Sunday, March 25, 2007

Himalaya ferðalag

Kæri lesandi!

Ég er staddur í fjallaborginni Shimla en hún er jafnframt höfuðborg Himachal Pradesh héraðsins. Himachal er helmingurinn af Íslandi að stærð og íbúar þess eru um 6 milljónir talsins. Shimla er í um 2200 metra hæð yfir sjávarmáli og þess vegna varð Shimla kærkominn staður fyrir sveitta Breta þegar þeir tóku að flykkjast hingað árið 1819 til að þurka af sér sléttu-svitann í hinum heitu apríl og maí mánuðum (áður en regntímabilið byrjaði). Það er alveg furðulegt að koma í þessa borg og finna evrópskan arkítektúr eftir allt það sem á undan hefur gengið, alveg magnað einhvernveginn.

Á fjórða degi í Mcleod Ganj var ég í sakleysi mínu að taka myndir af gömlum Tíbeta sem hafði flúið landið 2 árum á undan Dalai Lama þegar Sonam, fimmtugur Tíbeti sem búsettur er í Nepal, tók að spjalla við mig. Sjálfur flúði Sonam Tíbet þegar hann var um tvítugt, hann fékk mig til umhugsunar hvað felst í því að vera flóttamaður - að geta ekki farið til síns heimalands! Ég ferðast glaður um Indland og veit að ég get alltaf snúði aftur heim til landsins míns, það geta Tíbeskir flóttamenn ekki gert.
Allavega. Eftir að Sonam hafði fylgst með mér taka myndir af gamla manninum spurði hann mig hvort ég hefði áhuga á að gerast opinber ljósmyndari Vestur-Tíbeta, samtakanna sem hann er í forsvari fyrir, á hátíð sem haldin var 19. og 20. mars í Mcleod Ganj. Ég var fyrst efins, þar sem það þýddi að ég þyrfti að ,,bíða" í 5 daga eftir hátíðinni, en eftir að ég skráði mig á matreiðslunámskeiðið og komst að því að ég fengi tækifæri til að taka myndir af Dalai Lama, þegar Vestur-Tíbetarnir heilsuðu honum á leið í Búdda-hofið sitt, sló ég til.
Hátíð Vestur-Tíbeta fólst í því að heilsa upp á guðinn sinn, Dalai Lama, dansa svolítið fyrir utan bústaðinn í fullum skrúða og svo almennilega næsta dag í menningarmiðstöð Tíbeta í Mcleod Ganj. Um 12 mismunandi svæði Vestur-Tíbet áttu sína fulltrúa á hátíðinni, búninga, dans, söng og trumbuslátt. Búningarnir voru gjörsamlega ótrúlegir!
Ég hef tekið eftir því á ferðum mínum í Himachal Pradesh að Tíbetarnir hérna virðast eiga nóg af peningum. Til að mynda er menningarmiðstöðin sem ég mynntist á mikilfengleg og eitthvað hef ég séð af nýjum hofum og einnig hof sem eru í smíðum.
Dalai Lama er víst forríkur. Á meðan Dalai Lama var í hofinu biðu Vestur-Tíbetar og aðrir í um 3 tíma eftir því að sjá hann aftur þegar hann gekk til baka í bústað sinn. Af þessum þremur tímum fór um hálfur tími í að bera gjafir inn í bústaðinn hans. Um 800 manns (engar ýkjur!) báru glæsilega umbúin búddista rit, silkiklúta, mat ( t.d. hrísgrjónasekki) en þó aðalega gullslegnar styttur af búdda inn í bústað hans. Dalai Lama gefur víst mikið til líknarmála.

Því miður var Sonam of seinn til að leggja inn umsókn mína með tilheyrandi passamyndum til að fá leyfi til myndatöku af Dalai Lama þegar blessaður karlinn gekk til hofs. Dalai Lama býr með um 100 tíbeskum vörðum og fyrir utan bústað hans eru jafnan indverskir hermenn. Dalai Lama á sjálfsagt enga óvini fyrir utan kanski nokkra Kínverja.

