Friday, January 26, 2007

Veitingastaður í Rajkot

Ég hef gist síðastliðnar þrjár nætur í Þjóðgarðinum Little Rann of Kutch en er nú loksins kominn ,,á línuna" aftur. Ferð minni er heitið í suður Gujarat, sem á víst að vera ,,svolítið öðruvísi". Margt hefur drifið á daga mína og til að stytta listann langar mig til að tala um síðasta klukkutíma eða svo hér í Rajkot, Gujarat.

Eftir að hafa leitað uppi veitingastaðinn Bukhara Woodland Restaurant með bettlara á hælunum, sem sumir hverjir klípa mann til að fá athygli, hitti ég í hópi manna, beint fyrir utan staðinn, mann sem vissi hvar hann var.

Innskot: Ég hef verið að lesa sögu Englendings af ferðum sínum á Indlandi sem er setningarfræðilega mjög flókin. Það skýrir þessar löngu setningar sem ég mun hætta að skrifa núna.

Bukhara hefur sæti fyrir um 100 manns. Það var því með valkvíða sem ég valdi sæti í horninu á tómum staðnum. Eftir handahófskent val af matseðlinum - sem ég botnaði lítið í - fann ég klósettið sem var því miður ekki hola í jörðinni eins og ég er vanur að nota.

Veitingastaðurinn var af fínustu gerð og þjónarnir vildu allt fyrir mann gera en áttu bágt með það sökum þess að þeir skildu mig ekki. Maturinn kom þó og var príðilegur, sérstaklega með hrísgrjónum sem komu 2 mínútum eftir að ég pantaði þau sérstaklega. Eitt átti ég ég bágt með á þessum stað: Þjónninn stóð yfir mér og skóflaði úr hrísgrjónaskálinni eða grænmetisréttinum á diskinn minn þegar honum fannst vanta á diskinn minn. Hann reyndi að vísu að gera annað á meðan en ég sá að það var allt saman yfirskin - vökul augu hans fylgdust með hverri skeið sem ofan í mig fór. Þegar líða tók á matartímann tilkynnti þjónninn mér að hann gæti því miður ekki skóflað meiru af grænmetisréttinum á diskinn minn þar sem ég hafði klárað hann og spurði því hvort ég vildi eingöngu hrísgrjón á diskinn. Ég afþakkaði pent og bað um reikninginn. Mér til kvíðarauka sá ég hvar þjónninn náði í skál með heitu vatni í og sítrónubitum og þóttist viss um að hann myndi þvo mér um hendurnar. Hann setti skálina þó á næsta borð og fór og pantaði reikninginn á meðan ég dreif mig í að hella restinni af vatninu sem ég hafði pantað í tóma flösku sem er föst við áberandi fjólubláa bakpokann minn.
Ég svitnaði í lófunum við tilhugsunina um að láta ókunnugan mann þvo mér um hendurnar og í huga mínum endurtók ég enska möntru, sem er lítið annað en eitt ljótt orð. Þjónninn gerði sig ekki líklegan til að þvo mér þegar hann setti skálina fyrir framan mig, mér til mikillar ánægju. Ég þreyf mig því í skyndi, setti táfílusokkana mína í skítuga skónna sem lágu undir borðinu og greip fjólubláa bakpokann á leið minni út.

No comments: