Tuesday, April 24, 2007

Frábærir dagar í stríðshrjáðu landi

Eins og hefur komið fram áður eru Nepalar að reyna að losa sig við konunginn. Í dag var haldið upp á það að eitt ár er liðið frá því að konungurinn kom fram í sjónvarpi landsmanna og tilkynnti að hann muni láta af stjórn landsins. Um daginn heyrði ég nokkrar ljótar sögur af honum sem ég hafði ekki lesið mér til um á netinu þegar ég skrifaði um Nepal í desember. Í desember minntist ég á að árið 2001 hafi þáverandi erfingi krúnunnar, Dipendra, drepið foreldra sína, konunginn og drottninguna, en síðan framið sjálfsmorð. Þetta er það sem opinberir aðilar gáfu til kynna þá en í dag komst ég að því að meirihluti Nepala trúir því að Dipendra hafi verið fundinn með skotsár í bakinu og hafi því verið drepinn ásamt foreldrum sínum. Margir trúa því að núverandi konungur, Gyanendra, næsti erfingi á eftir bróðursyni sínum Dipendra, hafi komið þessu öllu í kring.
Fleiri ljótar sögur heyrði ég af konunginum Gyanendra.
Konungsfjölskyldan hefur þangað til í júní 2006 verið yfir lögin höfð, þ.e. ekki er hægt að ákæra meðlimi hennar fyrir lögbrot. Gyanendra lagði niður ríkisstjórn landsins í febrúar 2001 í því yfirskyni að geta sjálfur séð um baráttuna við uppreisnarmennina, Maóistana. Í framhaldinu valdi hann sjálfur 3 forsætisráðherra en rak þá hvern af öðrum en einnig hafði hann slæm áhrif á fjölmiðlafrelsi í landinu - Nepal átti t.d. heimsmet a.m.k. þrjú ár í röð í því hve margir fjölmiðlamenn hurfu eða voru handteknir.
Nepölum lýst líklegast ekki vel á að krónprinsinn taki við krúnunni af Gyanendra þar sem hann virðist vera afar drykkfeldur maður og hefur samkvæmt fjölmiðlum drepið a.m.k. 6 menn í ofsafengnum ökuferðum sínum. Hver veit hve mörgum hann hefur mútað til að leka ekki fleiri slysum í fjölmiðla.
Í dag er Gyanandra algjörlega valdlaus en reynir með miklum auð sínum að finna leiðir til að grafa undan núverandi stjórn landsins sem síðan 14. janúar 2007 er skipuð maóistum að einum fjórða hluta á þingi. Frá því 1. apríl á þessu ári hafa Maóistar einnig tekið við fáeinum ráðuneytum landsins og hafa ráðherra yfir þeim úr sínum röðum.

Maóistarnir og borgarstríðið í Nepal er auðvitað sér kapítuli. Eins og aðrir Maóistar, t.d. vopnuðu maóistarnir í austur Indlandi , virðast þeir nepölsku eiga rætur sínar í langvarandi vanrækslu yfirvalda á þeim fátæku. Ég ætla ekki að skrifa um borgarstríðið í Nepal en þess í stað að skrifa um stöðuna í Nepal eins og hún birtist mér í gegnum fjölmiðla og samtöl við Nepala.

Vopnahlé tók gildi í Nepal milli stríðandi fylkinga í maí á síðasta ári og í framhaldi af því samþykktu Maóistarnir og forsætisráðherra Nepala að sitja saman á þingi og vinna saman að því að koma konungi Nepal frá völdum. Vopnabúr Maóista hefur verið afhent yfirvöldum smám saman með milligöngu sameinuðu þjóðanna. Enn í dag eru þó um 20 varðstöðvar maóískra hermanna í landinu sem verða ekki lagðar niður fyrr en meðlimir Maóistaflokksins treysta öðrum embættismönnum til þess að sparka þeim ekki út af þingi.

