Monday, February 26, 2007

Hermaðurinn

Ég er óðum að venjast því að sjá vopnaða hermenn í grennd við lestarstöðvar og aðra fjölfarna staði. Þar sem ég er Íslendingur hef ég mætt hermönnum með tortryggni og andúð, án þess þó að sýna það. Í einfeldni minni hef ég hugsað að her sé með öllu óþarfur, alltaf.

Í lestarferð á leið frá Jodphur til Delhi (þar sem ég er núna) var ég svo heppinn að ungur maður, Gauji (breytt nafn), gaf sig að tali við mig. Í samræðum okkar, um allt annað en yfirborðslega hluti, kom í ljós að Gauji er hermaður í indverska hernum og af þeim sökum má hann ekki hafa samskipti við útlendinga. Gauji er rólegur og djúpt þenkjandi maður og eftir um tveggja tíma spjall bauð hann mér að eyða deginum með sér í Delhi og þiggja gistingu hjá mági sínum sem ég þáði með þökkum.

Kona Gauja stundar rannsóknir í nanó-tækni í Stokkhólmi og hefur verið í Svíðþjóð í nokkra mánuði.
Gauji er fallhlífarhermaður, kapteinn að tign, sem þýðir að hann stjórnar um 120 manna herdeild. Hann hefur undanfarin ár verið með herdeild sína upp á Siachen jöklinum í Kashmir en jökullinn er mikið þrætuepli í deilu Indverja og Pakistana um Kashmir. Á jöklinum getur hitastigið farið niður í –50 °C og 10,5 metra þykkt lag af snjó fellur á jökulinn yfir veturinn. Pakistanar og Indverjar hafa herstöðvar uppi á jöklinum í yfir 6000 metra hæð og til þessa eyðir t.d. indverski herinn um 60 milljónum króna á dag, því allt þarf að flytja með flugi upp á jökulinn.
Það var á 8. og 9. áratugnum sem pakistanskir hermenn byrjuðu leiðangra upp á jökulinn en eftir nokkuð kapphlaup náðu Indverjar öllum hæstu tindunum 1984. Tindar Siachen eru hernaðarlega mikilvægir sökum þess að þaðan hafa Indverjar yfirsýn yfir Karakoram þjóðveginn sem liggur frá Tíbet til norður-Pakistan – eina leiðin frá Pakistan til Kína.
Pakistanar hafa nokkrum sinnum reynt að ná tindunum með valdi, t.d. leiddi Pervez Musharraf, sem er núverandi forseti Pakistan, fræga árás árið 1987 á stöðu Indverja á jöklinum. Um 2000 hermenn hafa látið lífið á jöklinum sökum frosts, snjóflóða og annars veðurtengds, töluvert fleiri en í átökunum á milli fylkinganna tveggja. Gauji missti næstum því báða fæturna í einhverju kuldakastinu á jöklinum en slapp fyrir horn og hefur aðeins hvíta rönd á öðrum fætinum til að minna sig á atburðinn.

Gauji sagði mér frá einu merkilegu um daginn. Yfirmaður hans og góður félagi í indverska hernum kemur frá litlu afskekktu þorpi í Kashmir. Í þessu þorpi má finna fólk sem sumir vilja kalla Arya.

,, The Hindus of Kashmir come of pure Aryan race and can be recognized by their sharp features, fair complexion, light colored hair and eyes.”
Af indverskri ferðamannasíðu

Samkvæmt yfirmanni Gauja heimsækja þýskar konur þorpið en þó ekki til þess að setjast þar að..... Þetta er nú meira slúðrið.

Í gegnum Gauja hef ég kynnst vinum hans, tengdafólki og frændum. Þó að Gauji hati Pakistan ( kanski að indverskum hermönnum sé innrætt slíkt hatur ) var hann þó nógu viðsýnn til að hringja í múslimskan vin sinn, sem ferðast hefur um Pakistan, til að hitta mig ástam strangtrúaðri eiginkonu hans. Hann vissi að hann væri ekki besti maðurinn til að ráðleggja mér um ferð þangað og bað hann hitta mig.
Föðurbróður Gauja hef ég hitt og meira að segja sofið í sama rúmi og hann. Sá var mjög áhugasamur um Ísland og íslensku stjórnarskránna. Ég gisti í íbúð hans ásamt Gauja en Gauji fór svo aftur á jökulinn um nóttina þar sem hann mun vera fram á haust.

Kvennmannsleysi Gauja á jöklinum sem og hjúskaparstaða hans virðist hvetja hann til dáða til að koma vinum sínum saman við vinkonur sínar og öfugt. Hér í Delhi hitti ég 19 ára fiðrildi undir því yfirskini að fræðast um indverksar bíómyndir. Gauji hafði annað í huga og finnst áhugaleysi mitt á kvennfólki á ferðum mínum óskiljanlegt. Kynni mín af þessari stúlku, Apörnu, hafa verið skemmtileg. Til dæmis hef ég óvart hitt á föðurbróður hennar sem komst nálægt því að yfirheyra mig í óþægilegu símtali. Eftir að ég horfði á bíómynd með henni og vinkonum hennar um nauðungarbrúðkaup þurfti ég svo að þykjast þekkja hana ekki því frændinn var kominn að sækja hana. Ég hélt ég væri nú vaxinn upp úr svona skrípaleikjum.

