Monday, February 05, 2007

Sasan Gir og tröppurnar

Í grennd við borgina Junagadh eru fimm hólar sem kenndir eru við Girnar. Frá toppi hæsta hólsins eru um 8000 tröppur úr steini sem Hindúar og Jainar (?) klífa í trúarlegum tilgangi. Á Vanir tröppumenn gera sér kanski grein fyrir því hvað felst í því að klífa 8000 tröppur. Til að gera sér betur grein fyrir þessum fjölda má ímynda sér að maður gangi upp heilar 80 tröppur en þá er maður búinn með 1% af ferðinni upp.
Þó að hóllinn sé ekkert sérstaklega hár, aðeins 954 metrar - en þó hæsti tindur í Gujarat, er álagið á fæturna fremur einhæfara heldur en við göngu upp á t.d. esjuna og merkingar um fjölda trappa sem maður hefur gengið minna mann reglulega á það hve mikið er eftir.
Hægt er að leigja menn við rætur hólsins til að bera mann upp og þá er greitt fyrir hvert kíló líkamsþyngdar. Ég sá nokkrar eldri konur og feitan businessmann sem var haldið á upp á hólinn.

Eftir Junagadh var förinni heitið í þjóðgarðinn Sasan Gir sem er eina heimili asísku ljónanna í öllum heiminum. Asíska ljónið á að hafa aðskilist því afríska fyrir um 100.000 árum samkvæmt einhverjum texta sem ég las fyrir skömmu. Það er þó ekki í samræmi við það sem náttúrulífsljósmyndarinn í Little Rann sagði mér; að ljónin hafi aðskilist þegar Indland rifnaði frá Afríku og skrapp norð-austur á meðan Afríka fór norður, fyrir nokkrum milljónum ára. Merkilegt, en óháð þessu, er að Indland er enn í hægfara árekstri við Asíu og ,,beiglan” er Himalayafjallgarðurinn sem rís um nokkra millimetra á ári hverju.
Asísku ljónin mátti finna víða í Asíu áður fyrr, t.d. Tyrklandi, Íran og Pakistan en síðasta ljónið sem til eru heimildir um fyrir utan Indland sást í Íran 1941. Þetta gefur til kynna að asíska ljónið kann að hafa farið landleiðin frá Afríku fyrir um 100.000 árum síðan.

Samkvæmt óáreiðanlegum ágiskunum voru einu sinni til 15 asísk ljón í öllum heiminum en það þýðir að asísk ljón í dag hafa tiltölulega lítið genamengi ( e. Gene pool) og einhverjar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvort ljónin standi höllum fæti gagnvart hættulegum sjúkdómum sökum þessa.

Í þjóðgarðinum eru rúmlega 300 ljón og rúmlega 300 hlébarðar. Í garðinum eru auk þess um 40.000 dádýr, örfáar híenur, antilópur og margar tegundir fugla.
Skömmu eftir komu mína til Sasan var mér boðið að læðast inn í garðinn ólöglega með leiðsögumanni. Leiðsögumaðurinn sem talaði við mig sagðist hafa stundað göngur inn í þjóðgarðinn í 13 ár án þess að verða ljónunum að bráð. Hann sagði að vísu að stundum kærðu ljónin sig ekki upp nærveru hans eða eltingarleiki (stundum eltir hann ljónin) og kæmu hlaupandi til hans til að hræða hann en að hann hafi alltaf náð að bregðast rétt við því.
Í skóginum búa þúsundir manna sem neita að yfirgefa skóginn þrátt fyrir hagsmunaárekstra þeirra við ljónin og hlébarðana ( nautgripir ættbálkanna verða kattardýrunum reglulega að bráð). Sökum þessa hafa kattardýrin vanist því að umgangast menn ólíkt afríska ljóninu. Íbúar skógarins eru vanir því að ,,sjá ljón á vegi sínum” nánast daglega en kippa sér lítið upp við það. Yfirvöld í Gujarat náðu að flytja margar fjölskyldur burt úr þjóðgarðinum fyrir nokkrum árum síðan en sumir neituðu að fara.

