Monday, February 19, 2007

Gjörningar síðustu daga og fjölbreytni Indlands

Ég hef bætt við myndskeiðum á youtube síðuna mína (sjá krækju til hægri). Mæli sérstaklega með pennabörnunum. Ég tók börnin upp án þess að þau vissu af – ef þau hefðu vitað af því hefðu þau sett sig í stellingar og ekki sagt neitt, þ.e. ekki sagt penni, penni, penni.

Annað nýtt myndbrot tók ég í Bhuj þegar ég sýndi dansandi gestum brúðkaups áhuga með myndatöku. Í þetta skiptið hélt ég sjálfur á myndavélinni þegar ég var gripinn í dansinn og í seinni hluta myndbrotsins fer litla vídjó-myndavélin mín að titra jafnvel meira en venjulega þegar ég dansa með gestunum. Stuttu seinna reyndu karlarnir að kenna mér að dansa því ég held að þeim hafi ekki þótt danstaktar mínir viðeigandi. Á endanum var ég bara orðinn nokkuð afslappaður í dansinum - kannski einum of því ég var auðvitað ekki eiginlegur gestur í brúðkaupinu. Myndbrotin eru alls þrjú.
Jaisalmer stoppið er komið á netið í myndum og myndbrotum. Það sem ég afrekaði helst í Jaisalmer var að skreppa í safaríferð á kameldýrum út í eyðimörkina með nokkrum skammtíma vinum og gista þar eina nótt undir berum himni. Jaisalmer er um 100.000 manna bær sem í er frægt virki, Jaine (?) hof, hallir og Haveli. Á vídjó síðunni og myndasíðunni má lesa meira um dvölina í Jaisalmer.
Eldir myndir setti ég inn á flickr síðuna fyrir 4 dögum síðan.

Ég fékk loksins staðfestingu á því að Ísland er eitt af 8 löndum í heiminum sem þurfa ekki vegabréfsáritun til þess að fá inngöngu í Pakistan. Ein 28 lönd hafa töluvert minni fríðindi eins og t.d. Júgóslavía – bíðum nú við, Júgóslavía er ekki til lengur en listabrotið hér að neðan er frá því 2006??:

28. Yugoslavia - One month - Diplomatic & Official Passport Holders
29. Ice Land - Three months - All nationals of the country
30. Maldives - Three months - All nationals of the country
31. Nepal - One month - All nationals of the country
32. Tobago - Un-specified period - All nationals of the country
33. Tonga - Un-specified period - All nationals of the country
34. Trinidad - Un-specified period - All nationals of the country
35. Western Samoa - One month - All nationals of the country
36. Zambia - Three months - All nationals of the country

Athyglisvert er að sjá að Ís land er eina Evrópulandið sem hefur þessi fríðindi en nokkur Afríkuríki eru á listanum.
Skrifað seinna: Í dag hafði ég samband við pakistanska sendiráðið í Delhi í þriðja skipti og fékk loksins annað svar en venjulega; ég þarf ekki vegabréfsáritun. Það þarf ekki að undra að starfsfólkið muni ekki hvaða lönd eru á listanum því á þessari reglur reynir líklegast afar sjaldan. Afríkubúar ofangreindra Afríkulanda hafa líklegast oft ekki efni á því að ferðast til Pakistan.
Vinalest Indlands og Pakistan sprengd, 65 látnir. Krækja hér.
Ég ætla til Punjab í Indlandi og það var eiginlega aldrei inn í myndinni að nota þessa lest þar sem ég ætlaði að skoða mig um á leiðinni norð-vestur. Ég met stöðuna aftur eftir nokkra daga en hriðjuverkamenn hafa verið í því að sprengja hitt og þetta í norð-vestur Pakistan undanfarið (N.B. ekki norð-vestur Indlandi).