Vinir Gauja hafa allir verið mjög efnilegir eins og hann var sjálfur þegar hann lauk námi í rússnesku. Í dag er hann ekki jafn efnilegur að margra mati (m.a. honum sjálfum) því hann er vel upplýstur hermaður sem lætur þolir enga vitleysu frá yfirmönnum sínum. Aparna stundar nám í fjölmiðlun af miklum krafti og mun sjálfsagt eignast ,,villu og stóran bíl” – orð sem annar frændi Gauja notaði til að lýsa draumum sínum eftir lögfræðinám í Delhi.

Eftir 2 tíma legg ég af stað til hins indverska hluta Punjab héraðs. Punjab var skipt á milli Pakistan og Indlands við sundrun Indlands 1947.

Monday, February 19, 2007

Gjörningar síðustu daga og fjölbreytni Indlands

Ég hef bætt við myndskeiðum á youtube síðuna mína (sjá krækju til hægri). Mæli sérstaklega með pennabörnunum. Ég tók börnin upp án þess að þau vissu af – ef þau hefðu vitað af því hefðu þau sett sig í stellingar og ekki sagt neitt, þ.e. ekki sagt penni, penni, penni.

Annað nýtt myndbrot tók ég í Bhuj þegar ég sýndi dansandi gestum brúðkaups áhuga með myndatöku. Í þetta skiptið hélt ég sjálfur á myndavélinni þegar ég var gripinn í dansinn og í seinni hluta myndbrotsins fer litla vídjó-myndavélin mín að titra jafnvel meira en venjulega þegar ég dansa með gestunum. Stuttu seinna reyndu karlarnir að kenna mér að dansa því ég held að þeim hafi ekki þótt danstaktar mínir viðeigandi. Á endanum var ég bara orðinn nokkuð afslappaður í dansinum - kannski einum of því ég var auðvitað ekki eiginlegur gestur í brúðkaupinu. Myndbrotin eru alls þrjú.
Jaisalmer stoppið er komið á netið í myndum og myndbrotum. Það sem ég afrekaði helst í Jaisalmer var að skreppa í safaríferð á kameldýrum út í eyðimörkina með nokkrum skammtíma vinum og gista þar eina nótt undir berum himni. Jaisalmer er um 100.000 manna bær sem í er frægt virki, Jaine (?) hof, hallir og Haveli. Á vídjó síðunni og myndasíðunni má lesa meira um dvölina í Jaisalmer.
Eldir myndir setti ég inn á flickr síðuna fyrir 4 dögum síðan.

Ég fékk loksins staðfestingu á því að Ísland er eitt af 8 löndum í heiminum sem þurfa ekki vegabréfsáritun til þess að fá inngöngu í Pakistan. Ein 28 lönd hafa töluvert minni fríðindi eins og t.d. Júgóslavía – bíðum nú við, Júgóslavía er ekki til lengur en listabrotið hér að neðan er frá því 2006??:

28. Yugoslavia - One month - Diplomatic & Official Passport Holders
29. Ice Land - Three months - All nationals of the country
30. Maldives - Three months - All nationals of the country
31. Nepal - One month - All nationals of the country
32. Tobago - Un-specified period - All nationals of the country
33. Tonga - Un-specified period - All nationals of the country
34. Trinidad - Un-specified period - All nationals of the country
35. Western Samoa - One month - All nationals of the country
36. Zambia - Three months - All nationals of the country

Athyglisvert er að sjá að Ís land er eina Evrópulandið sem hefur þessi fríðindi en nokkur Afríkuríki eru á listanum.
Skrifað seinna: Í dag hafði ég samband við pakistanska sendiráðið í Delhi í þriðja skipti og fékk loksins annað svar en venjulega; ég þarf ekki vegabréfsáritun. Það þarf ekki að undra að starfsfólkið muni ekki hvaða lönd eru á listanum því á þessari reglur reynir líklegast afar sjaldan. Afríkubúar ofangreindra Afríkulanda hafa líklegast oft ekki efni á því að ferðast til Pakistan.
Vinalest Indlands og Pakistan sprengd, 65 látnir. Krækja hér.
Ég ætla til Punjab í Indlandi og það var eiginlega aldrei inn í myndinni að nota þessa lest þar sem ég ætlaði að skoða mig um á leiðinni norð-vestur. Ég met stöðuna aftur eftir nokkra daga en hriðjuverkamenn hafa verið í því að sprengja hitt og þetta í norð-vestur Pakistan undanfarið (N.B. ekki norð-vestur Indlandi).

