gestina sem hafa glöggu augun.
Það var skemmtilegt að fylgjast með Meenu í gær ráðskast með indverska karlmenn, karlrembur og kvenfólk. Meena er mjög ákveðin.

Monday, February 05, 2007

Sasan Gir og tröppurnar

Í grennd við borgina Junagadh eru fimm hólar sem kenndir eru við Girnar. Frá toppi hæsta hólsins eru um 8000 tröppur úr steini sem Hindúar og Jainar (?) klífa í trúarlegum tilgangi. Á Vanir tröppumenn gera sér kanski grein fyrir því hvað felst í því að klífa 8000 tröppur. Til að gera sér betur grein fyrir þessum fjölda má ímynda sér að maður gangi upp heilar 80 tröppur en þá er maður búinn með 1% af ferðinni upp.
Þó að hóllinn sé ekkert sérstaklega hár, aðeins 954 metrar - en þó hæsti tindur í Gujarat, er álagið á fæturna fremur einhæfara heldur en við göngu upp á t.d. esjuna og merkingar um fjölda trappa sem maður hefur gengið minna mann reglulega á það hve mikið er eftir.
Hægt er að leigja menn við rætur hólsins til að bera mann upp og þá er greitt fyrir hvert kíló líkamsþyngdar. Ég sá nokkrar eldri konur og feitan businessmann sem var haldið á upp á hólinn.

Eftir Junagadh var förinni heitið í þjóðgarðinn Sasan Gir sem er eina heimili asísku ljónanna í öllum heiminum. Asíska ljónið á að hafa aðskilist því afríska fyrir um 100.000 árum samkvæmt einhverjum texta sem ég las fyrir skömmu. Það er þó ekki í samræmi við það sem náttúrulífsljósmyndarinn í Little Rann sagði mér; að ljónin hafi aðskilist þegar Indland rifnaði frá Afríku og skrapp norð-austur á meðan Afríka fór norður, fyrir nokkrum milljónum ára. Merkilegt, en óháð þessu, er að Indland er enn í hægfara árekstri við Asíu og ,,beiglan” er Himalayafjallgarðurinn sem rís um nokkra millimetra á ári hverju.
Asísku ljónin mátti finna víða í Asíu áður fyrr, t.d. Tyrklandi, Íran og Pakistan en síðasta ljónið sem til eru heimildir um fyrir utan Indland sást í Íran 1941. Þetta gefur til kynna að asíska ljónið kann að hafa farið landleiðin frá Afríku fyrir um 100.000 árum síðan.

Samkvæmt óáreiðanlegum ágiskunum voru einu sinni til 15 asísk ljón í öllum heiminum en það þýðir að asísk ljón í dag hafa tiltölulega lítið genamengi ( e. Gene pool) og einhverjar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvort ljónin standi höllum fæti gagnvart hættulegum sjúkdómum sökum þessa.

Í þjóðgarðinum eru rúmlega 300 ljón og rúmlega 300 hlébarðar. Í garðinum eru auk þess um 40.000 dádýr, örfáar híenur, antilópur og margar tegundir fugla.
Skömmu eftir komu mína til Sasan var mér boðið að læðast inn í garðinn ólöglega með leiðsögumanni. Leiðsögumaðurinn sem talaði við mig sagðist hafa stundað göngur inn í þjóðgarðinn í 13 ár án þess að verða ljónunum að bráð. Hann sagði að vísu að stundum kærðu ljónin sig ekki upp nærveru hans eða eltingarleiki (stundum eltir hann ljónin) og kæmu hlaupandi til hans til að hræða hann en að hann hafi alltaf náð að bregðast rétt við því.
Í skóginum búa þúsundir manna sem neita að yfirgefa skóginn þrátt fyrir hagsmunaárekstra þeirra við ljónin og hlébarðana ( nautgripir ættbálkanna verða kattardýrunum reglulega að bráð). Sökum þessa hafa kattardýrin vanist því að umgangast menn ólíkt afríska ljóninu. Íbúar skógarins eru vanir því að ,,sjá ljón á vegi sínum” nánast daglega en kippa sér lítið upp við það. Yfirvöld í Gujarat náðu að flytja margar fjölskyldur burt úr þjóðgarðinum fyrir nokkrum árum síðan en sumir neituðu að fara.