Það er ekki hlaupið að því að leggja niður heilan her manna og barna sem hafa barist við lögreglu og her Nepala í nokkur ár, þ.e. þá sem ekki tilheyra varðstöðvunum. Sumir hverjir geta ef til vill farið aftur til síns heima og hafið störf að einhverju tagi en nú á síðustu vikum berast enn fregnir af vopnuðum Maóistum sem skattleggja bændur og eiga í vopnuðum átökum við þorpsbúa. Það kann að vera erfitt fyrir suma að fara aftur heim þegar þeir hafa ef til vill skattlagt sín eigin þorp óhóflega og gert búnað eins og farartæki upptæk. Ég las frétt í blaði um daginn sem sagði frá Nepala sem hafði misst jeppa sinn í hendur Maóista fyrir tveimur árum síðan. Bróðir fórnalambsins fann svo jeppann fyrir tilviljun fyrir utan hótel í Kathmandu og þá kom í ljós að hátt settur pólitíkus í Maóista flokknum hafði notað hann sem einkabíl.

Lögreglan virðist fara varlega í að handtaka Maóista sem eru til vandræða eins og þá sem skattleggja bændur en gerir þó enn rassíur í að leita t.d. að vopnum í höfuðstöðvum Maóista. Auðvitað vill engin vopnuð átök við Maóistana aftur. Maóistar hafa enn völdin í afskekktum dölum Nepal en hægt og bítandi taka sveitir lögreglunnar við. Stundum virðist þó gæta misskilnings um hver hefur völdin, t.d. fóru lögreglusveitir um daginn þrjár fýluferðir í afskekktan dal til að taka við völdum af Maóistum. Ungar Maóistasveitir taka sjálfsagt við skipunum frá stjórnmálaleiðtogum Maóista en sveitir lögreglu taka (óbeint) við skipunum frá öðrum stjórnmálamönnum sem tilheyra kanski ekki sama flokki.
Skoðanir Nepala á Maóistum, sem voru harðlega gagnrýndir af sameinuðuþjóðunum fyrir að nota barnunga hermenn í borgarstríðinu, virðast jafn skiptar og skoðanir Íslendinga á Sjálfstæðismönnum.

Túristi tekur venjulega aðeins eftir vandamálum Nepala hvað varðar fátækt. Síðustu daga hef ég t.d. búið á aðal túristasvæði Nepal í Kathmandu og þar hef ég allt sem ég þarf - þó ég geri auðvitað ferðir út úr þessari 'einangrun'. Það eina sem ég hef séð óvenjulegt var þegar ákafur maður stökk inn í rútuna sem ég var farþegi í til að tilkynna nepölskum farþegum og bílstjóra að næsta dag yrði verkfall og mótmæli á aðalgötu Kathmandu. Mótmælin sá ég ekki og heyrði heldur ekki af þeim. Fámenn mótmæli virðast nokkuð algeng, þau geta ýmist verið skipulögð af Maóistum eða andstæðingum þeirra. Margir eiga auðvitað um sárt að binda eftir borgarstyrjöld og undanfarna daga hefur félag fórnarlamba Maóista (Maoist Victims Association) staðið fyrir mótmælum og um 200 manns úr sveitum Nepal hafa tjaldað fyrir utan borgina í þessum tilgangi.

Raftingferð í Bhote Kosi

Ég fór í frábæra tveggja daga rafting ferð niður Bhote Kosi fyrir skömmu. Nokkuð lítið vatn var í ánni báða dagana sem skapaði æðisleg vandræði á leiðinni niður. Nánast ómögulegt er að velta rafting bátunum en eina hættan er kanski sú að róðrarmenn eða konur hendist útbyrðis ef menn halda sér ekki vel í bátinn í stærstu flúðunum. Enginn féll útbyrðis á dögunum tveimur fyrir utan 3-4 árar en þeim var öllum bjargað af Kajakmönnunum sem fylgdu okkur hvert 'ármál'. Sumir voru þó nálægt því að detta útbyrðis.