Í gær keypti ég bók um indverska fugla. Ég er í þessum skrifuðu orðum að færa inn rétt nöfn á fuglana á flickr síðunni minni (á ensku).
Mér finnst stórmerkilegt að ég skuli hafi keypt fuglabók því fyrir 2 mánuðum síðan hafði ég afar lítinn áhuga á fuglum. Áhugi minn á dýralífi hefur reyndar aukist mikið eftir að ég fór í þjóðgarðana í Gujarat – ég lá stjarfur um daginn inn á hótelherbergi á meðan ég horfði á David Attenborough þátt í sjónvarpinu. Kannski var ein ástæða fyrir því magakveisan og hitinn sem fylgdi henni en ég naut þess í öllu falli að horfa.
Á síðustu árum hef ég fengið áhuga á því sem ég hafði nánast engan áhuga á í t.d. menntaskóla. Þar má nefna sögu og íslenska goðafræði en svo sé ég líka eftir því að hafa ekki lagt mig meira fram í setningarfræði, bókmenntafræði, dönsku og þýsku.

Áfram með smjerið á þessu Kenny G internetkaffihúsi.

Fjölbreytni Indlands
Áður en ég lagði af stað til Indlands hafði ég litla tilfinningu fyrir því afhverju Indlandi er líkt við heila heimsálfu. Á ensku er Indlandsskaginn oft kallaður ,,sub-continent” og í innslagi á þessari síðu frá því um áramótin ber ég saman Evrópusambandið og Indland. Í Evrópusambandinu búa um 400 milljónir manna en í Indlandi býr 1,1 milljarður manna. Þó að Evrópusambandið sé stærra en Indland má alveg færa rök fyrir því að svæðin séu á ,,sama skala”, 4 millj. ferkílómetra í samanburði við þá 3 sem Indland þekur.
Ég geri mér sífellt betur grein fyrir því hve lítið ég hef séð af Indlandi á þessum eina og hálfa mánuði. Héröðin sem ég hef aðallega heimsótt, Gujarat og Rajasthan, eru hvort um sig stærri en England og hafa bæði fleiri íbúa en England. Það væri því ekki úr vegi að líta á hérað í Indlandi sem svipaða uppsprettu menningar, mannvirkja og annars fróðleiks og lands í Evrópusambandinu. Hvert hérað hefur eigin stjórn, yfirleitt eigið tungumál og sér-staka menningu - eins og aðildarríki Evrópusambandsins.

Í samtali mínu við hollenskan bókasafnsfræðing í Gujarat vildi ég þó meina að Evrópusambandið væri líklegast fjölbreyttara svæði en Indland (án þess að taka fram hvað og hvernig ætti eiginlega að bera saman). Hann var því allsendis ósammála og benti mér á að í mismunandi héröðum í Indlandi megi finna gjörólíka menningu og tungumál auk þess sem að Indland væri stærri suðupottur mismunandi mannhópa. Í Indlandi býr m.a. fólk af mongólskum uppruna og í austur héröðunum hefur fólk oft svipbrigði álík nágrönnum Indverja í suð-austur Asíu auk þess sem straumar fólks úr vestri, t.d. Araba, hafa runnið til Indlands.
Þeir Indverjar sem ég hef hitt hingað til hafa yfirleitt álík svipbrigði og Evrópubúar og í gær hitti ég tvo Indverja sem hafa blá augu og a.m.k. annar þeirra vildi meina að hann ætti ekki ættir að rekja til Evrópu.

Hollendingurinn áðurnefndi fer til Indlands á hverju ári eins og margir aðrið ferðamenn sem ég hef hitt hérna. Hann sagði mér að stundum þætti honum hvoru tveggja í senn svo pirrandi en svo áhugavert hve lítið hann vissi um landið.
Ef maður hefur í huga samanburðinn við Evrópu er þó ekki skrítið að Indland bjóði sífellt upp á nýjar upplifanir fyrir ferðamann – þegar Vesturlandabúar ferðast í Evrópu láta þeir jafnan duga að heimsækja eitt eða tvö lönd í einni ferð. Það er alveg ljóst að Indland má heimsækja aftur og aftur. Í minni ferð hyggst ég heimsækja um 6 héröð af 28, þar af 1 á hundavaði.
Ég er kominn skemur en ég hafði ætlað eftir einn og hálfan mánuð og því lítur út fyrir að ég verði jafnvel lengur en 4 mánuði hérna úti í þessum skrifuðu orðum.

Ég hef reynt af fremsta megni að koma ekki með alhæfingar um Indland – fyrir utan kanski tölfræðilegar staðreyndir – og sérstaklega ekki um Indverja. Það væri undarlegt af ferðamanni að koma með alhæfingar um Evrópubúa eftir að hafa séð aðeins tvö lönd í Evrópu.
Ég veit að ég mun hafa frá nægu að segja á þessari síðu. Ég hef heyrt ýmislegt t.d. um deilur múslima og hindúa en finnst ég verða að kynna mér deilurnar betur áður en ég skrifa nokkuð um þær.

