Saturday, February 10, 2007

Jarðskjálftar, menningarsjokk og annað hræðilegt

Ég sit á svölum hótelsins míns í Bhuj og fylgist með örsmáum fuglum og gífurlega stórum flugum sem flögra rétt fyrir framan mig. Frá svölum hótelsins sé ég í tvær hallir bæjarins. Önnur þeirra er í aðeins 10 metra fjarlægð og er brotin og brömluð eins og hallarmúrinn sem umlykur hallirnar; stórt gat í múrnum gerir mér kleift að sjá til þeirra.
Fyrir tveimur dögum síðan skoðaði ég þorp
í grennd við Bhuj, Anjar, sem varð einna verst úti í jarðskjálftanum 2001 á sjálfstæðisdegi Indverja, 26. janúar. Í íbúðarhverfum þorpsins (sem er að minnsta kosti bær á íslenskum mælikvarða) mátti enn sjá auð svæði og grjóthrúgur í miðju íbúðarhverfi og víða skemmd hús, nú 6 árum seinna. Í bænum kynnstist ég ungum úrviðgerðarmanni, Varesh, sem gerði hlé á vinnu sinni til að skutla mér á vespu sinni á áhugaverðari staði bæjarins. Að skilnaðargjöf færði hann mér Kutch-skyrtu, þrátt fyrir mótbárur mínar.
Varesh fór með mig á stað þar sem frændi hans lét lífið, aðeins barn að aldri, ásamt nokkrum öðrum börnum í jarðskjálftanum. Á staðnum voru eingöngu ný hús.
Við heimsóttum líka tvö hverfi sem reist voru til bráðabirgða sem eru þó enn í notkun þrátt fyrir að vera lítið annað en bárujárnsklæðning á timburgrind. Ekki myndi ég vilja gista kalda vetrarnótt þar.

Eftir mánuð án meltingarvandræða fór ég að verða full fífldjarfur. Þegar ég átti erfitt með að finna veitingastað í Anjar, sætti ég mig við fyrstu skítabúlluna sem ég fann; tómur kofi með svörtu eldhúsi. Ég bjóst ekki við matseðli svo ég bað um einhverskonar grænmetisrétt en var bent á að kjúklingaréttur væri kannski bara „bestur fyrir mig". Þegar ég var við að spíta út úr mér beinum úr einum mögrum kjúklingabitanum bentu Indverjarnir, sem sátu í kringum mig og tóku af mér myndir meðan ég borðaði, á að tvær mýs væru að læðupúkast í eldhúsinu.
Merkilegt nokk, þá brást meltingarkerfið ekki svo illa við þessum málsverði. Það gerði það hins vegar þegar ég fékk mér kranavatn á fínum veitingastað í gær og því húki ég á hótelinu í dag.
Ferðamönnum er ráðlagt að drekka aldrei kranavatn hér eða í öðrum nálægum löndum, en ég hafði reyndar spurt þjóninn hvort vatnið hefði verið hreynsað - sem er leiðandi spurning, þær ber að varast.
Svarta eldhúsið
„Menningarsjokk"
Eftir um 6 vikur í Indlandi hef ég náð að upplifa magapínu og menningarsjokk (M&M) sem teljast líklegast báðar vera klassískar upplifanir fyrir ferðamann hér.
Áður en ég fékk menningarsjokkið hugsaði ég stundum afhverju ég hefði svo litla samúð með betlurunum eða öðrum bágstöddum sem urðu á vegi mínum. Mér fannst stundum eins og ég væri frekar kaldlindur. Einu sinni gerði ég tilraun og gaf 15 betlurum fyrir utan hof í Udaipur klink en fann ekki fyrir neitt mikið bættari samvisku. En einn daginn, þegar ég var ekki á hraðskreiðri göngu fram hjá hinum bágstöddu, varð ég fyrir einhverskonar sjokki.
Ég sat og beið eftir rútu á eyjunni Diu þegar gömul hrörleg kona með veikburða smábarn kom til mín og bað mig um aur. Ég átti ekkert klink í vasanum því ég hafði gefið betlurum það fyrr um daginn til að losna við þá og klinkþungan vasa í löngu rútuferðalagi - og jú, stundum er gott að gefa og þá sérstaklega konum með börn.
Mér fannst leiðinlegt að geta ekkert gefið henni og þar sem ég hafði tíma sagði ég við gömlu konuna að mér þætti leiðinlegt að eiga ekkert klink ( þrátt fyrir að eiga nóg af verðlausum seðlum í vasanum) og að hún ætti samúð mína, svo snerti ég skítugt smábarnið þessu til undirstrikunar og ég meinti það sem ég sagði.
Samúð mín var auðtivað verðlaus fyrir konuna en hefði þó í för með sér að ég fann að einhverju leiti fyrir erfiðleikum konunnar. Konan settist svo rétt hjá mér - við hliðina á dóttur sinni, móður barnsins.
Samviskubit mitt jókst eftir að ég ákvað að hafa samúð með mæðgunum og ég skildi ekkert í því hvernig ég fór að því að segja nei við konuna og ég spurði sjálfan mig aftur og aftur hvernig ég gæti hafa látið klinkbyrgðir mínar ráða svarinu þegar í öðrum vasa hefði ég sand af seðlum.
Um 30 krónum seinna leið mér enn hræðilega þó svo að seðillinn hafi glatt mæðgurnar mikið - þær létu seðilinn í hönd barnsins.
  • Um þriðjungur Indverja lifir á minna en einum dollara á degi hverjum.