Mér fannst nú of langt gengið þegar Sonam kynnti mig sem atvinnuljósmyndara fyrir kunningjum sínum í samtökunum en það keyrði um þverbak þegar hann á öðrum degi hátíðarhalda kynnti mig sem opinberan atvinnuljósmyndara í hátalarakerfi menningarmiðstöðvarinnar fyrir framan um 1000 áhorfendur. Þetta gaf mér þó vald til að stýra hópunum 12 í stellingar fyrir hópmyndatökur sem og frelsi til að mynda dansatriðin úr innanverðum danshringnum. Ég tók um 350 myndir á seinni deginum, þær hefðu margar orðið betri ef gamalmennin í hópunum hefðu gert svolítið af því að brosa. Þetta var samt frábær upplifun og á endanum ákvað ég að taka enga greiðslu fyrir þetta, enda er ég ekki atvinnuljósmyndari.

Eftir hátíðarhöldin í Mcleod Ganj stefndi ég á Shimla en ákvað þó að fara lengri leið til þess að koma við í Mandi og til að skoða Rewalsar vatn, hátt uppi í fjöllunum. Rewalsar vatn er heilagt í augum bæði Hindúa og Búddista og því má finna mörg hof í kringum vatnið. Í stað þess að taka rútu frá vatninu aftur til Mandi gekk ég í um tvo tíma eftir veginum sem rútan keyrir. Útsýnið var með ólíkindum.

Ferðalögin í þessu héraði eru engu lík. Fyrir það fyrsta er útsýnið - þrepaklæddar hrísgrjónabrekkurnar hafa fengið mig til að íhuga kaup á ,,sumarbústaði" hérna. Hins vegar eru ferðalögin í rútunum frekar óþægileg. Fjallavegirnir eru reyndar malbikaðir að mestu en stundum er varla hægt að tala um bundið slitlag í orðsins fyllstu merkingu á sama tíma. Um aksturslag Indverja má nú skrifa heila grein og það stóð reyndar alltaf til..
Í dag komst ég yfir 100 klukkustunda rútu-múrinn, þ.e. ég hef spanderað 100 klukkustundum í rútum á ferðum mínum í Indlandi og Pakistan. Þetta finnst mér markverður áfangi sökum þeirra þjáninga sem fylgja þeim oft (sár bossi). Í dag enduruppgötvaði ég reyndar ipod-spilastokkinn minn sem gerði 5 tíma útsýnisferð dagsins í Himalayafjöllunum næstum því dásamlega. Venjulega sit ég í fremsta sætinu (stress-sætinu) í rútunum hérna þar sem fá sæti bjóða upp á það fótarými sem ég þarf. Ég sit því við hliðina á vélinni sem urrar á gólfinu við hliðina á stressaða bílstjóranum.

Frá Shimla ætla ég til næsta fjallahéraðs, Uttaranchal. Ég mun líklegast brjóta upp þá 10 tíma fjallaferð með stoppi í litlum bæ, Nahan, eins og ég gerði með stoppi mínu í Mandi á leið til Shimla.
Það getur verið gott að vera eini túristinn í indverskum bæ milli þess sem maður heimsækir túristabæi. Þá kemst ég í prímadonnugýrinn, ég á athygli allra og er ekki bara ,,einn af túristunum".

Sjá lýsingu á venjulegum degi Dalai Lama í Dharamsala/Mcleod Ganj á opinberri síðu hans.