Mér hefur fundist að fólkið á fyrstu áfangastöðum mínum, Delhi, Agra og Rajasthan í heild, hafi peninga á heilanum. Þetta er hins vegar þvæla. Á vinsælum ferðamannastöðum má finna allnokkra ferðamenn sem auðvelt er að plata. Þetta skapar atvinnu fyrir fólk sem reynir meira en venjulegur kaupsýslumaður að hafa fólk að féþúfum. Peningapungarnir eru því afleiðing ferðamannastraumsins en ekki eitthvað sem er greipt í samfélagið á hverjum stað fyrir sig. Auðvitað getur verið hefð fyrir hörkulegum viðskipum á einhverjum stað en aftur á móti flytjast peningapungarnir oft á svæði þar sem punga má út peningum. Því eru pungarnir sjáfsagt oft aðfluttir eða þá að þeim finst þeir tilneyddir að apa upp ósiði annarra af samkeppnis ástæðum.

Ég get ekki tekið undir alhæfingar um að t.d. Indverjar eða Tyrkir séu óheiðarlegir í viðskiptum en því miður virðast margir menn þessara landa hafa komist áfram á því að stíga á tær viðskiptavina. Viðskiptahefðir þessara landa bjóða líka upp á meiri óheiðarleika en t.d. íslenska hefðin, því í þessum löndum er verðlag oft allt á floti – það út af fyrir sig þarf þó ekki að vera eitthvað ósæmilegt fyrir landið.

Saturday, February 10, 2007

Jarðskjálftar, menningarsjokk og annað hræðilegt

Ég sit á svölum hótelsins míns í Bhuj og fylgist með örsmáum fuglum og gífurlega stórum flugum sem flögra rétt fyrir framan mig. Frá svölum hótelsins sé ég í tvær hallir bæjarins. Önnur þeirra er í aðeins 10 metra fjarlægð og er brotin og brömluð eins og hallarmúrinn sem umlykur hallirnar; stórt gat í múrnum gerir mér kleift að sjá til þeirra.
Fyrir tveimur dögum síðan skoðaði ég þorp
í grennd við Bhuj, Anjar, sem varð einna verst úti í jarðskjálftanum 2001 á sjálfstæðisdegi Indverja, 26. janúar. Í íbúðarhverfum þorpsins (sem er að minnsta kosti bær á íslenskum mælikvarða) mátti enn sjá auð svæði og grjóthrúgur í miðju íbúðarhverfi og víða skemmd hús, nú 6 árum seinna. Í bænum kynnstist ég ungum úrviðgerðarmanni, Varesh, sem gerði hlé á vinnu sinni til að skutla mér á vespu sinni á áhugaverðari staði bæjarins. Að skilnaðargjöf færði hann mér Kutch-skyrtu, þrátt fyrir mótbárur mínar.
Varesh fór með mig á stað þar sem frændi hans lét lífið, aðeins barn að aldri, ásamt nokkrum öðrum börnum í jarðskjálftanum. Á staðnum voru eingöngu ný hús.
Við heimsóttum líka tvö hverfi sem reist voru til bráðabirgða sem eru þó enn í notkun þrátt fyrir að vera lítið annað en bárujárnsklæðning á timburgrind. Ekki myndi ég vilja gista kalda vetrarnótt þar.

Eftir mánuð án meltingarvandræða fór ég að verða full fífldjarfur. Þegar ég átti erfitt með að finna veitingastað í Anjar, sætti ég mig við fyrstu skítabúlluna sem ég fann; tómur kofi með svörtu eldhúsi. Ég bjóst ekki við matseðli svo ég bað um einhverskonar grænmetisrétt en var bent á að kjúklingaréttur væri kannski bara „bestur fyrir mig". Þegar ég var við að spíta út úr mér beinum úr einum mögrum kjúklingabitanum bentu Indverjarnir, sem sátu í kringum mig og tóku af mér myndir meðan ég borðaði, á að tvær mýs væru að læðupúkast í eldhúsinu.
Merkilegt nokk, þá brást meltingarkerfið ekki svo illa við þessum málsverði. Það gerði það hins vegar þegar ég fékk mér kranavatn á fínum veitingastað í gær og því húki ég á hótelinu í dag.
Ferðamönnum er ráðlagt að drekka aldrei kranavatn hér eða í öðrum nálægum löndum, en ég hafði reyndar spurt þjóninn hvort vatnið hefði verið hreynsað - sem er leiðandi spurning, þær ber að varast.
Svarta eldhúsið
„Menningarsjokk"
Eftir um 6 vikur í Indlandi hef ég náð að upplifa magapínu og menningarsjokk (M&M) sem teljast líklegast báðar vera klassískar upplifanir fyrir ferðamann hér.
Áður en ég fékk menningarsjokkið hugsaði ég stundum afhverju ég hefði svo litla samúð með betlurunum eða öðrum bágstöddum sem urðu á vegi mínum. Mér fannst stundum eins og ég væri frekar kaldlindur. Einu sinni gerði ég tilraun og gaf 15 betlurum fyrir utan hof í Udaipur klink en fann ekki fyrir neitt mikið bættari samvisku. En einn daginn, þegar ég var ekki á hraðskreiðri göngu fram hjá hinum bágstöddu, varð ég fyrir einhverskonar sjokki.
Ég sat og beið eftir rútu á eyjunni Diu þegar gömul hrörleg kona með veikburða smábarn kom til mín og bað mig um aur. Ég átti ekkert klink í vasanum því ég hafði gefið betlurum það fyrr um daginn til að losna við þá og klinkþungan vasa í löngu rútuferðalagi - og jú, stundum er gott að gefa og þá sérstaklega konum með börn.
Mér fannst leiðinlegt að geta ekkert gefið henni og þar sem ég hafði tíma sagði ég við gömlu konuna að mér þætti leiðinlegt að eiga ekkert klink ( þrátt fyrir að eiga nóg af verðlausum seðlum í vasanum) og að hún ætti samúð mína, svo snerti ég skítugt smábarnið þessu til undirstrikunar og ég meinti það sem ég sagði.
Samúð mín var auðtivað verðlaus fyrir konuna en hefði þó í för með sér að ég fann að einhverju leiti fyrir erfiðleikum konunnar. Konan settist svo rétt hjá mér - við hliðina á dóttur sinni, móður barnsins.
Samviskubit mitt jókst eftir að ég ákvað að hafa samúð með mæðgunum og ég skildi ekkert í því hvernig ég fór að því að segja nei við konuna og ég spurði sjálfan mig aftur og aftur hvernig ég gæti hafa látið klinkbyrgðir mínar ráða svarinu þegar í öðrum vasa hefði ég sand af seðlum.
Um 30 krónum seinna leið mér enn hræðilega þó svo að seðillinn hafi glatt mæðgurnar mikið - þær létu seðilinn í hönd barnsins.
  • Um þriðjungur Indverja lifir á minna en einum dollara á degi hverjum.

