Thursday, February 01, 2007

Little Rann of Kutch og ferðalög í indverskum almenningssamgöngum

Nýjar myndir komnar inn á flickr síðuna og nú má nálgast nýja videosíðu hér til hægri á síðunni [My videos].
Það er skemmtilegt að lesa eigin pirring í síðustu færslu, tölvu pirring. Það er margt í Indlandi sem getur farið í taugarnar á Vesturlandabúa eins og t.d. slappar tölvur, seinar lestir, börn sem biðja um peninga og ágengir sölumenn. Við ákveðið áreiti stendur einstaklingi, fræðilega séð, til boða að láta það fara í taugarnar á sér eða ekki. Aðlögun er besta leiðin til að takast á við það sem maður er ekki vanur en auðvitað er hverjum einstaklingi takmörk sett hvað þetta varðar. Ef markmiðið með heimsókn til einhvers lands er skemmtun að þá er kannski við hæfi að velja áfangastað sem krefst lítillar aðlögunnar.
Markmiðið með minni ferð er ekki fyrst og fremst skemmtun, enda ætla ég til Pakistan og þar verða tölvurnar sko ómögulegar (held ég) – tölvur sem ekki virka fara í taugarnar á mér. Í stað þess að láta tölvu koma sér í uppnám er þó oft hægt að standa upp og ganga frá henni ( tvíræðni hér ) í stað þess að sitja pirraður við hana í tvo tíma eins og ég gerði síðast.

Eftir Udaipur fór ég til Ahmedabad í Gujarat héraði. Héraðið er tvöfalt Ísland að stærð og þar búa um 50 milljónir manna. Ghandi fæddist í Gujarat og þar sem Ghandi dáðist að áfengisbanni Bandaríkjamanna á sínum tíma varð Gujarat að áfengislausu héraði með öllu og er í dag eina héraðið í Indlandi þar sem áfengi er ekki fyrir hvern sem er. Ferðamenn geta fengið áfengisleyfi en ég hef ekki enn sótt um.

Í Ahmedabad heimsótti ég 2 fínar moskur og fór svo í Ghandi Ashramið morguninn eftir. Það var gaman að sjá hversu gífurlega víðsínn Ghandi var um margt. Ég yfirgaf svo Ahmedabad með ríkis-strætóum en ferð í þeim er upplifun út af fyrir sig. Í Ahmedabad sá ég afar fáa erlenda ferðamenn. Í þeim þremur yfirfullu strætóum sem ég fór með til Lothal og strætóstöðvunum þeirra á milli var ég eini túristinn og það hefur reyndar oftast verið tilfellið á ferðum mínum hér í Gujarat. Oft hafði ég þó hóp af Indverjum í kringum mig sem kom til að skoða mig og hlusta á fábrotnar samræður mínar við þá sem þorðu að spyrja mig hvað ég héti eða þá fjölmörgu sem vildu hjálpa mér að komast á áfangastað.
Sjá myndbrot

Á ferðum mínum með almenningssamgöngum Gujarat héraðs hef ég verið algjör prímadonna og þegið margar gjafir frá samferðalöngum eins og snakkpoka, nokkra tebolla, hnetupoka, penna, sótthreynsiservíettu og miða sem stendur á að ég sé útlendingur og að ég kunni ekki Gujarati-tungumálið (nokkuð augljóst ekki satt?).

Frá 4400 ára gömlu minjunum í Lothal fór ég áfram veginn til þjóðgarðsins Little Rann of Kutch og gisti þar 3 nætur í kofa. Áhugasamur náttúrulífsljósmyndari rekur fyrirtæki ásamt syni sínum sem fer með túrista í jeppaferðir um þjóðgarðinn.
Í næstu kofum gistu tveir þjóðverjar og tveir hollendingar sem fóru með mér í jeppaferðir tvo daga í röð.
Fyrsta daginn sáum við vilta asna, antilópur og saltvinnslufólk sem vinnur í eyðimörk þjóðgarðsins. Þegar regntímabilið skellur á verður eyðimörkin að grunnu vatni og ættbálkarnir færa sig um set. Ófært er á jeppa í kofana sem við gistum í á meðan regntímabilið stendur yfir.
Annan daginn héldum við í átt að heimkynnum pelikana og flamingóa – einu af fáum svæðum í Indlandi þar sem flamingóar fjölga sér náttúrulega.
Með myndunum á flickr síðunni fylgja upplýsingar um salt-ættbálkana í Kutch.

Umhverfisgreinin mín er komin á heimasíðu vistverndar.

1 comment:

Anonymous said...

Jahérna hér þetta er nú meira!