Friday, March 16, 2007

Mcleod Ganj

Ég er staddur í ,,Litlu Lhasa" eða Mcleod Ganj eins og bærinn heitir réttu nafni. Lhasa er höfuðborg Tíbet en hér í Mcleod, Indlandi býr nokkur þúsund manna samfélag tíbetskra flóttamanna ásamt Tenzin Gyatso, núverandi Dalai Lama og útlægri ríkisstjórn Tíbeta.
Í dag lauk ,,fyrirlestra röð" Dalai Lama í aðal Búddistahofinu í bænum. Ótal munkar og Búddistar, m.a. frá Suð-austur Asíu, Japan, Nepal og jafnvel Vesturlöndum, hafa því gist hér í bænum og erfitt hefur verið að finna gistingu. Í lang flestum húsum og hótelum er engin kynding sem kemur sér illa í þessum fjallabæ í 1.700 metra hæð sem hefur aldeilis orðið fyrir barðinu á stanslausri rigningu undanfarið. Í dag hefur lítið rignt og spáin fyrir næstu daga er góð en ég mun þó sjálfsagt halda áfram að sofa í nánast öllum fötunum á næturna eins og flestir íbúar hér.Útsýnið hérna er frábært og nokkrar myndir eiga sjálfsagt eftir að rata inn á síðuna mína á næstunni.

Núna, tveimur dögum seinna eftir síðustu efnisgrein er ég enn í bænum. Kuldabylgjan sem gekk yfir norður-Indland er farin á kaldari stað og mér hefur tekist að brenna nýskafaðann hausinn á mér - í gær skafaði tíbetskur munkur af mér allt hárið. Tíbetski munkurinn var hof-vörður og yfirskafari í nærliggjandi munkabyggð og þess skal getið að hann skafaði mig af frjálsum vilja. Myndir af þessu detta inn á myndasíðuna á næstu dögum en thangad til smaatridin koma i ljos:

Ég hef fundið mér eitt og annað að gera hérna í bænum.

Í dag gekk ég til liðs við hippahreyfingu og týndi rusl upp úr árfarvegi og af leikvelli í næsta smábæ. Eins og ég hef áður sagt eru engar ruslatunnur á götum í Indlandi og þess vegna neyðast Indverjar til þess að vera sóðar - eða eru þeir kanski sóðar af því að hér eru engar ruslatunnur?
Átakið í dag vakti athygli og okkur hippunum tókst að fá nokkra indverska krakka til að týna rusl með okkur (eldri Indverjar hristu yfirleitt hausinn). Krakkarnir urðu töluvert mótiveraðir (ach, íslenska orðið?) á því að fá að nota appelsínugula gúmmíhanska en hvort hippunum hafi tekist að koma af stað tískubylgju eða umhverfisátaki verður tíminn að leiða í ljós.
Eftir rétt rúmlega tveggja tíma vinnudag tók svo við þriggja tíma hádegisverður og þá voru flestir orðnir of skakkir til að halda áfram. Aðalhippinn borgaði úr eigin vasa fyrir 5 ruslatunnur sem byrjað var að setja upp í dag, ég er yfir mig hrifinn af framtakinu hans. Rusltínslan hafði góð áhrif á samviskuna mína. Nú get ég haldið ótrauður áfram í að henda rusli á göturnar hérna.
Það sem skiptir máli í þessu sambandi er að losa sig við ruslið þar sem maður veit að það verður hreynsað upp.

Annað sem ég hef stundað hér í bæ er að sitja indverskt matreiðslunámskeið. Á námskeiðinu hefur verið lögð áhersla á norður-indverska matargerð. Hér í bæ er reyndar auðvelt að finna tíbetsk námskeið en tíbetskur matur finnst mér allt að því barnalega einfaldur við hliðina á þeim indverska. Ég hlakka til að geta prufað nokkrar uppskriftir þegar ég kem heim til Íslands.

Eitthvað hef ég spilað skák við einn rússa og kashmírska sölumenn - þeir síðar- og fyrrnefndu eru áhugasamir um taflmennsku.
Að lokum hef ég farið í skemmri göngutúra upp í nærliggjandi fjöll (myndir væntanlegar).


Nú hefur hálfgerður fjallapartur tekið við í ferðalagi mínu með viðkomum hér í Himachal Pradesh, Uttarachnal, Sikkim, Nepal (Everest!) og Tíbet - Himalaya fjallgarðurinn teygir sig inn á öll þessi svæði.

Wednesday, March 07, 2007

Pakistan

Jahérna. Í nokkra daga, þangað til í dag, hef ég ekki komist inn á þessa síðu þó svo að þið hafið getað það.