Þar sem ljónin eru of mörg fyrir þjóðgarðinn, fara þau út fyrir hann og stundum langar leiðir. Þær tvær nætur sem ég gisti hjá indverskri fjölskyldu fyrir utan þjóðgarðinn heyrði ég í ljónum skammt frá húsinu sem þykir ekki óeðlilegt.
Fyrir mig var ekkert vit í því að ganga inn í skóginn án þess að reyna löglegu leiðina. Löglega leiðin sem ég fór var ferð í jeppa með 4 túristum og leiðsögumanni. Einn túristinn var mjög áhugasamur Írani sem vinnur við verndun íranskra blettatígra í heimalandi sínu. Þrátt fyrir að hafa unnið í 5 ár að verkefninu hefur hann aldrei séð blettatígur.
Ferðin var gjörsamlega frábær og gekk framar vonum. Eftir aðeins 20 mínútna akstur fyrir birtingu sáum við 2 ljón og heyrðum í fleirum. Mökunartímabil ljóna stóð yfir á þessum tíma og eftirfarandi hreyfð mynd sínir neikvæð viðbrögð ljónynju við tilburðum karldýrsins.
Myndskeid
Í ferðinni sáum við hundruði dádýra og fjöldan allan af fuglategundum: græna páfagauka, 2-3 tegundir fálka, örn og fleiri tegundir sem ég kann ekki að nefna á nafn.
Í enda ferðarinnar vorum við svo heppin að sjá tvö ljón í viðbót sem við gátum nálgast fótgangandi og í þetta skipti í birtu. Ljónsungi og móðir þess lágu í makindum rétt fyrir utan vegg sem umkringdi varðstöð skógarvarða og því gátum við gengið innan veggja varðstöðvarinnar og tekið myndir af ljónunum. Okkur var þó sagt að hafa varann á því vitlaus ljónsunginn hafði sært 3 verði á síðastliðnu ári.
Þegar ég snéri aftur á gististaðinn hitti ég Svía sem hafði gengið í skóginn í 5 tíma um morguninn og auk þess farið kvöldið áður í myrkri með leiðsögumanni. Hann var ekki jafn heppinn og við jepplingarnir og það sama má segja um ferð Íranans þegar hann fór seinna um kvöldið. Þeir heirðu í ljónum og sáu kanski tvö glóandi augu í fjarska en fátt annað en það.

Daginn eftir fór ég í jóga með einni af indversku stúlkunum sem ég hitti í Junagadh og ungum Indverja sem við höfðum kynnst daginn áður.
Seinna um daginn skildi ég svo við indversku stelpurnar þrjár, indverska jógamanninn, Íranan og Svíann þegar ég lagði af stað í afslöppun og gott hótel á eyjunni Diu. Í Diu hef ég skrifað síðustu 3 innslög, skroppið á ströndina og notið þess að fara í heita sturtu á tandurhreynu hótelherbergi. Diu er fyrrum portúgölsk nýlenda og hér hef ég skoðað portúgalskar kirkjur og virki. Diu er eini staðurinn í Gujarat þar sem áfengi er leyft og því koma Indverjar úr næstu sveitum til að fá sér í glas.
Sjá fleiri myndir á myndasíðunni.

Saturday, February 03, 2007

Brúðkaup og framandi ferðalangar

Brúðkaup
Ég hef verið svo heppinn að ná að fylgjast með hluta úr tveimur brúðkaups-hátíðarhöldum hér í Indlandi. Það þarf kanski ekki mikla heppni til að verða vitni að hátíðarhöldum sem þessum því þau virðast stundum standa yfir í 3 daga áður en STÓRI dagurinn rennur upp.
Þau hátíðarhöld sem ég hef séð hafa einkennst af háværri tónlist ( spiluð af upptökum eða lifandi tónlist ) og æðisgengnum dansi úti á miðri götu.