Ég átti nokkrar einstakar upplifanir á ánni. Hver ræktanlegur fermetri er notaður í Nepal og því voru bröttu brekkurnar umhverfis ánna þakin hrísgrjónaþrepum. Börn bænda kölluðu oft til okkar og veifuðu og skemmtilegt var að sjá bændur í innsveitum Nepal vinna á ökrunum og einnig börn og fullorðna sem veiddu fisk í ánni með geysilöngum bambusveiðistöngum. Við sigldum í gegnum þorp sem umkringdu brýr yfir ánna og þar þurfti maður að hafa sig allan við að veifa börnum á brúnni, í húsunum eða á svölum blokka sem virkuðu á mann eins og stúkur áhorfenda. Dalurinn sem áin hefur sorfið var afar fallegur.

Skemmtileg vandamál sem tengdust litlu vatnsmagn árinnar einkenndust af því að stór grjót stóðu upp úr flúðunum. Leiðsögumenn okkar náðu þó yfirleitt að stýra okkur fram hjá þeim og á tveimur stöðum létu þeir okkur ganga fram hjá flúðunum.
Á einum stað skorðaðist báturinn ofan á steini þannig að áin tók að streyma yfir hann. Það var nokkuð kalt en það tók ekki langan tíma að losa hann.
Í eitt skipti fór einn báturinn upp á grjót í miðri ánni og var pikk-fastur. Stuttu seinna kom annar bátur sem tilheyrði sömu ferð og keyrði yfir þann fyrrnefnda en auk þess flæddi vatn yfir hann svo hann varð sjálfsagt mörg tonn að þyngd (fyrir utan kraftinn frá straumnum sem hélt honum föstum). Á endanum þurfti að koma fólkinu yfir á næsta bakka en sumir áttu erfitt með að stíga ofan í straumharða ánna þó að margar hendur leiðsögumanna og þorpsbúa héldu þeim stöðugum. Eftir nokkurn tíma unnu fjórir leiðsögumenn það þrekverki að velta seinni bátnum og fengu að launum lófaklapp þorpsbúa og okkur hinna.


Framhaldið
Ég er á leiðinni í 8 eða mögulega 13 daga fjallgöngu hér fyrir norðan Kathmandu í Langtang (ísl. Langitangi, takk Guðrún). Ég mun þramma upp í yfir 5100 metra hæð ef allt gengur að óskum og vonandi geng ég stoltur hluta af leiðinni í sokkum merktum með íslenska fánanum. Ekki verður úr Tíbetsku ferðinni en þegar ég kom til Kathmandu var ég orðinn svo rútuþreyttur að ég gat ekki hugsað mér dýra níu daga ferð til Lhasa og svo að þurfa að koma mér aftur til baka.
Hluti göngunnar minnar verður víst á svæði í um 4 km fjarlægð frá Kína/Típet sem telst vera nokkuð típetskt. Þeir Típetar sem flýja heimaland sitt þurfa einmitt að fara um skörð sem geta hæst verið um 5000-6000 metrar.

Ég á bókað flug til Íslands þann 10. maí, ég hlakka mikið til að hitta fólkið mitt heima. Ég mun skrifa meira á þessa síðu um ferðina þó að eðlilega muni lítið gerast hér eða á myndasíðunni á næstu átta dögum a.m.k .

Fólk á förnum vegi
Ég hef hitt skemmtilegt fólk á ferðum mínum undanfarið eins og endranær.

Í Rishikesh gisti ég á farfuglaheimili sem hét Moma's Guest House. Heimilinu var stjórnað af indverskri mömmu sem kallaði alla gesti 'sonur' eða 'dóttir' eftir atvikum. Fólk sem kom til hennar í leit að gistingu kallaði hún þessum nöfnum líka, umsvifalaust - hvort sem hún átti herbergi eða ekki. Á kvöldin eldaði hún alltaf frábæran 'eins og þú getur í þig látið'-Thali sem þó var ekki alltaf eins því Thali er margrétta indversk máltíð.

Í Varanasi átti ég frábærar stundir á kvöldin niður við Ganges í taflmennsku. Hópur áhugasamra taflmanna söfnuðust alltaf saman á sama stað upp úr klukkan 5 eftir vinnu og tefldu langt fram á kvöld.

