Til að fylgja eftir grein minni sem birtist í morgunblaðinu 7. janúar (bls. 46) hendi ég henni hér inn í miðja Indlandssöguna.Laugardaginn 25. nóvember fór ég seint á fætur og uppgötvaði að kaupum ekkert dagurinn væri genginn í garð. Þennan dag ætlaði ég að halda hátíðlegan enda kærkomið fyrir Vesturlandabúa að spá aðeins í neysluvenjur sínar. Fimmtungur mannkyns notar meira en 70% af hráefnisframleiðslu heimsins. Um 2% mannkyns á meira en helming af auðæfum mannkyns.
Kaupum ekkert dagurinn fór fyrir lítið hjá mér þegar ég í óðagoti fór á McDonalds og keypti mér hamborgara án þess að muna neitt eftir þeim gildum sem ég hafði ætlað að hafa í hávegum þann dag. Í kaupbæti fékk ég í grömmum og kílóum talið töluvert meira af plastrusli og pappír en sem nam þyngd hamborgarans; umbúðir utan af hamborgaranum, frönskunum, vatnsglasinu, tómatsósunni, að ógleymdum pokanum sem herlegheitin voru öll sett í. Vonandi fer þetta rusl betur í meltingarvegi jarðarinnar en hamborgarinn fór í mínum því að þessar fyrirferðarmiklu umbúðir eru urðaðar víðsvegar um hnöttinn okkar.
Hjá McDonalds hefur tíðkast að bjóða sérstök matartilboð fyrir börn. Plastfígúra, á að giska hálf mjólkurferna að stærð, fylgir hverju tilboði sem hvert barn fær á hvaða degi sem er og ef til vill á hvaða veitingastað McDonalds sem er í nágrannalöndum okkar og víðar, t.d. Bretlandi og í Bandaríkjunum. Með því að þrýsta á takka á fígúrunni má framkalla hljóð. Fígúrurnar spila mismunandi hljóð og fást í mismunandi litum svo að börnum leiðist ekki að fá nýja fígúru í safnið heldur þiggja hana með bros á vör.
Við nána skoðun má sjá merkingu aftan á plastfígúrunni, mynd af ruslatunnu með skástriki yfir enda er plastfígúran raftæki. Hún inniheldur rafhlöðu til þess að geta spilað hljóðið áðurnefnda. Þar af leiðandi er bannað að henda plastfígúrunni í ruslið, hættuleg efni í rafhlöðunni mega ekki sleppa út í umhverfið.
Ætli þessi fjöldaframleiddu raftæki endi á réttum stað hjá Sorpu? Ætli fólk muni hafa fyrir því að taka rafhlöðuna úr plastfígúrunni (ef það er hægt á auðveldan hátt) þegar henni á endanum er hent eins og hinu ruslinu sem fylgir með máltið frá McDonalds?
Framleiðslu á flestum gerðum plasts fylgir oft mikið magn mengandi efna. Er virkilega þörf á því að búa til raftæki í hvert skipti sem barn fær sér að borða?
Plastiðnaðurinn, líkt og áliðnaðurinn, er iðnaður sem leggst ekki af þó að verksmiðjum á einum stað sé lokað. Eftirspurnin mun ávallt tryggja að framleiðsla heldur áfram. Íslendingar kaupa ál, plast, þungmálma, rafhlöður, skordýraeitur og svo mætti lengi telja. Líkt og aðrar ríkar þjóðir höfum við oft enga hugmynd um hvaða umhverfisáhrif fylgja framleiðslu tiltekinnar vöru sem við kaupum.
Við getum ekki ætlast til þess að við fáum allar vörur á silfurfati til Íslands á meðan mengandi framleiðsla þeirra fer fram annars staðar. Á tímum hlýnandi loftslags verðum við að sýna ábyrgð í verki og hugsa um hvaða áhrif það hefur á umhverfið að kaupa vörur af ýmsu tagi og ekki bara okkar nánasta umhverfi, sbr. stóriðjuumræðuna. Það skiptir máli hvort keypt er flaska af rauðvíni frá Frakklandi eða Ástralíu sem flutt hefur verið mislangar vegalendir, hvort við skreppum austur fyrir fjall í bíltúr eða í göngutúr í næsta nágrenni eða hvort við keppumst stöðugt við að endurnýja jarðneskar eigur okkar.
Með aukinni hagsæld hefur kaupmáttur okkar vaxið en ábyrgðartilfinningin gagnvart aukaafurðum vörunnar ekki aukist samstíga. Með auknum kaupmætti ættum við ekki að öðlast rétt til að menga margfalt á við fátæka manninn né heldur að nota margfalt á við hann af hráefnum úr endanlegum hráefnisauðlindum heimsins eða hvað finnst þér lesandi góður?
Vesturlandabúar þurfa líka að sýna þjóðum eins og Kína fordæmi, því að þegar rúmur milljarður manna í viðbót fer að nálgast neyslumynstur okkar, hljótum við að hafa áhyggjur af jörðinni sem afkomendur okkar og annarra munu þurfa að lifa á. Eftirspurninni, sem þú veldur með kaupum á vöru, fylgir áframhaldandi framleiðsla og möguleg mengun annars staðar.
Ég bið lesendur að íhuga hvernig slæmur ávani getur haft í för með sér neikvæð langtíma áhrif á umhverfið.