Þær drunur sem hrista rúðurnar í hótelherbeginu mínu nú, þegar klukkan er farin að ganga eitt um nótt, tilheyra einhverskonar kvöldskemmtunum sem haldnar eru á undan brúðkaupi hér í bæ. Í gærkvöldi var spilað eitthvað fram á nótt en svo kom það mér á óvart að klukkan 8 næsta morgun var tónlistin sett í gang og háværir kínverjar sprengdir í eins og klukkustund, svona rétt til þess að vekja fólk í hverfinu. Þetta kom sér reyndar vel fyrir bleiknefja eins og mig sem þarf helst að nota morgnana í útiveru áður en sólin verður of sterk og áður en hitinn fer yfir 30 gráður. Svo virðist sem gestir brúðkaupsskemmtunarinnar noti morgna og kvöld í dansinn en mæti svo þess á milli í vinnu.
Fyrir um viku síðan gekk ég upp aðalgötu (Laugaveg!) Junagadh, um 170 þúsund manna bæjar í Gujarat, og rakst á hljómsveit og dansandi gesti brúðkaups. Ég og myndavélar mínar sýndu brúðkaupinu mikinn áhuga sem varð svo til þess að vekja áhuga sumra gesta á mér og mínu ljósa hári.
Myndskeið

Skömmu seinna var ég dansandi um miðjan dag úti á götu í Junagadh á meðan einn gestur brúðkaupsins tók myndir af mér með minni myndavél. Það er kanski gott dæmi um hamaganginn (í gestunum) að ég sést á hvorugum myndana sem gesturinn tók. Á endanum fannst mér eins og sumir gestanna hafi gert minna af því að dansa en meira af því að horfa á mig. Hvort áhugi þeirra hafi beinst að mér beinlínis eða því hvernig ég dansaði skal ósagt látið en eitt er víst að mér fannst verra að hafa áhrif á skemmtunina og að dansa fyrir framan hóp af fólki. Því lét ég mig hverfa.

Fjölþjóða ferðalangar
Ég hef áður talað um samferðamenn mína á blogginu. Á síðustu tveimur vikum hef ég kynnst áhugaverðu fólki, m.a. frá Íran og Ísrael og auk þess kynnst þremur frjálslyndum, indverskum stúlkum. Í morgun talaði ég lengi við amerískan gyðing, Daniel, sem er reyndar stærðfræðingur, um Ísrael og gyðinginn Sacha Baron Cohen sem er aðalleikarinn í Borat-vitleysunni.
Ég hef haft áhuga á því undanfarið að spjalla við Íranan og gyðingana um Ísrael. Í stuttu máli hef ég haft áhuga á því að fá skilning á því hvað varð til þess að hópur gyðinga lýstu einn daginn yfir sjálfstæði í núverandi Ísrael og hvaða forsendur þeir hafi haft fyrir því þá að hertaka með þessu landsvæði sem tilheyrði annari þjóð (þó í umsjá/eigu gyðinga). Það sem Daniel benti mér á er að það er eiginlega ekki hægt að segja neitt um hvort það hafi verið rétt eða rangt af þessum hópi gyðinga að hertaka landsvæðið. Ef til vill var það rétt fyrir þá en rangt fyrir aðra. Þetta heyrir í öllu falli sögunni til.

Ég vona að lesendur þoli innslög eins og þessi þar sem ég opinbera fávisku mína um hin og þessi málefni. Mér til varnar vil ég meina að ég læri mikið af því að tala/skrifa um hluti sem ég þekki ekki sérstaklega vel. Það hvetur mig til þess að leita mér frekari upplýsinga og fær hausinn á mér til að vinna á efninu öðruvísi heldur en sem móttakandi upplýsinga. Góður kennari reynir einmitt að fá nemendur sína til að vinna með efni í stað þess að reyna að berja efnið inn í hausinn á þeim.

Thursday, February 01, 2007

Little Rann of Kutch og ferðalög í indverskum almenningssamgöngum

Nýjar myndir komnar inn á flickr síðuna og nú má nálgast nýja videosíðu hér til hægri á síðunni [My videos].
Það er skemmtilegt að lesa eigin pirring í síðustu færslu, tölvu pirring. Það er margt í Indlandi sem getur farið í taugarnar á Vesturlandabúa eins og t.d. slappar tölvur, seinar lestir, börn sem biðja um peninga og ágengir sölumenn. Við ákveðið áreiti stendur einstaklingi, fræðilega séð, til boða að láta það fara í taugarnar á sér eða ekki. Aðlögun er besta leiðin til að takast á við það sem maður er ekki vanur en auðvitað er hverjum einstaklingi takmörk sett hvað þetta varðar. Ef markmiðið með heimsókn til einhvers lands er skemmtun að þá er kannski við hæfi að velja áfangastað sem krefst lítillar aðlögunnar.
Markmiðið með minni ferð er ekki fyrst og fremst skemmtun, enda ætla ég til Pakistan og þar verða tölvurnar sko ómögulegar (held ég) – tölvur sem ekki virka fara í taugarnar á mér. Í stað þess að láta tölvu koma sér í uppnám er þó oft hægt að standa upp og ganga frá henni ( tvíræðni hér ) í stað þess að sitja pirraður við hana í tvo tíma eins og ég gerði síðast.

Eftir Udaipur fór ég til Ahmedabad í Gujarat héraði. Héraðið er tvöfalt Ísland að stærð og þar búa um 50 milljónir manna. Ghandi fæddist í Gujarat og þar sem Ghandi dáðist að áfengisbanni Bandaríkjamanna á sínum tíma varð Gujarat að áfengislausu héraði með öllu og er í dag eina héraðið í Indlandi þar sem áfengi er ekki fyrir hvern sem er. Ferðamenn geta fengið áfengisleyfi en ég hef ekki enn sótt um.

Í Ahmedabad heimsótti ég 2 fínar moskur og fór svo í Ghandi Ashramið morguninn eftir. Það var gaman að sjá hversu gífurlega víðsínn Ghandi var um margt. Ég yfirgaf svo Ahmedabad með ríkis-strætóum en ferð í þeim er upplifun út af fyrir sig. Í Ahmedabad sá ég afar fáa erlenda ferðamenn. Í þeim þremur yfirfullu strætóum sem ég fór með til Lothal og strætóstöðvunum þeirra á milli var ég eini túristinn og það hefur reyndar oftast verið tilfellið á ferðum mínum hér í Gujarat. Oft hafði ég þó hóp af Indverjum í kringum mig sem kom til að skoða mig og hlusta á fábrotnar samræður mínar við þá sem þorðu að spyrja mig hvað ég héti eða þá fjölmörgu sem vildu hjálpa mér að komast á áfangastað.
Sjá myndbrot

Á ferðum mínum með almenningssamgöngum Gujarat héraðs hef ég verið algjör prímadonna og þegið margar gjafir frá samferðalöngum eins og snakkpoka, nokkra tebolla, hnetupoka, penna, sótthreynsiservíettu og miða sem stendur á að ég sé útlendingur og að ég kunni ekki Gujarati-tungumálið (nokkuð augljóst ekki satt?).

Frá 4400 ára gömlu minjunum í Lothal fór ég áfram veginn til þjóðgarðsins Little Rann of Kutch og gisti þar 3 nætur í kofa. Áhugasamur náttúrulífsljósmyndari rekur fyrirtæki ásamt syni sínum sem fer með túrista í jeppaferðir um þjóðgarðinn.
Í næstu kofum gistu tveir þjóðverjar og tveir hollendingar sem fóru með mér í jeppaferðir tvo daga í röð.
Fyrsta daginn sáum við vilta asna, antilópur og saltvinnslufólk sem vinnur í eyðimörk þjóðgarðsins. Þegar regntímabilið skellur á verður eyðimörkin að grunnu vatni og ættbálkarnir færa sig um set. Ófært er á jeppa í kofana sem við gistum í á meðan regntímabilið stendur yfir.
Annan daginn héldum við í átt að heimkynnum pelikana og flamingóa – einu af fáum svæðum í Indlandi þar sem flamingóar fjölga sér náttúrulega.
Með myndunum á flickr síðunni fylgja upplýsingar um salt-ættbálkana í Kutch.

Umhverfisgreinin mín er komin á heimasíðu vistverndar.

Saturday, January 27, 2007

Myndir a leidinni

Tolvan er svooooo haeg.

Verd ad bida med ad setja inn restina af myndunum sem eg hef tekid m.a. i thjodgardinum Litte Rann in Kutch. Svo fylgir med textinn sem mun fylgja a flickr sidunni.


Women, belonging to a salt extracting tribe in the National Park of Little Rann in Kutch, do laborious work in the desert. The tribes dig holes in the ground and pump salty water to rectangular areas from which the water evaporates. In the picture, some 20 kgs of salt can be seen on its parabolic way to a pile of salt worth two dollars. More than half of the two dollars are used in buying gas for the pumps. See other photos for a better description on salt extraction.


Tilraun med video sem eg held eg geti farid ad henda inn med reglubundnari haetti:
Sa fyrsti sem faer videoid EKKI til a virka skal skrifa i commenti fra thvi og sa fyrsti sem faer thad til ad virka gerir eins. Vinsamlegast :D Eins og er virkar thad ekki hja mer en thad er liklega vegna thess ad thessi tolva er $%##!!. Eg er farinn og aetla ad borga helming af uppsettu verdi!