  • Betlarar eru að atvinnu betlarar og best er að reyna að styrkja hjálparstarf sem skapar atvinnu fyrir þá í stað þess ýta undir leit þeirra að óáreiðanlegum gjöfum.

  • Ég er mjög sáttur hérna úti og er óðum að jafna mig á magapínunni.

7 comments:

Anonymous said...

Heill sértu Gunnar Geir. Skrítin tilfinning að hugsa til þín þarna úti í hitanum og mannhafinu því sama dag stóð ég inná víðáttum Langjökuls í 14 stiga frosti með nákvæmlega ekkert í kringum mig annað en hina endalausu snjóbreiðu jökulsins. Viltu skifta ? Stórskemmtileg ferðasaga hjá þér. Lifandi og persónuleg. Gangi þér allt í haginn Gunnar minn. Kveðja frá öllum á L51. Hjörtur.

Gunnar Geir said...

Ég fann ferskan íslenskan andvara blása upp í nefið á mér við að lesa þetta og var í hita augnabliksins til í að skipta, hvernig svo sem það færi fram.
Ég þarf virkilega að drattast upp á einn jökulinn einn daginn því ég á það enn ógert!

Bestu kveðjur til allra í L51
Gunnar

Anonymous said...

Loksins loksins læt ég verða af því að "commenta". Hef verið að lesa bloggið þitt og finnst frábært að fá að fylgjast með þér í reisunni.
Æjji, svo fékk frændi litli magavkveisu :( En þá er það bara búið spil og endurtekur sig vonandi ekki !!! Hafðu það sem best Gunni minn og farðu varlega.
Kveðja
Hrund.

Anonymous said...

Sæll Gunni minn
Héðan er allt fínt að frétta, Einar á erfitt með að skoða bloggið þitt vegna öfundar held ég:)
Ég sé að þú hefur það gott, frábærar myndir og skemmtileg skrif.
Takk
Sunna

Gunnar Geir said...

Sæl Hrunsla mín!

Litli frændinn fékk í magann er heldur betur kominn á ról núna. Ég veit það núna að maginn minn er ekki gerður úr stáli svo ég fer varlega.
Gott að vita af þér Hrunsla.


Sunna og Einar
Gaman að heyra af ykkur.
Ég hef það gott já - er stór ánægður.
Einar verður það líka þegar hann fer í sína yfirvofandi reisu einn daginn.

Gott að þið hafið flest gaman af að lesa :D

Bestu kveðjur
Gunnar Geir

Anonymous said...

Sæll og vonandi ertu búinn að ná þér eftir indverska vatnið sem er hreint ekkert grín.Fróðleikur birtist í Mogganum um daginn um indverska vatnið (skolpið) í Ganges.Þar kom m.a. fram að það er meira en 4000 sinnum mengaðra en eitthvert nánar tiltekið hármark gerir ráð fyrir.Þá hefur verið reiknað út einn maður geispi golunni á mínútu vegna vatnsins heilaga og margblessaða að manni skilst. En betur má ef duga skal!!
Þú er reynslunni ríkari og passar þig á vatninu!
kveðja
gm

Gunnar Geir said...

Sæll Guðjón, gaman að heyra af Ganges fréttinni.

Ég hugsa að ég muni nota sólgleraugu á meðan ég horfi á Ganges í fjarlægð til öryggis.

Pestin tók bara einn og hálfan sólarhring og nú er ég reynslunni ríkari. Ég man ekki hvort ég minntist á það en ég hafði prófað einn sopa af sama veitingastað 2 dögum áður og virtist þola það. Það sem skiptir líklegast máli er hvaða gerlaflóra hefur yfirhöndina í meltingunni, svo magnið af innbyrðgri indverskri gerlaflóru skiptir máli.

Ganges áin er auðvitað allt annað mál. Ég fer nálægt henni á bakaleið minni frá Pakistan.

bestu kveðjur
Gunnar