Pakistanar og Indverjar eiga margt sameiginlegt eins og t.d. gestrisnina. Ekki eru nema 60 ár síðan að gamla Indlandi var skipt upp og það ævintýri byrjaði með ófriði og 2000 kílómetra girðingu.

Í Pakistan hef ég engar moskítóflugur séð en í stað þeirra lögregluþjóna í þúsundum. Sem betur fer eru þeir síðarnefndu ekki í felum í hótelherberginu mínu eins og flugurnar.
Í Pakistan eru asnar ekki eingöngu bjánar í umferðinni heldur líka dráttardýr í umferðinni. Segja má að ég hafi tekið annað skref aftur í tímann.

Ég kynntist svissneskum ungum manni hérna sem hefur hjólað alla leið frá Sviss til Pakistan. Í því felst að hjóla frá Sviss að landamærum Tyrklands, hjóla svo eftir endilöngu Tyrklandi og endilöngu Íran en Tyrkland og Íran eru RISAstór lönd. Hann hefur verið 6 mánuði á leiðinni og haft gaman að - þangað til hann kom til Pakistan. Á mörgum svæðum í Pakistan er þess krafist af ferðamönnum að þeir hafi með sér vopnaðan vörð. Á öðrum svæðum getur ferðamaður átt von á því að lögreglumenn krefjist þess að fá að vernda þá.
Lögreglumönnum við landamæri Írans og Pakistan fannst vinur okkar Steven eitthvað berskjaldaður og fylgdu honum því 1000 km leið til Lahore.
Ferðalagið tók hann um 4 vikur og allan tímann var lögreglubifreið á eftir honum. Á næturnar svaf hann í lögreglustöðvum og fékk yfirleitt mat sem lögreglumenn færðu honum - að ná í hann sjálfur var of ,,hættulegt" (bull). Oftar en einu sinni notuðu lögreglumenn bambusprikin sín til að fæla burt áhugasama Pakistana frá Steven, þrátt fyrir góðan ásetning Pakistananna og reiði Stevens. Steven virðist nokkuð taugatrektur eftir þennan Pakistan spotta og ætlar ekki að dvelja hér lengur en fara þess í stað beint til Indlands. Þegar hann kom hingað til Lahore spurði hann mig og aðra í fullri alvöru hvort hann mætti í alvöru fara einn út af hótelinu án lögreglufylgdar.

Ég hef spjallað við heilu hrúgurnar af áhugaverðu fólki. Sumir eru útlendingar sem koma aftur og aftur til Pakistan. Af þeim sem ég hef hitt í Lahore má helst nefna pakistanskan (kristinn) prest, nýsjálenska konu sem á gamals aldri ,,hitti" löngu dáinn múslimskan dýrling og gerðist múslimi, stofnanda hótelsins sem ég gisti í - fyrrum blaðamaður sem skrifaði hættulegar greinar í pakistönsk blöð og að lokum Englending sem hefur verið 4 ár á leiðinni í kringum hnöttinn á hjóli en segist eiga 5 ár framundan í að hjóla strandlengju Afríku.
Í Pakistan finnur maður ferðamenn sem þora að ferðast hvert sem er og þeir eru nánast alltaf einir á ferð. Fólkið sem gistir hérna núna hefur prufað allt! Íran, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Kasakstan, Úsbekistan, Kyrgistan, Afganistan, Tíbet...

Síðasti útlendingurinn sem var drepinn í Pakistan var frægur blaðamaður, gyðingur sem eltist við hryðjuverkamenn í suður Pakistan þangað til hann var drepinn um það bil árið 1997.

Pakistanar sem ég hef hitt hafa verið mjög leiðir yfir fordómum Evrópubúa gagnvart múslimum og Pakistönum. Þó að ég hafi kannski ekki verið fordómafullur gagnvart múslimum áður en ég kom hingað finn ég núna að margt hefur breyst í viðhorfum mínum gagnvart múslimum, Íslam og Pakistönum. Þessi breyttu viðhorf verða kannski efni í önnur innslög.