Saturday, February 03, 2007

Brúðkaup og framandi ferðalangar

Brúðkaup
Ég hef verið svo heppinn að ná að fylgjast með hluta úr tveimur brúðkaups-hátíðarhöldum hér í Indlandi. Það þarf kanski ekki mikla heppni til að verða vitni að hátíðarhöldum sem þessum því þau virðast stundum standa yfir í 3 daga áður en STÓRI dagurinn rennur upp.
Þau hátíðarhöld sem ég hef séð hafa einkennst af háværri tónlist ( spiluð af upptökum eða lifandi tónlist ) og æðisgengnum dansi úti á miðri götu.

Þær drunur sem hrista rúðurnar í hótelherbeginu mínu nú, þegar klukkan er farin að ganga eitt um nótt, tilheyra einhverskonar kvöldskemmtunum sem haldnar eru á undan brúðkaupi hér í bæ. Í gærkvöldi var spilað eitthvað fram á nótt en svo kom það mér á óvart að klukkan 8 næsta morgun var tónlistin sett í gang og háværir kínverjar sprengdir í eins og klukkustund, svona rétt til þess að vekja fólk í hverfinu. Þetta kom sér reyndar vel fyrir bleiknefja eins og mig sem þarf helst að nota morgnana í útiveru áður en sólin verður of sterk og áður en hitinn fer yfir 30 gráður. Svo virðist sem gestir brúðkaupsskemmtunarinnar noti morgna og kvöld í dansinn en mæti svo þess á milli í vinnu.
Fyrir um viku síðan gekk ég upp aðalgötu (Laugaveg!) Junagadh, um 170 þúsund manna bæjar í Gujarat, og rakst á hljómsveit og dansandi gesti brúðkaups. Ég og myndavélar mínar sýndu brúðkaupinu mikinn áhuga sem varð svo til þess að vekja áhuga sumra gesta á mér og mínu ljósa hári.
Myndskeið

Skömmu seinna var ég dansandi um miðjan dag úti á götu í Junagadh á meðan einn gestur brúðkaupsins tók myndir af mér með minni myndavél. Það er kanski gott dæmi um hamaganginn (í gestunum) að ég sést á hvorugum myndana sem gesturinn tók. Á endanum fannst mér eins og sumir gestanna hafi gert minna af því að dansa en meira af því að horfa á mig. Hvort áhugi þeirra hafi beinst að mér beinlínis eða því hvernig ég dansaði skal ósagt látið en eitt er víst að mér fannst verra að hafa áhrif á skemmtunina og að dansa fyrir framan hóp af fólki. Því lét ég mig hverfa.

Fjölþjóða ferðalangar
Ég hef áður talað um samferðamenn mína á blogginu. Á síðustu tveimur vikum hef ég kynnst áhugaverðu fólki, m.a. frá Íran og Ísrael og auk þess kynnst þremur frjálslyndum, indverskum stúlkum. Í morgun talaði ég lengi við amerískan gyðing, Daniel, sem er reyndar stærðfræðingur, um Ísrael og gyðinginn Sacha Baron Cohen sem er aðalleikarinn í Borat-vitleysunni.
Ég hef haft áhuga á því undanfarið að spjalla við Íranan og gyðingana um Ísrael. Í stuttu máli hef ég haft áhuga á því að fá skilning á því hvað varð til þess að hópur gyðinga lýstu einn daginn yfir sjálfstæði í núverandi Ísrael og hvaða forsendur þeir hafi haft fyrir því þá að hertaka með þessu landsvæði sem tilheyrði annari þjóð (þó í umsjá/eigu gyðinga). Það sem Daniel benti mér á er að það er eiginlega ekki hægt að segja neitt um hvort það hafi verið rétt eða rangt af þessum hópi gyðinga að hertaka landsvæðið. Ef til vill var það rétt fyrir þá en rangt fyrir aðra. Þetta heyrir í öllu falli sögunni til.

Ég vona að lesendur þoli innslög eins og þessi þar sem ég opinbera fávisku mína um hin og þessi málefni. Mér til varnar vil ég meina að ég læri mikið af því að tala/skrifa um hluti sem ég þekki ekki sérstaklega vel. Það hvetur mig til þess að leita mér frekari upplýsinga og fær hausinn á mér til að vinna á efninu öðruvísi heldur en sem móttakandi upplýsinga. Góður kennari reynir einmitt að fá nemendur sína til að vinna með efni í stað þess að reyna að berja efnið inn í hausinn á þeim.

No comments: