Saturday, January 13, 2007

Adam var einn í paradís....og þá fór rafmagnið af ,,pleisinu".

Rafmagnsvandamál virðast hrjá nánast allar borgir Indlands. Stærri fyrirtæki eiga olíuknúnar vélar sem settar eru í gang í þau fjölmörgu skipti sem rafmagn fer af borgunum.

Í morgun vaknaði ég í ískaldri rútu í Ajmer. Eftir nokkra frábæra tebolla komst ég allur í gang og hóf skoðun á mosku þar í bæ. Ég sá nánast enga túrista í þessari hálfrar milljón manna borg og í bókhaldi moskunnar virtist ég hafa verið eini túristinn þar í 2 daga. Að sjálfsögðu fékk ég óskipta athygli þar.
Eftir morgunverð á rafmagnslausum veitingastað hélt ég áfram til Pushkar, paradísarinnar sem ég er í nú. Paradísin er kannski frábrugðin öðrum paradísum að því leiti að hér eru ágengar sígaunagleðikonur. Pushkar er 15.000 manna pílgrímabær í Rajasthan sem umkringir lítið vatn. Bærinn er svo umkringdur af fjöllum, eyðimörk og auðn. Bærinn er ótrúlega fallegur og stemningin hér er allt öðruvísi en á fyrri viðkomustöðum. Hér er allt að því hægt að snerta vörur í búð án þess að sölumaður verði rúppíu spenntur! Vatnið er talið heilagt af hindúum en þeir baða sig í vatninu og/eða taka vatn með sér heim til að þvo sér upp úr. Hótelið sem ég gisti á er fjölskyldufyrirtæki en það hefur eitt besta útsýnið yfir vatnið í bænum. Reglulega fara kvennmenn fjölskyldunnar með möntrur á þakinu hjá okkur túristunum. Apar, götuhundar, ótal dúfur og auðvitað kýr, lifa innan bæjarmarkanna. Þegar ég kom til Pushkar var kyrrðin sem einkennir staðinn (í samanburði við aðra staði) augljós. Í Pushkar er áfengi og kjöt algjörlega bannað, svo það lítur út fyrir að ég verði grænmetisæta, a.m.k. þangað til eftir flugdrekahátíðina sem verður hér á morgun. Annars getur verið að ég ,,festist” hér eins og sumir aðrir túristar og dvelji hér lengur.

Í ferð minni hefur það aldrei komið fyrir að indverskur kvennmaður kemur til mín að fyrra bragði og heilsar upp á mig. Ég var því svolítið hissa þegar tvær ungar konur komu til mín og ástralsks ferðafélaga míns til að heilsa upp á okkur. Fljótlega varð ljóst að þær höfðu áhuga á peningunum okkar. Eftir að hafa losnað frá þeim hitti ég aðrar áhugasamar ungar konur og tók í höndina á einni þeirra sem greip mig þéttingsfast og sleppti ekki. Fljótlega dró hún upp túbu með brúnu efni og fór að teikna blóm í höndina á mér sem varð ekki beint fallegt sökum þess að ég streittist á móti. Fyrir ógreiðann vildi hún svo fá greiðslu fyrir sem hún fékk auðvitað ekki, þrátt fyrir allt þrasið.

Um kvöldið fórum við ástralinn í einhverskonar túristasamkomu í bakgarði húss hér í bænum. Þar dönsuðu sígaunakonur skemmtilega dansa við lifandi tónlist í kringum varðeld og plötuðu stundum túristana í dansinn líka. Góð skemmtun! Varðandi gleðikonurnar sem ég minntist á: Sígaunakonur hafa aldrei boðið mér blíðu sína, enda hrökklast ég oftast undan ágengi þeirra. Þrír íbúar bæjarins hafa hins vegar talað um þetta og beðið mig að passa mig á þeim sem eru hér á aðalgötu bæjarins. Nokkrar þeirra voru þó í garðskemmtuninni í gærkvöldi og voru ekki í peningaleit eða viðskiptum að neinu tagi.


Í Pushkar eru mörg Hindúahof. Sum þeirra eru við vatnið, önnur upp á fellunum/fjöllunum hér í kring og enn önnur í hjól-færi einhversstaðar úti í auðninni.

Mig hlakkar til flugdrekahátíðarinnar á morgun.
(Sjá einnig greinina ,,Fólk" sem birtist einhverra hluta vegna fyrir neðan tilkynninguna um nýjar myndir frá í gær).

5 comments:

Anonymous said...

Vá Gunni,
þetta hljómar allt frábærlega!!!
Enn hvað það verður gaman að skiptast á ferðasögum og myndasýningum í sumar.
Farðu vel með þig,
Kv. Gunna

Anonymous said...

Sæll Gunni. Þú upplifir mikið ævintýri. Við sem fylgjumst með þér gerum það einnig með því að lesa ferðasöguna en ekki síður við að skoða frábærar ljósmyndir þínar.
Áfram veginn!
Kveðja
Guðjón

Gunnar Geir said...

Gunna: jájá. Hér er frábært að vera (sjá tölvupóst).

Guðjón og fjölskylda: Takk kærlega fyrir. Ég held áfram veginn og reyni að halda uppi ,,ferða útsendingu" hér.

Anonymous said...

Hæ Gunni,
frétti að þú hefðir orðið eitthvað slappur. Horfðir samt á óteljandi flugdreka á hátíðinni. Vona að þér líði betur og að þú haldir áfram að sjá við mjög svo vönum sölumönnum.
Kv Sigga

Gunnar Geir said...

Sæl Sigga og takk fyrir. Jú, ég er slappur. Er að ná mér eftir flensu en gat þó horft á marga, marga flugdreka.

Bestu kveðjur til fjölskyldunnar
Gunnar Geir