Í Kathmandu kynntist ég frábærum ísraelskum, samkynhneigðum búddista. Samkynhneigðir fá ekki mikinn skilning í gamla testamentinu og mögulega þess vegna hefur vinur minn, Shahaf, leitað í Búddisma. Shahaf varð vitni að því þegar brjálæðingur réðst á gay-pride göngu samkynhneigðra í Jerúsalem vopnaður hnífi fyrir fáeinum árum síðan.
Shahaf var duglegur að fræða mig um búddista hofin sem við heimsóttum hérna í Kathmandu dalnum. Á einum tímapunkti var ég, þökk sé honum, staddur í herbergi mikilsvirts Búdda prests. Það var svolítið undarlegt að vera ekki búddista trúar og fylgjast með öðrum búddistum, sem báru greinilega mikla virðingu fyrir honum, spjalla við hann. Eins og hefð er fyrir gekk ég til hans með silkiklút og lagði um hálsinn á honum og buktaði mig.
Shahaf gefur tíbetsku menningarfélagi vinnu sína í Dharamsala. Í dag flaug hann þangað aftur og heldur þar áfram að hanna heimasíðu fyrir mikilvægt bókasafn Tíbeta.
Shahaf kom mér á óvart þegar hann sagði mér að 70-80% Ísraela væru ekki sérstaklega trúaðir.

Þjóðverja kynntist ég í raftingferðinni. Hann var skemmtilegur kauði en alveg sérstaklega týpískur Þjóðverji því hann á stóran BMW, elskar pulsur og bjór og talar með æðislegum þýskum hreim.

Friday, April 13, 2007

Ekki-svo-alvarlegt innslag

Ég er óðum að jafna mig eftir að hafa borðað heitan hafragraut og heitan búðing í eftirrétt í hitanum við landamæri Nepal og Indlands. Ég er ekki viss hvort ég skolaði þessu niður með dönskum bjór eða hvort það hafi verið öfugt. Í öllu falli var þetta furðuleg máltíð og ég svitnaði eins og svið í suðupotti jafnvel þótt klukkan hafi verið að ganga 8 um kvöld og mesti hiti dagsins yfirstaðinn.

Fyrir utan hótelið mitt er trukkalengja sem bíður þess að komast yfir landamærin, ekki ósvipuð þeirri sem ég sá við landamæri Pakistan. Á þessum landamærum þarf ekki að tæma alla trukkana yfir í trukka í næsta landi enda eru samskipti Nepal og Indlands mikið betri en Indlands og Pakistan. Á landamærunum eru því engir bláir maurar - það var það sem ég kallaði burðarmennina á landamærum Pakistan. Annars hef ég ekkert á móti maurunum, blessi þá alla með tölu og það ætti að vera auðvelt því þeir voru allir með númer á handleggnum.
Mig grunar að nokkrir trukkanna í þessari tveggja kílómetra lengju hafi verið að flytja mat til Nepal, Nepal er fátækasta ríkið í suður Asíu. Nú er þó útlit fyrir breytta og betri tíma í Nepal. Maóistarnir eru komnir inn í ríkisstjórn og líklegast hættir að þjálfa börn í skæruhernaði á meðan konungurinn hefur nánast ekkert vald lengur. Núverandi konungur hefur sýnt einræðistilburði á þessari nýju öld en bráðum verður honum sparkað algjörlega.

Í fyrramálið held ég til Kathmandu, þar finn ég vonandi svala.

Ég skulda nú eitthvað í ferðasögunni. Frá því ég yfirgaf fjallabæinn í Himachal Pradesh - svitabæ Bretanna - hef ég heimsótt Sewa Ashramið, eins og komið hefur fram, en auk þess Uttaranchal héraðið og Varanasi.
Við landamæri Himachal héraðsins og Uttaranchal átti ég eftirminnilegt ævintýri á reiðhjóli sem ég segi aðeins frá hér (smellið á myndina):
Eftir hjólreiðatúrinn fór ég til Dehra Dun og kynntist þar tveimur Indverjum á fyrstu 4 tímunum. Þeir eru báðir í frásögu færandi. Annar þeirra, Randy, er fyrrum stærðfræðikennari sem sestur er í helgan stein og reynir hvað hann getur að lifa af systrum sínum og gjafmildum túristum sem hann leggur sig fram við að spjalla við. Þar sem hann vann aldrei hjá ríkinu hefur hann engan ellilífeyri. Hann býr í hrörlegu en stóru húsi sem hann erfði frá foreldrum sínum. Hann giftist aldrei. Ég gaf blessuðum karlinum ekki margt, máltið og stöku kaffibolla.