  • Betlarar eru að atvinnu betlarar og best er að reyna að styrkja hjálparstarf sem skapar atvinnu fyrir þá í stað þess ýta undir leit þeirra að óáreiðanlegum gjöfum.

  • Ég er mjög sáttur hérna úti og er óðum að jafna mig á magapínunni.

Wednesday, February 07, 2007

Halló

Er kominn til Bhuj og hef bætt inn myndum og a.m.k. einu myndbroti.

Bhuj tilheyrir stóru landsvæði sem heitir Kutch. Ég fór til dæmis í þjóðgarðinn Little Rann í Kutch fyrir nokkru síðan.
Jarðskjálftar hafa haft mikil áhrif á Kutch. Í jarðskjálfta árið 1819 breyttis farvegur Indus árinnar þannig að stór hluti Kutch varð að eyðimörk sem verður að drullusvaði á regntímabilinu. Í nýlegum jarðskjálfta árið 2001 týndu t.d. 10% íbúa Bhuj lífi og margar sögulegar byggingar urðu fyrir stórskemmdum.

Ég hef hitt ótrúlega færa ljósmyndara á síðustu tveimur dögum. Sá fyrri heldur bloggsíðuna
http://www.pohanginapete.blogspot.com/

en hinn (eða hin) heldur flickr síðu sem inniheldur t.d. þetta portrait set.
Það merkilega við þessa, Meenu Kandri frá Nýja Sjálandi, er að hún hefur aldrei notað neytt annað en stafrænar compact vélar - hún notar t.d. canon Ixus núna. Tólin skipta ekki öllu máli - takmarkanir á áhuga skipta sköpum líka eins og með flest annað. Aðstæður skipta einnig máli, en þær eru aldeilis góðar á Indlandi, virkilega frjótt myndefni fyrir gestina sem hafa glöggu augun.
Það var skemmtilegt að fylgjast með Meenu í gær ráðskast með indverska karlmenn, karlrembur og kvenfólk. Meena er mjög ákveðin.

Monday, February 05, 2007

Sasan Gir og tröppurnar

Í grennd við borgina Junagadh eru fimm hólar sem kenndir eru við Girnar. Frá toppi hæsta hólsins eru um 8000 tröppur úr steini sem Hindúar og Jainar (?) klífa í trúarlegum tilgangi. Á Vanir tröppumenn gera sér kanski grein fyrir því hvað felst í því að klífa 8000 tröppur. Til að gera sér betur grein fyrir þessum fjölda má ímynda sér að maður gangi upp heilar 80 tröppur en þá er maður búinn með 1% af ferðinni upp.
Þó að hóllinn sé ekkert sérstaklega hár, aðeins 954 metrar - en þó hæsti tindur í Gujarat, er álagið á fæturna fremur einhæfara heldur en við göngu upp á t.d. esjuna og merkingar um fjölda trappa sem maður hefur gengið minna mann reglulega á það hve mikið er eftir.
Hægt er að leigja menn við rætur hólsins til að bera mann upp og þá er greitt fyrir hvert kíló líkamsþyngdar. Ég sá nokkrar eldri konur og feitan businessmann sem var haldið á upp á hólinn.