Í gær keypti ég bók um indverska fugla. Ég er í þessum skrifuðu orðum að færa inn rétt nöfn á fuglana á flickr síðunni minni (á ensku).
Mér finnst stórmerkilegt að ég skuli hafi keypt fuglabók því fyrir 2 mánuðum síðan hafði ég afar lítinn áhuga á fuglum. Áhugi minn á dýralífi hefur reyndar aukist mikið eftir að ég fór í þjóðgarðana í Gujarat – ég lá stjarfur um daginn inn á hótelherbergi á meðan ég horfði á David Attenborough þátt í sjónvarpinu. Kannski var ein ástæða fyrir því magakveisan og hitinn sem fylgdi henni en ég naut þess í öllu falli að horfa.
Á síðustu árum hef ég fengið áhuga á því sem ég hafði nánast engan áhuga á í t.d. menntaskóla. Þar má nefna sögu og íslenska goðafræði en svo sé ég líka eftir því að hafa ekki lagt mig meira fram í setningarfræði, bókmenntafræði, dönsku og þýsku.

Áfram með smjerið á þessu Kenny G internetkaffihúsi.

Fjölbreytni Indlands
Áður en ég lagði af stað til Indlands hafði ég litla tilfinningu fyrir því afhverju Indlandi er líkt við heila heimsálfu. Á ensku er Indlandsskaginn oft kallaður ,,sub-continent” og í innslagi á þessari síðu frá því um áramótin ber ég saman Evrópusambandið og Indland. Í Evrópusambandinu búa um 400 milljónir manna en í Indlandi býr 1,1 milljarður manna. Þó að Evrópusambandið sé stærra en Indland má alveg færa rök fyrir því að svæðin séu á ,,sama skala”, 4 millj. ferkílómetra í samanburði við þá 3 sem Indland þekur.
Ég geri mér sífellt betur grein fyrir því hve lítið ég hef séð af Indlandi á þessum eina og hálfa mánuði. Héröðin sem ég hef aðallega heimsótt, Gujarat og Rajasthan, eru hvort um sig stærri en England og hafa bæði fleiri íbúa en England. Það væri því ekki úr vegi að líta á hérað í Indlandi sem svipaða uppsprettu menningar, mannvirkja og annars fróðleiks og lands í Evrópusambandinu. Hvert hérað hefur eigin stjórn, yfirleitt eigið tungumál og sér-staka menningu - eins og aðildarríki Evrópusambandsins.

Í samtali mínu við hollenskan bókasafnsfræðing í Gujarat vildi ég þó meina að Evrópusambandið væri líklegast fjölbreyttara svæði en Indland (án þess að taka fram hvað og hvernig ætti eiginlega að bera saman). Hann var því allsendis ósammála og benti mér á að í mismunandi héröðum í Indlandi megi finna gjörólíka menningu og tungumál auk þess sem að Indland væri stærri suðupottur mismunandi mannhópa. Í Indlandi býr m.a. fólk af mongólskum uppruna og í austur héröðunum hefur fólk oft svipbrigði álík nágrönnum Indverja í suð-austur Asíu auk þess sem straumar fólks úr vestri, t.d. Araba, hafa runnið til Indlands.
Þeir Indverjar sem ég hef hitt hingað til hafa yfirleitt álík svipbrigði og Evrópubúar og í gær hitti ég tvo Indverja sem hafa blá augu og a.m.k. annar þeirra vildi meina að hann ætti ekki ættir að rekja til Evrópu.

Hollendingurinn áðurnefndi fer til Indlands á hverju ári eins og margir aðrið ferðamenn sem ég hef hitt hérna. Hann sagði mér að stundum þætti honum hvoru tveggja í senn svo pirrandi en svo áhugavert hve lítið hann vissi um landið.
Ef maður hefur í huga samanburðinn við Evrópu er þó ekki skrítið að Indland bjóði sífellt upp á nýjar upplifanir fyrir ferðamann – þegar Vesturlandabúar ferðast í Evrópu láta þeir jafnan duga að heimsækja eitt eða tvö lönd í einni ferð. Það er alveg ljóst að Indland má heimsækja aftur og aftur. Í minni ferð hyggst ég heimsækja um 6 héröð af 28, þar af 1 á hundavaði.
Ég er kominn skemur en ég hafði ætlað eftir einn og hálfan mánuð og því lítur út fyrir að ég verði jafnvel lengur en 4 mánuði hérna úti í þessum skrifuðu orðum.