Öðrum ungum manni kynntist ég í Dehra Dun, honum Anupam. Anupam er á aldur við mig og var staddur á sama stað til að hitta unnustu sína. Unnusta hans er hins vegar töluvert yngri en við Anupam eða 18 ára. Unga parið ætlar að gifta sig eftir um hálft ár og hefur valið fyrrum portúgölsku nýlenduna Góu til þess - 'partýpleis' Indlands. Parinu var ekki komið saman af foreldrum eða ættmennum og því mun hjónaband þeirra kallast "Love Marriage" en ekki ráðgert hjónaband. Eitthvað var Anupam súr út í unnustuna þegar ég hitti hann því hún hafði lítið viljað hitta hann frá því hann tók sér frí í Delhi og gerði sér ferð norður til Uttaranchal (þar sem hann gistir hjáfrænda sínum). Hann sagði mér frá vandræðum þeirra um afbrýðissemi og annað týpískt sem hlítur að hrjá par í sínu fyrsta sambandi á unga aldri.
Anupam spurði mig ráða en einu ráðin sem ég hafði voru evrópsk eins og reynsla mín öll. Ég hef velt fyrir mér hvernig fara eigi að því að tala um hjónaband eða samband við einhvern sem hefur allt annað viðhorf til sambanda. Ég bíst við að tvær manneskjur hafi sjaldnast nákvæmlega sama skilning/tilfinningu á hvaða hugtaki sem er en til að hafa söguna stutta og óalvarlega sagði ég honum einfaldlega að 18 ára stúlka, sérstaklega eins og hann lýsti henni, væri ekki tilbúin í hjónaband þar sem hún þekkir sjálfa sig ekki nógu vel. Evrópskt ráð en óindverskt.

Eftir Dehra Dun fór ég til Rishikesh. Rishikesh er stundum kölluð jóga-höfuðborg heimsins og bítlarnir vörðu 1-2 mánuðum þar eins og frægt var. Liverpool búsetinn ég gat ekki látið mig vanta á stórfenglegar bítlaslóðir Rishikesh. Nú er varla liðið hálft ár frá því ég og mamma fórum í útskriftina í Liverpool og á bítlasafnið í sömu ferð.

Sérstök hótelherbergi, sem bítlarnir gistu sjálfsagt aldrei í, að hverfa í gróðri

Ég eyddi einum eftirmiðdegi með alvöru Baba - þ.e. Baba sem biður ekki um peninga, mat eða neitt annað í staðin fyrir tíma sinn og hjálp - ég og 2 aðrið túristar stunduðum smá hugleiðslu við bakka Ganges og fórum í gönguferð í gamalt Hindúahof fyrir ofan Rishikesh. Þessi baba, eins og margir aðrir babar, reykir kannabisefni stíft.
Ég læt duga að setja inn myndir með lýsingum á næstu 2 dögum sem sýna bítlaslóðirnar í Rishikesh.