Video hér


Friday, January 26, 2007

Veitingastaður í Rajkot

Ég hef gist síðastliðnar þrjár nætur í Þjóðgarðinum Little Rann of Kutch en er nú loksins kominn ,,á línuna" aftur. Ferð minni er heitið í suður Gujarat, sem á víst að vera ,,svolítið öðruvísi". Margt hefur drifið á daga mína og til að stytta listann langar mig til að tala um síðasta klukkutíma eða svo hér í Rajkot, Gujarat.

Eftir að hafa leitað uppi veitingastaðinn Bukhara Woodland Restaurant með bettlara á hælunum, sem sumir hverjir klípa mann til að fá athygli, hitti ég í hópi manna, beint fyrir utan staðinn, mann sem vissi hvar hann var.

Innskot: Ég hef verið að lesa sögu Englendings af ferðum sínum á Indlandi sem er setningarfræðilega mjög flókin. Það skýrir þessar löngu setningar sem ég mun hætta að skrifa núna.

Bukhara hefur sæti fyrir um 100 manns. Það var því með valkvíða sem ég valdi sæti í horninu á tómum staðnum. Eftir handahófskent val af matseðlinum - sem ég botnaði lítið í - fann ég klósettið sem var því miður ekki hola í jörðinni eins og ég er vanur að nota.

Veitingastaðurinn var af fínustu gerð og þjónarnir vildu allt fyrir mann gera en áttu bágt með það sökum þess að þeir skildu mig ekki. Maturinn kom þó og var príðilegur, sérstaklega með hrísgrjónum sem komu 2 mínútum eftir að ég pantaði þau sérstaklega. Eitt átti ég ég bágt með á þessum stað: Þjónninn stóð yfir mér og skóflaði úr hrísgrjónaskálinni eða grænmetisréttinum á diskinn minn þegar honum fannst vanta á diskinn minn. Hann reyndi að vísu að gera annað á meðan en ég sá að það var allt saman yfirskin - vökul augu hans fylgdust með hverri skeið sem ofan í mig fór. Þegar líða tók á matartímann tilkynnti þjónninn mér að hann gæti því miður ekki skóflað meiru af grænmetisréttinum á diskinn minn þar sem ég hafði klárað hann og spurði því hvort ég vildi eingöngu hrísgrjón á diskinn. Ég afþakkaði pent og bað um reikninginn. Mér til kvíðarauka sá ég hvar þjónninn náði í skál með heitu vatni í og sítrónubitum og þóttist viss um að hann myndi þvo mér um hendurnar. Hann setti skálina þó á næsta borð og fór og pantaði reikninginn á meðan ég dreif mig í að hella restinni af vatninu sem ég hafði pantað í tóma flösku sem er föst við áberandi fjólubláa bakpokann minn.
Ég svitnaði í lófunum við tilhugsunina um að láta ókunnugan mann þvo mér um hendurnar og í huga mínum endurtók ég enska möntru, sem er lítið annað en eitt ljótt orð. Þjónninn gerði sig ekki líklegan til að þvo mér þegar hann setti skálina fyrir framan mig, mér til mikillar ánægju. Ég þreyf mig því í skyndi, setti táfílusokkana mína í skítuga skónna sem lágu undir borðinu og greip fjólubláa bakpokann á leið minni út.

Monday, January 22, 2007

Gujarat og fleira

Hallo. Hef ekki nad ad fa islenska stafi a thessari tolvu.
I gaer for eg a indverskt hestbak i halfan dag. Eg er enn af jafna mig i rassinum eftir toltid - thessir hestar voru otrulega viljugir! Thad thurfti ekki nema snerta tha einu sinni med faetinum til ad fa tha af stad. Eg hef ad visu ekki mikinn samanburd ne heldur get eg tekid mikid mark a sogum Rachel sem for med mer a hestbak, thvi hun hefur bara prufad ameriska hesta sem hafa verid undir of morgum, of feitum amerikonum (her er betra a skrifa amerikonum frekar en konum, fyrst islenska stafinn vantar). Myndir ur ferdinni eru a flickr sidunni.
Talandi um flickr siduna: Ykkur er velkomid ad skrifa comment thar, t.d. spyrja hvad var um a vera thegar eg tok myndina, af hverjum hun er eda til ad segja ad myndin se leleg.

Nu er eg staddur i annarri borg i odru heradi. Ahmedabad heitir borgin (4,2 millj. ibua) og heradid heitir Gujarat. Borgin er helst fraeg fyrir thad ad Mahatma Ghandi stofnadi einskonar braedrareglu/communu (e. Ashram eda kanski frekar Intentional community, islensk ord oskast hermed) her sem voru adalbaekistodvar hans a medan hann tok thatt i sjalfstaedisbarattu Indverja. Eg vonast til ad geta gefid mer tima i fyrramalid til ad skoda thetta Ashram og pappirsverksmidjuna sem hann kom a fot sem er virk enn i dag. Eg verd ad vera snoggur thvi eg aetla ad flyja thessa havadaborg sem fyrst yfir i thjodgard kenndan vid Little Rann. Thjodgardurinn er i Gujarat og er umkringdur eydimork og soltugri myri.

Eitt ad lokum. Eg hef minnst a herodin Gujarat og Rajasthan i faerslum minum hingad til. Indland er samansett ur 28 herodum sem hvert um sig hefur heradsstjorn. Heradsstjornin er kosin i lydraedislegum kosningum likt og adalstjornin i Delhi. Eitt heradid, Kerala i sudur Indlandi, er svolitid serstakt ad thvi leiti ad thar hefur oft verid, og er nu ad thvi ad eg best veit, lydraedislega kjorin kommunista heradsstjorn. Thetta er vist eitt af faum svaedum i heiminum thar sem kommunistar komast til valda a lydraedislega hatt. Yfirleitt hefur ofbeldi thurft ad koma vid sogu eins og t.d. i Nepal. Eg er ekki thar med a segja ad kommunistar seu ofbeldisfullir, their maeta audvitad oft miklu motlaeti. Ekki liggur leid min til Kerala en mig langadi einfaldlega a minnast a thad.

Friday, January 19, 2007

Udaipur, verðlag og veikindi

Iss, ég er nú meiri kjánapésinn. Ég er með höfuðverk og æðalegg í handleggnum. Æðaleggurinn er þó ekki afleiðing kjánaskapar en höfuðverkinn fékk ég fyrir að leggja af stað á reiðhjóli án þess að hafa vatnsflösku meðferðis. Ekki svo að skilja að ég hafi á endanum verið í miðri eyðimörk og ekki getað haldið áfram, heldur þarf maður bara að drekka reglulega í heitu loftslagi og þá sérstaklega ef maður hreyfir sig eins og ég gerði. Um æðalegginn má svo lesa neðar.

Annars langar mig að tala aðeins um hjólastjórann minn í Agra. Hann er, í samanburði við millistétta hindúann úr síðustu grein, lágstétta múslimi. Í staðin fyrir að hafa átt margar kærustur og vera ógiftur þá giftist hann stúlku frá Kalkútta sem hann hafði aldrei séð áður þegar hann var aðeins 20 ára gamall. Feður hjónanna stungu sem sé saman nefjum eins og algengt er hér og víðar. Ég get ekki ímyndað mér hvernig er fyrir tvítuga stúlku að vera flutta fjarri öllum sem hún þekkir rúmlega þúsund kílómetra leið inn á heimili hjá einhverjum ókunnugum um ókomna tíð.
Hjólastjórinn virtist þjást af einhverskonar næringarskorti því það blæddi stöðugt úr tannholdinu hans. Það besta sem hann kemst í er að finna túrista sem gerir við hann dagsamning, því samkeppnin er hörð í Agra og erfitt að fá viðskipti. Fyrir þá erfiðisvinnu að hjóla með mig um Agra greiddi ég honum um 200 krónur og frá fyrirtækjum sem hann sendi mig í hefur hann fengið um 100 krónur (meira um verðlag hér að neðan). Komist hann í viðskipti sem þessi á hverjum degi, en hann vinnur sjálfsagt flesta daga mánaðarins, tel ég hann á grænni grein. Það þarf þó lukku til að ná sér í dagsamning við túrista.
Draumur hjólastjórans er að verða mótorhjólastjóri, þ.e. að aka auto rickshaw í stað rickshaw (sjá myndir hér að neðan).

