Monday, February 26, 2007

Hermaðurinn

Ég er óðum að venjast því að sjá vopnaða hermenn í grennd við lestarstöðvar og aðra fjölfarna staði. Þar sem ég er Íslendingur hef ég mætt hermönnum með tortryggni og andúð, án þess þó að sýna það. Í einfeldni minni hef ég hugsað að her sé með öllu óþarfur, alltaf.

Í lestarferð á leið frá Jodphur til Delhi (þar sem ég er núna) var ég svo heppinn að ungur maður, Gauji (breytt nafn), gaf sig að tali við mig. Í samræðum okkar, um allt annað en yfirborðslega hluti, kom í ljós að Gauji er hermaður í indverska hernum og af þeim sökum má hann ekki hafa samskipti við útlendinga. Gauji er rólegur og djúpt þenkjandi maður og eftir um tveggja tíma spjall bauð hann mér að eyða deginum með sér í Delhi og þiggja gistingu hjá mági sínum sem ég þáði með þökkum.

Kona Gauja stundar rannsóknir í nanó-tækni í Stokkhólmi og hefur verið í Svíðþjóð í nokkra mánuði.
Gauji er fallhlífarhermaður, kapteinn að tign, sem þýðir að hann stjórnar um 120 manna herdeild. Hann hefur undanfarin ár verið með herdeild sína upp á Siachen jöklinum í Kashmir en jökullinn er mikið þrætuepli í deilu Indverja og Pakistana um Kashmir. Á jöklinum getur hitastigið farið niður í –50 °C og 10,5 metra þykkt lag af snjó fellur á jökulinn yfir veturinn. Pakistanar og Indverjar hafa herstöðvar uppi á jöklinum í yfir 6000 metra hæð og til þessa eyðir t.d. indverski herinn um 60 milljónum króna á dag, því allt þarf að flytja með flugi upp á jökulinn.
Það var á 8. og 9. áratugnum sem pakistanskir hermenn byrjuðu leiðangra upp á jökulinn en eftir nokkuð kapphlaup náðu Indverjar öllum hæstu tindunum 1984. Tindar Siachen eru hernaðarlega mikilvægir sökum þess að þaðan hafa Indverjar yfirsýn yfir Karakoram þjóðveginn sem liggur frá Tíbet til norður-Pakistan – eina leiðin frá Pakistan til Kína.
Pakistanar hafa nokkrum sinnum reynt að ná tindunum með valdi, t.d. leiddi Pervez Musharraf, sem er núverandi forseti Pakistan, fræga árás árið 1987 á stöðu Indverja á jöklinum. Um 2000 hermenn hafa látið lífið á jöklinum sökum frosts, snjóflóða og annars veðurtengds, töluvert fleiri en í átökunum á milli fylkinganna tveggja. Gauji missti næstum því báða fæturna í einhverju kuldakastinu á jöklinum en slapp fyrir horn og hefur aðeins hvíta rönd á öðrum fætinum til að minna sig á atburðinn.

Gauji sagði mér frá einu merkilegu um daginn. Yfirmaður hans og góður félagi í indverska hernum kemur frá litlu afskekktu þorpi í Kashmir. Í þessu þorpi má finna fólk sem sumir vilja kalla Arya.

,, The Hindus of Kashmir come of pure Aryan race and can be recognized by their sharp features, fair complexion, light colored hair and eyes.”
Af indverskri ferðamannasíðu

Samkvæmt yfirmanni Gauja heimsækja þýskar konur þorpið en þó ekki til þess að setjast þar að..... Þetta er nú meira slúðrið.

Í gegnum Gauja hef ég kynnst vinum hans, tengdafólki og frændum. Þó að Gauji hati Pakistan ( kanski að indverskum hermönnum sé innrætt slíkt hatur ) var hann þó nógu viðsýnn til að hringja í múslimskan vin sinn, sem ferðast hefur um Pakistan, til að hitta mig ástam strangtrúaðri eiginkonu hans. Hann vissi að hann væri ekki besti maðurinn til að ráðleggja mér um ferð þangað og bað hann hitta mig.
Föðurbróður Gauja hef ég hitt og meira að segja sofið í sama rúmi og hann. Sá var mjög áhugasamur um Ísland og íslensku stjórnarskránna. Ég gisti í íbúð hans ásamt Gauja en Gauji fór svo aftur á jökulinn um nóttina þar sem hann mun vera fram á haust.

