Tuesday, April 24, 2007

Frábærir dagar í stríðshrjáðu landi

Eins og hefur komið fram áður eru Nepalar að reyna að losa sig við konunginn. Í dag var haldið upp á það að eitt ár er liðið frá því að konungurinn kom fram í sjónvarpi landsmanna og tilkynnti að hann muni láta af stjórn landsins. Um daginn heyrði ég nokkrar ljótar sögur af honum sem ég hafði ekki lesið mér til um á netinu þegar ég skrifaði um Nepal í desember. Í desember minntist ég á að árið 2001 hafi þáverandi erfingi krúnunnar, Dipendra, drepið foreldra sína, konunginn og drottninguna, en síðan framið sjálfsmorð. Þetta er það sem opinberir aðilar gáfu til kynna þá en í dag komst ég að því að meirihluti Nepala trúir því að Dipendra hafi verið fundinn með skotsár í bakinu og hafi því verið drepinn ásamt foreldrum sínum. Margir trúa því að núverandi konungur, Gyanendra, næsti erfingi á eftir bróðursyni sínum Dipendra, hafi komið þessu öllu í kring.
Fleiri ljótar sögur heyrði ég af konunginum Gyanendra.
Konungsfjölskyldan hefur þangað til í júní 2006 verið yfir lögin höfð, þ.e. ekki er hægt að ákæra meðlimi hennar fyrir lögbrot. Gyanendra lagði niður ríkisstjórn landsins í febrúar 2001 í því yfirskyni að geta sjálfur séð um baráttuna við uppreisnarmennina, Maóistana. Í framhaldinu valdi hann sjálfur 3 forsætisráðherra en rak þá hvern af öðrum en einnig hafði hann slæm áhrif á fjölmiðlafrelsi í landinu - Nepal átti t.d. heimsmet a.m.k. þrjú ár í röð í því hve margir fjölmiðlamenn hurfu eða voru handteknir.
Nepölum lýst líklegast ekki vel á að krónprinsinn taki við krúnunni af Gyanendra þar sem hann virðist vera afar drykkfeldur maður og hefur samkvæmt fjölmiðlum drepið a.m.k. 6 menn í ofsafengnum ökuferðum sínum. Hver veit hve mörgum hann hefur mútað til að leka ekki fleiri slysum í fjölmiðla.
Í dag er Gyanandra algjörlega valdlaus en reynir með miklum auð sínum að finna leiðir til að grafa undan núverandi stjórn landsins sem síðan 14. janúar 2007 er skipuð maóistum að einum fjórða hluta á þingi. Frá því 1. apríl á þessu ári hafa Maóistar einnig tekið við fáeinum ráðuneytum landsins og hafa ráðherra yfir þeim úr sínum röðum.

Maóistarnir og borgarstríðið í Nepal er auðvitað sér kapítuli. Eins og aðrir Maóistar, t.d. vopnuðu maóistarnir í austur Indlandi , virðast þeir nepölsku eiga rætur sínar í langvarandi vanrækslu yfirvalda á þeim fátæku. Ég ætla ekki að skrifa um borgarstríðið í Nepal en þess í stað að skrifa um stöðuna í Nepal eins og hún birtist mér í gegnum fjölmiðla og samtöl við Nepala.

Vopnahlé tók gildi í Nepal milli stríðandi fylkinga í maí á síðasta ári og í framhaldi af því samþykktu Maóistarnir og forsætisráðherra Nepala að sitja saman á þingi og vinna saman að því að koma konungi Nepal frá völdum. Vopnabúr Maóista hefur verið afhent yfirvöldum smám saman með milligöngu sameinuðu þjóðanna. Enn í dag eru þó um 20 varðstöðvar maóískra hermanna í landinu sem verða ekki lagðar niður fyrr en meðlimir Maóistaflokksins treysta öðrum embættismönnum til þess að sparka þeim ekki út af þingi.

Það er ekki hlaupið að því að leggja niður heilan her manna og barna sem hafa barist við lögreglu og her Nepala í nokkur ár, þ.e. þá sem ekki tilheyra varðstöðvunum. Sumir hverjir geta ef til vill farið aftur til síns heima og hafið störf að einhverju tagi en nú á síðustu vikum berast enn fregnir af vopnuðum Maóistum sem skattleggja bændur og eiga í vopnuðum átökum við þorpsbúa. Það kann að vera erfitt fyrir suma að fara aftur heim þegar þeir hafa ef til vill skattlagt sín eigin þorp óhóflega og gert búnað eins og farartæki upptæk. Ég las frétt í blaði um daginn sem sagði frá Nepala sem hafði misst jeppa sinn í hendur Maóista fyrir tveimur árum síðan. Bróðir fórnalambsins fann svo jeppann fyrir tilviljun fyrir utan hótel í Kathmandu og þá kom í ljós að hátt settur pólitíkus í Maóista flokknum hafði notað hann sem einkabíl.