Eftir Junagadh var förinni heitið í þjóðgarðinn Sasan Gir sem er eina heimili asísku ljónanna í öllum heiminum. Asíska ljónið á að hafa aðskilist því afríska fyrir um 100.000 árum samkvæmt einhverjum texta sem ég las fyrir skömmu. Það er þó ekki í samræmi við það sem náttúrulífsljósmyndarinn í Little Rann sagði mér; að ljónin hafi aðskilist þegar Indland rifnaði frá Afríku og skrapp norð-austur á meðan Afríka fór norður, fyrir nokkrum milljónum ára. Merkilegt, en óháð þessu, er að Indland er enn í hægfara árekstri við Asíu og ,,beiglan” er Himalayafjallgarðurinn sem rís um nokkra millimetra á ári hverju.
Asísku ljónin mátti finna víða í Asíu áður fyrr, t.d. Tyrklandi, Íran og Pakistan en síðasta ljónið sem til eru heimildir um fyrir utan Indland sást í Íran 1941. Þetta gefur til kynna að asíska ljónið kann að hafa farið landleiðin frá Afríku fyrir um 100.000 árum síðan.

Samkvæmt óáreiðanlegum ágiskunum voru einu sinni til 15 asísk ljón í öllum heiminum en það þýðir að asísk ljón í dag hafa tiltölulega lítið genamengi ( e. Gene pool) og einhverjar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvort ljónin standi höllum fæti gagnvart hættulegum sjúkdómum sökum þessa.

Í þjóðgarðinum eru rúmlega 300 ljón og rúmlega 300 hlébarðar. Í garðinum eru auk þess um 40.000 dádýr, örfáar híenur, antilópur og margar tegundir fugla.
Skömmu eftir komu mína til Sasan var mér boðið að læðast inn í garðinn ólöglega með leiðsögumanni. Leiðsögumaðurinn sem talaði við mig sagðist hafa stundað göngur inn í þjóðgarðinn í 13 ár án þess að verða ljónunum að bráð. Hann sagði að vísu að stundum kærðu ljónin sig ekki upp nærveru hans eða eltingarleiki (stundum eltir hann ljónin) og kæmu hlaupandi til hans til að hræða hann en að hann hafi alltaf náð að bregðast rétt við því.
Í skóginum búa þúsundir manna sem neita að yfirgefa skóginn þrátt fyrir hagsmunaárekstra þeirra við ljónin og hlébarðana ( nautgripir ættbálkanna verða kattardýrunum reglulega að bráð). Sökum þessa hafa kattardýrin vanist því að umgangast menn ólíkt afríska ljóninu. Íbúar skógarins eru vanir því að ,,sjá ljón á vegi sínum” nánast daglega en kippa sér lítið upp við það. Yfirvöld í Gujarat náðu að flytja margar fjölskyldur burt úr þjóðgarðinum fyrir nokkrum árum síðan en sumir neituðu að fara.

Þar sem ljónin eru of mörg fyrir þjóðgarðinn, fara þau út fyrir hann og stundum langar leiðir. Þær tvær nætur sem ég gisti hjá indverskri fjölskyldu fyrir utan þjóðgarðinn heyrði ég í ljónum skammt frá húsinu sem þykir ekki óeðlilegt.
Fyrir mig var ekkert vit í því að ganga inn í skóginn án þess að reyna löglegu leiðina. Löglega leiðin sem ég fór var ferð í jeppa með 4 túristum og leiðsögumanni. Einn túristinn var mjög áhugasamur Írani sem vinnur við verndun íranskra blettatígra í heimalandi sínu. Þrátt fyrir að hafa unnið í 5 ár að verkefninu hefur hann aldrei séð blettatígur.
Ferðin var gjörsamlega frábær og gekk framar vonum. Eftir aðeins 20 mínútna akstur fyrir birtingu sáum við 2 ljón og heyrðum í fleirum. Mökunartímabil ljóna stóð yfir á þessum tíma og eftirfarandi hreyfð mynd sínir neikvæð viðbrögð ljónynju við tilburðum karldýrsins.
Myndskeid
Í ferðinni sáum við hundruði dádýra og fjöldan allan af fuglategundum: græna páfagauka, 2-3 tegundir fálka, örn og fleiri tegundir sem ég kann ekki að nefna á nafn.
Í enda ferðarinnar vorum við svo heppin að sjá tvö ljón í viðbót sem við gátum nálgast fótgangandi og í þetta skipti í birtu. Ljónsungi og móðir þess lágu í makindum rétt fyrir utan vegg sem umkringdi varðstöð skógarvarða og því gátum við gengið innan veggja varðstöðvarinnar og tekið myndir af ljónunum. Okkur var þó sagt að hafa varann á því vitlaus ljónsunginn hafði sært 3 verði á síðastliðnu ári.
Þegar ég snéri aftur á gististaðinn hitti ég Svía sem hafði gengið í skóginn í 5 tíma um morguninn og auk þess farið kvöldið áður í myrkri með leiðsögumanni. Hann var ekki jafn heppinn og við jepplingarnir og það sama má segja um ferð Íranans þegar hann fór seinna um kvöldið. Þeir heirðu í ljónum og sáu kanski tvö glóandi augu í fjarska en fátt annað en það.