Kvennmannsleysi Gauja á jöklinum sem og hjúskaparstaða hans virðist hvetja hann til dáða til að koma vinum sínum saman við vinkonur sínar og öfugt. Hér í Delhi hitti ég 19 ára fiðrildi undir því yfirskini að fræðast um indverksar bíómyndir. Gauji hafði annað í huga og finnst áhugaleysi mitt á kvennfólki á ferðum mínum óskiljanlegt. Kynni mín af þessari stúlku, Apörnu, hafa verið skemmtileg. Til dæmis hef ég óvart hitt á föðurbróður hennar sem komst nálægt því að yfirheyra mig í óþægilegu símtali. Eftir að ég horfði á bíómynd með henni og vinkonum hennar um nauðungarbrúðkaup þurfti ég svo að þykjast þekkja hana ekki því frændinn var kominn að sækja hana. Ég hélt ég væri nú vaxinn upp úr svona skrípaleikjum.

Vinir Gauja hafa allir verið mjög efnilegir eins og hann var sjálfur þegar hann lauk námi í rússnesku. Í dag er hann ekki jafn efnilegur að margra mati (m.a. honum sjálfum) því hann er vel upplýstur hermaður sem lætur þolir enga vitleysu frá yfirmönnum sínum. Aparna stundar nám í fjölmiðlun af miklum krafti og mun sjálfsagt eignast ,,villu og stóran bíl” – orð sem annar frændi Gauja notaði til að lýsa draumum sínum eftir lögfræðinám í Delhi.

Eftir 2 tíma legg ég af stað til hins indverska hluta Punjab héraðs. Punjab var skipt á milli Pakistan og Indlands við sundrun Indlands 1947.

11 comments:

Anonymous said...

Skömm að því að maður kvitti aldrei fyrir komu sína á síðuna.En ég fylgist að sjálfsögðu með þessu skemmtilegaog fróðlega ferðalagi þínu vinur.

Með kveðju frá Íslandi
Atli

Anonymous said...

áhugaverður pistill þetta.
bestu kveðjur
Gunna

Gunnar Geir said...

Gaman ad heyra i ykkur elskurnar.

Annars:
Nyjar myndir og eitt video fra Jodhpur.

Anonymous said...

tetta er frabaer faersla. ég sá silfur egils 18 febrúar tegar ólafur ragnar grímsson var ad tala um indland og teirra concept fyrir vináttu ofl ofl. mjog gott vidtal reyndar.tetta er svakalega gód lífsreynsla sem tú ert ad afla tér.tú ert greinilega gódur í ad koma tér inn í menninguna og virdist vera ad kynnast henni dýpra og dýpra. Sendi tér svakalega stóra kvedju og hlýtt fadmlag.tykir svaka vaent um tig skondni strákur.(tad virdist nú bara vera voda púrítanskt líf á tér en svona til vonar og vara vil ég bidja tig ad passa tig á kynsjúkdómum gódi ;), rússnesk rúlletta er ekkert grín í indlandi)skemmtu tér annars svaka svaka svaka svakalega vel! :))))Árný

Gunnar Geir said...

Takk fyrir þetta um Ólaf Ragnar og alla kynsjúkdómana Árný mín. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég er varaður við kynsjúkdómunum hérna en þeir lifa sjálfsagt góðu lífi í þeim 10 milljónum gleðikvenna sem búa í Indlandi. Ég hef þó aldrei gerst svo frægur að sjá eina slíka en ég held þó að einn gleðikarl hafi boðið mér að spjalla við sig í Junagadh.
Fyrir þá sem vilja vita það að þá er það alls ekki á dagskránni að leggjast með gleðikonu og sjálfur vona ég að ég komist ekki í náin kynni við einhverja dömu hérna úti því ég hugsa að það yrði til meiri vandræða en til góða.

Bestu kveðjur frá Amritsar, Punjab.

Anonymous said...

Elsku Gunni minn, það er svo notalegt að lesa þetta hjal. Ég er með hugmynd varðandi ljósmyndirnar sem ég segi þér frá síðar......

Anonymous said...

hahaha alltaf sama afskiptasemin í manni.... arny

Anonymous said...

gunni vildi koma því á framfæri að hann er staddur í Pakistan og getur ekki bætt við bloggi á meðan vegna ritskoðunar. Myndir eru þó komnar inn. Gunni kemur aftur til Indlands um næstu helgi.

Gunnar Geir said...

Árný, Gunnar Helgi og Kjartan, ég held með ykkur.

Anonymous said...

I am really Glad i came across this website.Added gunnargeir.blogspot.com to my bookmark!

Anonymous said...

I'm really Glad i ran across this website.Added gunnargeir.blogspot.com to my bookmark!