Lögreglan virðist fara varlega í að handtaka Maóista sem eru til vandræða eins og þá sem skattleggja bændur en gerir þó enn rassíur í að leita t.d. að vopnum í höfuðstöðvum Maóista. Auðvitað vill engin vopnuð átök við Maóistana aftur. Maóistar hafa enn völdin í afskekktum dölum Nepal en hægt og bítandi taka sveitir lögreglunnar við. Stundum virðist þó gæta misskilnings um hver hefur völdin, t.d. fóru lögreglusveitir um daginn þrjár fýluferðir í afskekktan dal til að taka við völdum af Maóistum. Ungar Maóistasveitir taka sjálfsagt við skipunum frá stjórnmálaleiðtogum Maóista en sveitir lögreglu taka (óbeint) við skipunum frá öðrum stjórnmálamönnum sem tilheyra kanski ekki sama flokki.
Skoðanir Nepala á Maóistum, sem voru harðlega gagnrýndir af sameinuðuþjóðunum fyrir að nota barnunga hermenn í borgarstríðinu, virðast jafn skiptar og skoðanir Íslendinga á Sjálfstæðismönnum.

Túristi tekur venjulega aðeins eftir vandamálum Nepala hvað varðar fátækt. Síðustu daga hef ég t.d. búið á aðal túristasvæði Nepal í Kathmandu og þar hef ég allt sem ég þarf - þó ég geri auðvitað ferðir út úr þessari 'einangrun'. Það eina sem ég hef séð óvenjulegt var þegar ákafur maður stökk inn í rútuna sem ég var farþegi í til að tilkynna nepölskum farþegum og bílstjóra að næsta dag yrði verkfall og mótmæli á aðalgötu Kathmandu. Mótmælin sá ég ekki og heyrði heldur ekki af þeim. Fámenn mótmæli virðast nokkuð algeng, þau geta ýmist verið skipulögð af Maóistum eða andstæðingum þeirra. Margir eiga auðvitað um sárt að binda eftir borgarstyrjöld og undanfarna daga hefur félag fórnarlamba Maóista (Maoist Victims Association) staðið fyrir mótmælum og um 200 manns úr sveitum Nepal hafa tjaldað fyrir utan borgina í þessum tilgangi.

Raftingferð í Bhote Kosi

Ég fór í frábæra tveggja daga rafting ferð niður Bhote Kosi fyrir skömmu. Nokkuð lítið vatn var í ánni báða dagana sem skapaði æðisleg vandræði á leiðinni niður. Nánast ómögulegt er að velta rafting bátunum en eina hættan er kanski sú að róðrarmenn eða konur hendist útbyrðis ef menn halda sér ekki vel í bátinn í stærstu flúðunum. Enginn féll útbyrðis á dögunum tveimur fyrir utan 3-4 árar en þeim var öllum bjargað af Kajakmönnunum sem fylgdu okkur hvert 'ármál'. Sumir voru þó nálægt því að detta útbyrðis.

Ég átti nokkrar einstakar upplifanir á ánni. Hver ræktanlegur fermetri er notaður í Nepal og því voru bröttu brekkurnar umhverfis ánna þakin hrísgrjónaþrepum. Börn bænda kölluðu oft til okkar og veifuðu og skemmtilegt var að sjá bændur í innsveitum Nepal vinna á ökrunum og einnig börn og fullorðna sem veiddu fisk í ánni með geysilöngum bambusveiðistöngum. Við sigldum í gegnum þorp sem umkringdu brýr yfir ánna og þar þurfti maður að hafa sig allan við að veifa börnum á brúnni, í húsunum eða á svölum blokka sem virkuðu á mann eins og stúkur áhorfenda. Dalurinn sem áin hefur sorfið var afar fallegur.

Skemmtileg vandamál sem tengdust litlu vatnsmagn árinnar einkenndust af því að stór grjót stóðu upp úr flúðunum. Leiðsögumenn okkar náðu þó yfirleitt að stýra okkur fram hjá þeim og á tveimur stöðum létu þeir okkur ganga fram hjá flúðunum.
Á einum stað skorðaðist báturinn ofan á steini þannig að áin tók að streyma yfir hann. Það var nokkuð kalt en það tók ekki langan tíma að losa hann.
Í eitt skipti fór einn báturinn upp á grjót í miðri ánni og var pikk-fastur. Stuttu seinna kom annar bátur sem tilheyrði sömu ferð og keyrði yfir þann fyrrnefnda en auk þess flæddi vatn yfir hann svo hann varð sjálfsagt mörg tonn að þyngd (fyrir utan kraftinn frá straumnum sem hélt honum föstum). Á endanum þurfti að koma fólkinu yfir á næsta bakka en sumir áttu erfitt með að stíga ofan í straumharða ánna þó að margar hendur leiðsögumanna og þorpsbúa héldu þeim stöðugum. Eftir nokkurn tíma unnu fjórir leiðsögumenn það þrekverki að velta seinni bátnum og fengu að launum lófaklapp þorpsbúa og okkur hinna.