Þar sem ljónin eru of mörg fyrir þjóðgarðinn, fara þau út fyrir hann og stundum langar leiðir. Þær tvær nætur sem ég gisti hjá indverskri fjölskyldu fyrir utan þjóðgarðinn heyrði ég í ljónum skammt frá húsinu sem þykir ekki óeðlilegt.
Fyrir mig var ekkert vit í því að ganga inn í skóginn án þess að reyna löglegu leiðina. Löglega leiðin sem ég fór var ferð í jeppa með 4 túristum og leiðsögumanni. Einn túristinn var mjög áhugasamur Írani sem vinnur við verndun íranskra blettatígra í heimalandi sínu. Þrátt fyrir að hafa unnið í 5 ár að verkefninu hefur hann aldrei séð blettatígur.
Ferðin var gjörsamlega frábær og gekk framar vonum. Eftir aðeins 20 mínútna akstur fyrir birtingu sáum við 2 ljón og heyrðum í fleirum. Mökunartímabil ljóna stóð yfir á þessum tíma og eftirfarandi hreyfð mynd sínir neikvæð viðbrögð ljónynju við tilburðum karldýrsins.
Myndskeid
Í ferðinni sáum við hundruði dádýra og fjöldan allan af fuglategundum: græna páfagauka, 2-3 tegundir fálka, örn og fleiri tegundir sem ég kann ekki að nefna á nafn.
Í enda ferðarinnar vorum við svo heppin að sjá tvö ljón í viðbót sem við gátum nálgast fótgangandi og í þetta skipti í birtu. Ljónsungi og móðir þess lágu í makindum rétt fyrir utan vegg sem umkringdi varðstöð skógarvarða og því gátum við gengið innan veggja varðstöðvarinnar og tekið myndir af ljónunum. Okkur var þó sagt að hafa varann á því vitlaus ljónsunginn hafði sært 3 verði á síðastliðnu ári.
Þegar ég snéri aftur á gististaðinn hitti ég Svía sem hafði gengið í skóginn í 5 tíma um morguninn og auk þess farið kvöldið áður í myrkri með leiðsögumanni. Hann var ekki jafn heppinn og við jepplingarnir og það sama má segja um ferð Íranans þegar hann fór seinna um kvöldið. Þeir heirðu í ljónum og sáu kanski tvö glóandi augu í fjarska en fátt annað en það.

Daginn eftir fór ég í jóga með einni af indversku stúlkunum sem ég hitti í Junagadh og ungum Indverja sem við höfðum kynnst daginn áður.
Seinna um daginn skildi ég svo við indversku stelpurnar þrjár, indverska jógamanninn, Íranan og Svíann þegar ég lagði af stað í afslöppun og gott hótel á eyjunni Diu. Í Diu hef ég skrifað síðustu 3 innslög, skroppið á ströndina og notið þess að fara í heita sturtu á tandurhreynu hótelherbergi. Diu er fyrrum portúgölsk nýlenda og hér hef ég skoðað portúgalskar kirkjur og virki. Diu er eini staðurinn í Gujarat þar sem áfengi er leyft og því koma Indverjar úr næstu sveitum til að fá sér í glas.
Sjá fleiri myndir á myndasíðunni.

5 comments:

Anonymous said...

Sæll ferðalangur. Loksins eru fundnar tröppur sem hæfa manni sem við þekkjum báðir. Ekki bara að sá gæti æft þar heldur einnig fengið vinnu sýnist mér. Við Edda fylgjumst með ævintýrum þínum.
kveðja
gm

Anonymous said...

Já, ég verð að segja að ég væri spenntari fyrir því að sjá ljónin þarna en þau sem við sáum sárþjáð í Berlín.
Gott að þú ert á góðum stað og kemst í hressandi sturtu.
Farðu vel með þig.

Bestu kv. Guðrún Ásta

Anonymous said...

Það er rosalega gaman að fylgjast með lýsingum þínum hér af ferðalaginu og skoða myndirnar með. Þú segir mjög skemmtilega frá:D

Hafðu það sem allra best og farðu varlega - hlakka til að sjá þig næst!

Gunnar Geir said...

Já Guðjón. Mér var hugsað til þess sem þú talar um á leiðinni upp.

Ég met það mikils að sjá hverjir fylgjast með, takk fyrir.

Anonymous said...

The story is about a very small (wow gold)because the (wow gold)reasons for the (wow gold) expulsion Chushi doors have been forced to(wow power leveling) living on the United Kingdom, (wow power leveling)in abroad alone the people(wow power leveling) struggling for survival. A naturally do not (wow power leveling) agree with the ethical person. A war many of the cracks in the middle of the(wow gold) pursuit of hard power of (World of Warcraft gold) extreme people. A look at(wow power leveling) the friendship will be more important than the lives of people. The best of life, the best of the best stories or Long Road. Like Xiuzhen's friends must-see (Rolex)category.