<-Rickshaw til vinstri

Auto Rickshaw til hægri->

Ég er allur að hressast. Er farinn frá Pushkar, ferðanýlendu Ísraelsmanna og farinn yfir til Udaipur, staðnum sem 007 – Octopussy myndin var tekin upp að stærstum hluta. Paradísin Pushkar varð skjótt að fangelsi fullu af túristum þegar ég fékk flensuna þar og var þar fastur en ég mæli þó hiklaust með Pushkar. Ég lifði þarna sem grænmetisæta í eina viku og snerti ekki áfengi eins og lög gera ráð fyrir. Pushkar er mjög heilagur staður í augum hindúa og við vatnið má heyra möntrur hindúa spilaðar af upptökum eða sungnar á staðnum linnulaust. Það getur þó verið hálf ergjandi fyrir þá sem reyna að sofa flensusvefni í herbergi rétt við vatnið en yfirleitt eykur þetta á ,,sjarma” Pushkar.
Það væri lélegt að tala aðeins um Octopussy í tengslum við Udaipur, jafnvel þótt að íbúar svæðisins virðast enn svífa um á bleiku James Bond skýji. T.a.m. er Octopussy sýnd á hverju kvöldi milli 7-9 á mörgum matsölustöðum bæjarins. Ég gat því ekki sleppt því að horfa á hana í gærkvöldi. En um Udaipur: James Bond myndin var tekin upp hér því hér eru ótrúleg mannvirki á hólum og eyjum vatnanna sem borgin umkringir. Ein eyjan er t.d. eitt risastórt marmarahótel þar sem svítan er leigð á litlar 25.000 krónur nóttina. Veðrið hérna er með besta móti, ég er stutt ermaður og stutt skálmaður í hvívetna. Samúðarkveðjur til ykkar sem haldið á ykkur hita í froststigunum 9.
Mynd:Marmarahótelið fljótandi
Um verðlagið
Verðlagið á Indlandi er auðvitað ansi lágt. Fyrir þá sem hafa áhuga get ég sagt aðeins frá því. Til að byrja með er sjaldan sem verð eru ákveðin fyrirfram, t.a.m. er Indverji rukkaður um 80 kr fyrir klukkutíma nudd á rakarastofu á meðan útlendingur er fyrst rukkaður um t.d. 300 kr fyrir 20 mínútur. Verð á hlutum og þjónustu er semsagt á floti. Veitingastaðir hafa þó matseðla þar sem verð fyrir hvern rétt er birt og þá borga Indverjar það sama og útlendingar. Venjulega borga ég um 130 krónur fyrir máltíð, innifalið er þá aðalréttur og drykkur. Fyrir morgunverð borga ég yfirleitt svipað en fæ þá kanski 2 rétti og drykk. Fyrir 3 krónur er hægt að kaupa banana og fyrir 300 – 500 kr fæst gisting með sér baðherbergi á notalegu hóteli (sem er þó svolítið skítugra en þið eigið að venjast). Hægt er að finna einstaklingsherbergi án baðherbergis fyrir 160 krónur.

Um veikindin
Eftir flensuna í Pushkar færði ég mig yfir til Udaipur en á öðrum degi fór ég á spítalann vegna þess að höfuðverkir og hálf-blóðugur hósti gerðu mér lífið leitt. Læknirinn sendi mig í röntgen og blóðprufu og sagði margt geta komið til greina um ástand mitt, til dæmis berklar - það eina sem hann nefndi. Á meðan ég beið eftir niðurstöðum á hótelherberginu komst ég að því að mig langaði alls ekki heim, burt frá Indlandi. Það að hafa berkla var minna mál en að þurfa að fara heim. Reyndar las ég seinna að berklarnir sem herja á Indverja eru alls ekkert grín – lyfónæmur fjandi. Berklar eru reyndar algengari hér en eyðni og malaría (í fólki) samanlagt.
Það var því kvíðapési sem mætti á fátæklegan spítalann í Udaipur í annað sinn til að vitja niðurstaðna. Í ljós kom að Gunnar er sko ekki með berkla, heldur er ég með lungnasýkingu eins og fjórðungur ferðamanna fær sem færa sig úr köldu loftslagi yfir í heitt. Flensan og allt þar á undan passar eins og flís við rass við lýsinguna í Lonely Planet bókinni minni. Því er ég með æðalegg í handleggnum og fer í þriðja og síðasta skipti á morgun á spítalann til að fá sýklalyf en auk þess hef ég önnu lyf við sýkingu í ennisholunum (held ég).

Öll samúðar-comment afþökkuð. Ég hef það gott og sé fyrir endann á þessu.