Rishikesh stúlka og barn

Í Rishikesh fór ég í rafting í Ganges, ég hafði aðeins farið einu sinni áður í rafting á Jökulsá Austari (já, Austari). Ég hitti einn Nepala þar sem þekkti nokkra Nepala sem vinna hjá frænda mínum við rafting ferðir á norðurlandi.Eftir Rishikesh fór ég til Haridwar og þaðan í Sewa Hælið (sjá síðasta innslag). Frá Sewa fór ég svo í Corbett tígrisdýraþjóðgarðinn. Þar sá ég fimm tígrisdýr á fyrsta hálftímanum - margir eyða 2-3 dögum þarna án þess að sjá þau - og seinna villta fíla, kyrkislöngu, krókódíla og dádýr til að nefna það helsta. Morguninn eftir tígrisdýrafundinn var ég óvænt spurður hvort ég hefði áhuga á að fara á fílsbaki frekar en í jeppasæti inn í þjóðgarðinn en ég og þeir fjórir Bandaríkjamenn sem ég ferðaðist með þarna höfðum gefið upp alla von um á gera slíkt því biðlistar voru langir. Ég þáði það og hafði gaman af að geta farið út fyrir vegi þjóðgarðsins og inn á veiðilendur tígrisdýranna. Við sáum engin tígrisdýr í fílaferðinni sem þó var engin fíluferð því andrúmsloftið var spennuþrungið og hrægammar og hlaupandi dádýrshjarðir gerðu ferðina góða.

Varanasi var síðasti viðkomustaður minn í Indlandi. Ganges áin er orðin frekar skítug þegar hún hefur runnið alla leið frá Himalaya fjallgarðinum og til Varanasi og því sleppa margir Hindúar því að drekka vatnið úr henni og fáir túrista baða sig í henni þar. Ganges áin virtist nokkuð hreynleg í raftingferðinni í Rishikesh en þó fann ég fljótlega subbulega lykt eftir að við lönduðum bátnum í grennd við fyrstu byggðir í Rishikesh.
Varanasi er vinsæll ferðamannastaður enda er hún ein heilagasta borgin í Indlandi í augum Hindúa og Búddista. Þeir sem baða sig í Ganges ánni hreynsa burt allar sínar syndir og þeir sem deyja í grennd við Ganges í Varanasi fara beint í himnaríki samkvæmt Hindúatrú. Sumir hindúar flytja til Varanasi á gamals aldri til þess að njóta þessara fríðinda.

Ég var hissi yfir því hve margir Indverjar böðuðu sig og gleyptu vatn úr Ganges ánni. Skelfilegar niðurstöður mælinga á bakteríuinnihaldi, hálf-brenndum líkamsleifum og skolpi virðist ekki hræða pílgrímana mikið.

Monday, April 09, 2007

Umferðin og Ashramið

Á götum Indlands má finna bíla, rútur, mótorhjól, vespur, traktora, flutningabifreiðar, þríhjólaða vagna eins og Auto Rickshaw og Rickshaw, mototaxi (samsuða mótorhjóls og pallbíls), share auto (þríhjóluð Rickshaw-rúta) og einnig tvíhjólaða vagna dregna af ösnum, vatna-buffalóum, uxum, hestum, mönnum og múlösnum.

Venjulega eru öll þessi farartæki yfirhlaðin af mönnum og varningi og oft eru fólksflutningafarartæki líka notuð fyrir flutning á varningi og eins eru flutningabifreiðar notaðar til fólksflutninga.
Þessi farartæki má öll sjá á sömu götu á sama augnabliki.
Ekki er óalgengt að sjá traktor draga stóra kerru fulla af fólki - mögulega hundrað manns. Flutningabifreið gæti verið notuð til flutninga á varningi eina leið en fólki á leiðinni til baka en með bílstjóranum sitja að jafnaði um 4 farþegar óháð því hvað er á pallinum. Stundum er fólk sent upp á þak rútu ef hún er troðin - og þá er hún virkilega troðin, því rútur eru yfirleittar troðnar.
Oftar en einu sinni hef ég séð 6 farþega á einu mótorhjóli. Margoft hef ég séð reiðhjólsbílstjóra rickshawsins draga á eftir sér 6 manna fjölskyldu.
Þegar varningur er fluttur á milli staða í trukkum, traktorum, vagni dregnum af húsdýri eða flutnings-rickshaw er allt gert til að troða sem mestu í pallana og framlengja þá uppávið.
Með öðrum orðum eru vélar, skepnur og menn notaðar til hins ítrasta við flutninga hér í Indlandi.