Daginn eftir fór ég í jóga með einni af indversku stúlkunum sem ég hitti í Junagadh og ungum Indverja sem við höfðum kynnst daginn áður.
Seinna um daginn skildi ég svo við indversku stelpurnar þrjár, indverska jógamanninn, Íranan og Svíann þegar ég lagði af stað í afslöppun og gott hótel á eyjunni Diu. Í Diu hef ég skrifað síðustu 3 innslög, skroppið á ströndina og notið þess að fara í heita sturtu á tandurhreynu hótelherbergi. Diu er fyrrum portúgölsk nýlenda og hér hef ég skoðað portúgalskar kirkjur og virki. Diu er eini staðurinn í Gujarat þar sem áfengi er leyft og því koma Indverjar úr næstu sveitum til að fá sér í glas.
Sjá fleiri myndir á myndasíðunni.

Saturday, February 03, 2007

Brúðkaup og framandi ferðalangar

Brúðkaup
Ég hef verið svo heppinn að ná að fylgjast með hluta úr tveimur brúðkaups-hátíðarhöldum hér í Indlandi. Það þarf kanski ekki mikla heppni til að verða vitni að hátíðarhöldum sem þessum því þau virðast stundum standa yfir í 3 daga áður en STÓRI dagurinn rennur upp.
Þau hátíðarhöld sem ég hef séð hafa einkennst af háværri tónlist ( spiluð af upptökum eða lifandi tónlist ) og æðisgengnum dansi úti á miðri götu.

Þær drunur sem hrista rúðurnar í hótelherbeginu mínu nú, þegar klukkan er farin að ganga eitt um nótt, tilheyra einhverskonar kvöldskemmtunum sem haldnar eru á undan brúðkaupi hér í bæ. Í gærkvöldi var spilað eitthvað fram á nótt en svo kom það mér á óvart að klukkan 8 næsta morgun var tónlistin sett í gang og háværir kínverjar sprengdir í eins og klukkustund, svona rétt til þess að vekja fólk í hverfinu. Þetta kom sér reyndar vel fyrir bleiknefja eins og mig sem þarf helst að nota morgnana í útiveru áður en sólin verður of sterk og áður en hitinn fer yfir 30 gráður. Svo virðist sem gestir brúðkaupsskemmtunarinnar noti morgna og kvöld í dansinn en mæti svo þess á milli í vinnu.
Fyrir um viku síðan gekk ég upp aðalgötu (Laugaveg!) Junagadh, um 170 þúsund manna bæjar í Gujarat, og rakst á hljómsveit og dansandi gesti brúðkaups. Ég og myndavélar mínar sýndu brúðkaupinu mikinn áhuga sem varð svo til þess að vekja áhuga sumra gesta á mér og mínu ljósa hári.
Myndskeið

Skömmu seinna var ég dansandi um miðjan dag úti á götu í Junagadh á meðan einn gestur brúðkaupsins tók myndir af mér með minni myndavél. Það er kanski gott dæmi um hamaganginn (í gestunum) að ég sést á hvorugum myndana sem gesturinn tók. Á endanum fannst mér eins og sumir gestanna hafi gert minna af því að dansa en meira af því að horfa á mig. Hvort áhugi þeirra hafi beinst að mér beinlínis eða því hvernig ég dansaði skal ósagt látið en eitt er víst að mér fannst verra að hafa áhrif á skemmtunina og að dansa fyrir framan hóp af fólki. Því lét ég mig hverfa.

Fjölþjóða ferðalangar
Ég hef áður talað um samferðamenn mína á blogginu. Á síðustu tveimur vikum hef ég kynnst áhugaverðu fólki, m.a. frá Íran og Ísrael og auk þess kynnst þremur frjálslyndum, indverskum stúlkum. Í morgun talaði ég lengi við amerískan gyðing, Daniel, sem er reyndar stærðfræðingur, um Ísrael og gyðinginn Sacha Baron Cohen sem er aðalleikarinn í Borat-vitleysunni.
Ég hef haft áhuga á því undanfarið að spjalla við Íranan og gyðingana um Ísrael. Í stuttu máli hef ég haft áhuga á því að fá skilning á því hvað varð til þess að hópur gyðinga lýstu einn daginn yfir sjálfstæði í núverandi Ísrael og hvaða forsendur þeir hafi haft fyrir því þá að hertaka með þessu landsvæði sem tilheyrði annari þjóð (þó í umsjá/eigu gyðinga). Það sem Daniel benti mér á er að það er eiginlega ekki hægt að segja neitt um hvort það hafi verið rétt eða rangt af þessum hópi gyðinga að hertaka landsvæðið. Ef til vill var það rétt fyrir þá en rangt fyrir aðra. Þetta heyrir í öllu falli sögunni til.