Ég hef reynt af fremsta megni að koma ekki með alhæfingar um Indland – fyrir utan kanski tölfræðilegar staðreyndir – og sérstaklega ekki um Indverja. Það væri undarlegt af ferðamanni að koma með alhæfingar um Evrópubúa eftir að hafa séð aðeins tvö lönd í Evrópu.
Ég veit að ég mun hafa frá nægu að segja á þessari síðu. Ég hef heyrt ýmislegt t.d. um deilur múslima og hindúa en finnst ég verða að kynna mér deilurnar betur áður en ég skrifa nokkuð um þær.

Mér hefur fundist að fólkið á fyrstu áfangastöðum mínum, Delhi, Agra og Rajasthan í heild, hafi peninga á heilanum. Þetta er hins vegar þvæla. Á vinsælum ferðamannastöðum má finna allnokkra ferðamenn sem auðvelt er að plata. Þetta skapar atvinnu fyrir fólk sem reynir meira en venjulegur kaupsýslumaður að hafa fólk að féþúfum. Peningapungarnir eru því afleiðing ferðamannastraumsins en ekki eitthvað sem er greipt í samfélagið á hverjum stað fyrir sig. Auðvitað getur verið hefð fyrir hörkulegum viðskipum á einhverjum stað en aftur á móti flytjast peningapungarnir oft á svæði þar sem punga má út peningum. Því eru pungarnir sjáfsagt oft aðfluttir eða þá að þeim finst þeir tilneyddir að apa upp ósiði annarra af samkeppnis ástæðum.

Ég get ekki tekið undir alhæfingar um að t.d. Indverjar eða Tyrkir séu óheiðarlegir í viðskiptum en því miður virðast margir menn þessara landa hafa komist áfram á því að stíga á tær viðskiptavina. Viðskiptahefðir þessara landa bjóða líka upp á meiri óheiðarleika en t.d. íslenska hefðin, því í þessum löndum er verðlag oft allt á floti – það út af fyrir sig þarf þó ekki að vera eitthvað ósæmilegt fyrir landið.

7 comments:

Anonymous said...

Alltaf jafn gaman að fylgjast með blogginu þínu og takk fyrir að verða við óskum okkar um póstkort :o)

Berglind

Anonymous said...

Halló Gunni. Var að lesa nýjustu færslu þína.Ég sé að þú ert kominn á bólakaf í samfélagsrýni og mannfræðistúdíu þarna suður frá. Ætla má að með 1.1. milljarð til að stúdera þá verðir þú þarna fram á sumar þ.e. íslenzka sumarið. Enn og aftur óskum við þér góðs gengis með ósk um að heilladísirnar vaki yfir þér. Hjörtur og & Co

Gunnar Geir said...

Heyrdu ja!
Gleymdi ad minnast a Fjolbreyttu truarbrogdin herna, Hinduismi, Islam, Shikar, Jainar, Gydingdomur og kristni.
Svo ma nefna fjolbreytt landslag og vedrattu.

Gaman ad heyra i ykkur Berglind og Hjortur (og co!).
Eg vona ad eg komi ekki heim i islenska veturinn 2007/2008.

Anonymous said...

Frábær síða hjá þér alveg - rosalega gaman að fylgjast með þér, við vorum líka að skoða youtube myndirnar, þetta eru örugglega engin smá menningarviðbriðgði að vera þarna. Keep up the good work:)
Bestu kveðjur frá Danaveldi,
Gunnar og Herdís

Gunnar Geir said...

Takk elsku Gunni og Herdís.

Gunnar Geir said...
This comment has been removed by the author.
Anonymous said...

World Of Warcraft gold for cheap
wow power leveling,
wow gold,
wow gold,
wow power leveling,
wow power leveling,
world of warcraft power leveling,
world of warcraft power leveling
wow power leveling,
cheap wow gold,
cheap wow gold,
buy wow gold,
wow gold,
Cheap WoW Gold,
wow gold,
Cheap WoW Gold,
world of warcraft gold,
wow gold,
world of warcraft gold,
wow gold,
wow gold,
wow gold,
wow gold,
wow gold,
wow gold,
wow gold
buy cheap World Of Warcraft gold i3b6z7wr