Eðlilega gengur indverska umferðin stundum hægt fyrir sig, sama hve mikið menn flauta. Flautan gegnir mikilvægu hlutverki í Indlandi því hér nota menn varla baksýnisspegla. Það virðist á ábyrgð þess sem tekur fram úr að flauta áður en hann gerir það frekar en þess sem á undan fer að halda sig á einni akrein og fylgjast með baksýnisspeglunum. Akreinar eru reyndar ekki nærri því alltaf vel skilgreindar.
Þar sem hámarkshraði ökutækjanna hér að ofan er mjög mismunandi og þar sem þjóðvegir Indlands eru oft ekki nógu breiðir eða sléttir fyrir umferðina þarf ekki að koma á óvart að indverskir bílstjórar taka fram úr mjög reglulega. Hér virðist svolítið öðruvísi hugmyndafræði tíðkast við framúrakstur: Sá sem tekur fram úr gerir yfirleitt ráð fyrir því að þeir sem keyra á móti vilji frekar hægja ferðina snögglega eða keyra út í kant frekar en að lenda í alvarlegum árekstri. Það er því oft sem farartæki á eigin akrein þurfi að gefa réttinn yfir á þann sem tekur fram úr en hann er jú yfirleitt á meiri ferð og getur ekki farið á eigin akrein í miðjum framúrakstri. Áður en þeir gefa réttinn og bremsa blikka þeir þó ljósum og flauta í 1-2 sekúndur - sem stundum virðast 1-2 mínútur - til þess að láta ekki valta algjörlega yfir sig.

Andlát í umferðarslysum á Íslandi virðast ekki vera mikið færri en þau á Indlandi miðað við höfðatölu, merkilegt nokk. Það skal þó taka fram að höfðatölusamanburðurinn er eiginlega ónýtur sökum þess hve margir nota farartæki á Íslandi miðað við á Indlandi.

Þangað til nýlega hafði Indian Railways (IR) einokunarstöðu yfir lestarsamgöngum í landinu. Í dag hefur IR mestan fjölda starfsfólk í öllum heiminum og á ári hverju flytja lestir fyrirtækisins 6 milljarða manna og 750 milljón tonn af varningi.
Líkt og önnur farartæki í Indlandi eru lestirnar yfirfullar, þó eru aldrei fleiri farþegar í dýrari farrýmum lestanna en sem nemur sæta- eða beddafjölda. Þeir fátækustu nota tómar faraangursgeymslur lestanna til að ferðast á milli staða. Troðningur á ódýrustu farrýmum lestanna verður oft til þess að fólk dettur út úr lestunum á ferð og stórslasast. Sumir þessara óheppnu farþega stinga upp kollinum á Sewa hælinu (e. Sewa Ashram) sem ég heimsótti um daginn.

Sewa Ashram
Sewa hælið var stofna af kristnum Hollendingi sem dag einn í ferðalagi sínu í Indlandi ákvað að taka að sér hætt kominn þurfaling og flytja hann í herbergið sitt í Delhi. Hollendingurinn Ton, sem í dag er kallaður Ton Baba, stjórnar 120 manna hæli fyrir sjúka, slasaða, munaðarlausa og ósjálfbjarga þurfalinga sem hann finnur á sunnudagsrúntum sínum í Delhi.


Ton Baba (til vinstri)


Heimsókn mín í Sewa hælið var vægast sagt mögnuð lífsreynsla og jafnframt áhrifamesta lífsreynslan mín hérna úti. Af veikum mætti reyndi ég að hjálpa til í þá tvo daga sem ég gisti í Sewa hælinu. Meðal þess sem ég gerði var að taka myndir með það að markmiði að færa þær inn á myndasíðuna mína og vekja fólk til umhugsunar. Ég hjálpaði líka manni við að læra að ganga og aðstoðaði áströlsku vinkonu mína Erin í leikfimitímunum sem hún heldur fyrir íbúa hælisins. Sewa hælið þiggur frjáls framlög í gegnum heimasíðu sína.
Sjá nýtt myndaalbúm á síðunni minni fyrir frekari upplýsingar.


Daginn sem ég heimsótti hælið dó gamall maður sem Ton hafði nýlega fundið. Um þennan mann má lesa á bloggsíðu Erin. Myndbrot úr jarðarförinni er á youtube síðunni minni en myndir á myndasíðunni.