Ég vona að lesendur þoli innslög eins og þessi þar sem ég opinbera fávisku mína um hin og þessi málefni. Mér til varnar vil ég meina að ég læri mikið af því að tala/skrifa um hluti sem ég þekki ekki sérstaklega vel. Það hvetur mig til þess að leita mér frekari upplýsinga og fær hausinn á mér til að vinna á efninu öðruvísi heldur en sem móttakandi upplýsinga. Góður kennari reynir einmitt að fá nemendur sína til að vinna með efni í stað þess að reyna að berja efnið inn í hausinn á þeim.

Thursday, February 01, 2007

Little Rann of Kutch og ferðalög í indverskum almenningssamgöngum

Nýjar myndir komnar inn á flickr síðuna og nú má nálgast nýja videosíðu hér til hægri á síðunni [My videos].
Það er skemmtilegt að lesa eigin pirring í síðustu færslu, tölvu pirring. Það er margt í Indlandi sem getur farið í taugarnar á Vesturlandabúa eins og t.d. slappar tölvur, seinar lestir, börn sem biðja um peninga og ágengir sölumenn. Við ákveðið áreiti stendur einstaklingi, fræðilega séð, til boða að láta það fara í taugarnar á sér eða ekki. Aðlögun er besta leiðin til að takast á við það sem maður er ekki vanur en auðvitað er hverjum einstaklingi takmörk sett hvað þetta varðar. Ef markmiðið með heimsókn til einhvers lands er skemmtun að þá er kannski við hæfi að velja áfangastað sem krefst lítillar aðlögunnar.
Markmiðið með minni ferð er ekki fyrst og fremst skemmtun, enda ætla ég til Pakistan og þar verða tölvurnar sko ómögulegar (held ég) – tölvur sem ekki virka fara í taugarnar á mér. Í stað þess að láta tölvu koma sér í uppnám er þó oft hægt að standa upp og ganga frá henni ( tvíræðni hér ) í stað þess að sitja pirraður við hana í tvo tíma eins og ég gerði síðast.

Eftir Udaipur fór ég til Ahmedabad í Gujarat héraði. Héraðið er tvöfalt Ísland að stærð og þar búa um 50 milljónir manna. Ghandi fæddist í Gujarat og þar sem Ghandi dáðist að áfengisbanni Bandaríkjamanna á sínum tíma varð Gujarat að áfengislausu héraði með öllu og er í dag eina héraðið í Indlandi þar sem áfengi er ekki fyrir hvern sem er. Ferðamenn geta fengið áfengisleyfi en ég hef ekki enn sótt um.

Í Ahmedabad heimsótti ég 2 fínar moskur og fór svo í Ghandi Ashramið morguninn eftir. Það var gaman að sjá hversu gífurlega víðsínn Ghandi var um margt. Ég yfirgaf svo Ahmedabad með ríkis-strætóum en ferð í þeim er upplifun út af fyrir sig. Í Ahmedabad sá ég afar fáa erlenda ferðamenn. Í þeim þremur yfirfullu strætóum sem ég fór með til Lothal og strætóstöðvunum þeirra á milli var ég eini túristinn og það hefur reyndar oftast verið tilfellið á ferðum mínum hér í Gujarat. Oft hafði ég þó hóp af Indverjum í kringum mig sem kom til að skoða mig og hlusta á fábrotnar samræður mínar við þá sem þorðu að spyrja mig hvað ég héti eða þá fjölmörgu sem vildu hjálpa mér að komast á áfangastað.
Sjá myndbrot

Á ferðum mínum með almenningssamgöngum Gujarat héraðs hef ég verið algjör prímadonna og þegið margar gjafir frá samferðalöngum eins og snakkpoka, nokkra tebolla, hnetupoka, penna, sótthreynsiservíettu og miða sem stendur á að ég sé útlendingur og að ég kunni ekki Gujarati-tungumálið (nokkuð augljóst ekki satt?).

Frá 4400 ára gömlu minjunum í Lothal fór ég áfram veginn til þjóðgarðsins Little Rann of Kutch og gisti þar 3 nætur í kofa. Áhugasamur náttúrulífsljósmyndari rekur fyrirtæki ásamt syni sínum sem fer með túrista í jeppaferðir um þjóðgarðinn.
Í næstu kofum gistu tveir þjóðverjar og tveir hollendingar sem fóru með mér í jeppaferðir tvo daga í röð.
Fyrsta daginn sáum við vilta asna, antilópur og saltvinnslufólk sem vinnur í eyðimörk þjóðgarðsins. Þegar regntímabilið skellur á verður eyðimörkin að grunnu vatni og ættbálkarnir færa sig um set. Ófært er á jeppa í kofana sem við gistum í á meðan regntímabilið stendur yfir.
Annan daginn héldum við í átt að heimkynnum pelikana og flamingóa – einu af fáum svæðum í Indlandi þar sem flamingóar fjölga sér náttúrulega.
Með myndunum á flickr síðunni fylgja upplýsingar um salt-ættbálkana í Kutch.

Umhverfisgreinin mín er komin á heimasíðu vistverndar.