Wednesday, July 16, 2008

Síbería

Ég er staddur í Tomsk í Síberíu. Ég yfirgaf Mongólíu með litlum fyrirvara þann 7. júlí síðastliðinn og hóf þá fyrir alvöru hina miklu lestarferð til Moskvu með 36 klukkustunda ferð til Irkutsk. Krasnoyarsk var næsti viðkomustaður, nú Tomsk og næst er það Yekaterinborg. Vegabréfsáritunin mín gildir til 30. júlí svo ég get ekki stoppað lengi í þessum stöðum.

Ýmislegt hefur á daga mína drifið síðan ég færði mig yfir landamærin og ég á satt að segja í vandræðum með að velja hverju á að segja frá. Á ég að segja frá

-Sex daga ferðalaginu í Mongólíu með bandarísku bræðrunum eða
-Ferðinni í villi-hestaþjóðgarðinn þar sem ég hljóp upp á hól og rakst á tvo villihesta eða kannski
-Pólitíkinni sem ríkti á milli rússnesku stúlknanna sem unnu a gistiheimilinu á Olkhon eyju í Baikal vatni og börðust um hilli ferðalanga, jaa eða
-Rússneska námuverkfræðingnum sem ég deildi klefa með frá Mongólíu til Irkutsk og þáði af soðnar kartöflur og ótæpilegt magn af afskaplega 'hreinum' vodka
-Hvernig er að deila litlu rými (og mat) með slatta af rússum á þriðja farrými í yfir 30 stiga hita þar sem ekki er hægt að opna glugga, kannski ég segi frá því
-Hvernig var að baða sig berrassaður í 8 stiga heitu Baikal vatni með dönsku strákunum fyrir framan áhorfendur eða
-Hve afskaplega efnislítil föt rússneskra kvenna eru og náttúrulegum líkamsvexti (í samanburði við fyrri lönd) eða
-Frá hinum frábæra Boris sem reykti sígarettu fyrir hvern genginn kílómetra í fallegum þjóðgarði í Krasnoyarsk sem hann leiddi okkur í gegnum og þaðan á veitingahús með vinafólki sínu og konu
?

Það er alveg ljóst að ferðalag er ekki það sama og texti á blaði eða vefsíðu, jafnvel þó að myndir fylgji með. Eitthvað hefur verið lítið um skrif á þessari síðu undanfarið, aðalega sökum ferðalags míns til hinnar afskektu Olkhon eyju þar sem gervihnattasambandið var allt að því ónothæft
'spútník, njed'
Í öllu falli getur hver sem er spurt mig út í ofangreind atriði þegar ég kem heim 'rétt eftir' mánaðarmótin.

Eins hefur nánast stanslaus félagsskapur minn við aðra ferðafélaga síðan í enda júní orðið til þess að ég hafi minni nettíma. Það er t.d. ástæðan fyrir því að ég þarf að skrifa þennan texta með hraði til að fara og hitta hinn ástralska ferðafélaga minn 'Wez' og hinn rússneska Constantin sem við hittum í lestinni í nótt. Hann ætlar auk þess að finna túlk hér í Tomsk og vini til að hitta okkur í dag og í kvöld.