Framhaldið
Ég er á leiðinni í 8 eða mögulega 13 daga fjallgöngu hér fyrir norðan Kathmandu í Langtang (ísl. Langitangi, takk Guðrún). Ég mun þramma upp í yfir 5100 metra hæð ef allt gengur að óskum og vonandi geng ég stoltur hluta af leiðinni í sokkum merktum með íslenska fánanum. Ekki verður úr Tíbetsku ferðinni en þegar ég kom til Kathmandu var ég orðinn svo rútuþreyttur að ég gat ekki hugsað mér dýra níu daga ferð til Lhasa og svo að þurfa að koma mér aftur til baka.
Hluti göngunnar minnar verður víst á svæði í um 4 km fjarlægð frá Kína/Típet sem telst vera nokkuð típetskt. Þeir Típetar sem flýja heimaland sitt þurfa einmitt að fara um skörð sem geta hæst verið um 5000-6000 metrar.

Ég á bókað flug til Íslands þann 10. maí, ég hlakka mikið til að hitta fólkið mitt heima. Ég mun skrifa meira á þessa síðu um ferðina þó að eðlilega muni lítið gerast hér eða á myndasíðunni á næstu átta dögum a.m.k .

Fólk á förnum vegi
Ég hef hitt skemmtilegt fólk á ferðum mínum undanfarið eins og endranær.

Í Rishikesh gisti ég á farfuglaheimili sem hét Moma's Guest House. Heimilinu var stjórnað af indverskri mömmu sem kallaði alla gesti 'sonur' eða 'dóttir' eftir atvikum. Fólk sem kom til hennar í leit að gistingu kallaði hún þessum nöfnum líka, umsvifalaust - hvort sem hún átti herbergi eða ekki. Á kvöldin eldaði hún alltaf frábæran 'eins og þú getur í þig látið'-Thali sem þó var ekki alltaf eins því Thali er margrétta indversk máltíð.

Í Varanasi átti ég frábærar stundir á kvöldin niður við Ganges í taflmennsku. Hópur áhugasamra taflmanna söfnuðust alltaf saman á sama stað upp úr klukkan 5 eftir vinnu og tefldu langt fram á kvöld.

Í Kathmandu kynntist ég frábærum ísraelskum, samkynhneigðum búddista. Samkynhneigðir fá ekki mikinn skilning í gamla testamentinu og mögulega þess vegna hefur vinur minn, Shahaf, leitað í Búddisma. Shahaf varð vitni að því þegar brjálæðingur réðst á gay-pride göngu samkynhneigðra í Jerúsalem vopnaður hnífi fyrir fáeinum árum síðan.
Shahaf var duglegur að fræða mig um búddista hofin sem við heimsóttum hérna í Kathmandu dalnum. Á einum tímapunkti var ég, þökk sé honum, staddur í herbergi mikilsvirts Búdda prests. Það var svolítið undarlegt að vera ekki búddista trúar og fylgjast með öðrum búddistum, sem báru greinilega mikla virðingu fyrir honum, spjalla við hann. Eins og hefð er fyrir gekk ég til hans með silkiklút og lagði um hálsinn á honum og buktaði mig.
Shahaf gefur tíbetsku menningarfélagi vinnu sína í Dharamsala. Í dag flaug hann þangað aftur og heldur þar áfram að hanna heimasíðu fyrir mikilvægt bókasafn Tíbeta.
Shahaf kom mér á óvart þegar hann sagði mér að 70-80% Ísraela væru ekki sérstaklega trúaðir.

Þjóðverja kynntist ég í raftingferðinni. Hann var skemmtilegur kauði en alveg sérstaklega týpískur Þjóðverji því hann á stóran BMW, elskar pulsur og bjór og talar með æðislegum þýskum hreim.

6 comments:

Anonymous said...

Við hlökkum til að sjá þig! kv Mikael og ingibjörg G

Anonymous said...

Eigðu góða göngu.

Hlökkum til að sjá þig vinur í maí

Atli, Sigurjón Bragi og Berglind

Anonymous said...

Sæll
Takk fyrir sklemmtilega lesningu og frábærar myndir. Ég heyrði af ferðum þínum gegnum mömmu þína og móðursystur ( Guðrúnu). Ég er sjálf ný komin heim úr mjög góðri ferð um Bhutan og Nepal. Gangi þér vel í göngunni, öfunda þig samt ekki af að fara upp í þessa hæð, hef sjálf ekki mjög góða reynslu af hæðinni og var þó ekki í nema rúmlega 4000 m.
kv. Katrín kírópraktor

Gunnar Geir said...

Mikið hlakka ég til að sjá ykkur öll mín kæru.

Ég heyri reglulega áhugaverðar sögur frá Bhutan. Takk fyrir að skoða mig og myndirnar mínar Katrín.

Anonymous said...

Komdu á bókasafnið GUnni minn og ég skal hella fyrir þig uppá kaffi!

Anonymous said...

Genial brief and this enter helped me alot in my college assignement. Thank you on your information.