Sunday, January 07, 2007

Rahjastan

Ahhhhh….

Vaknaði ferskur eftir andvökunótt. Ég gekk út á götu til að líta til veðurs og sá mér til skemmtunar að einhver hefur sett stóra moldarhrúgu út á miðja götuna sem í eru grjóthnullungar á stærð við mannshöfuð. Á öðrum stað var ruslahrúga alelda. Þessi gata er kölluð main bazar og er á hverjum degi jafn troðin og Laugavegurinn á Þorláksmessukvöldi. Þrátt fyrir þetta hiksta bílar og mótorþríhjól (e. Autorickshaw) niður götuna á meðan bílstjórar þeirra liggja á flautunni. Á kvöldin og morgnana er þó minni umferð. Í gærkvöldi fylgdist ég með hvar búðareigandi losaði tvær troðfullar ruslafötur á miðja götuna og fylgdist svo brosandi með hvernig bílar og aðrir reyndu að komast yfir hana eða fram hjá henni. Í gær gengu víst fílar niður götuna.
Ímyndið ykkur, fílar á Þorláksmessukvöldi?

Ég pantaði mér amerískan morgunverð á kaffihúsi eftir veðurathugunina. Ég hef aðalega borðað grænmetisrétti hingað til og ákvað því að eyða sáru hungri mínu með beikoni og tilheyrandi. Forvitinn Dani spurði mig hvort á disknum mínum væri svínakjöt, sem er ekki skrítin spurning, því hvorki hindúar né múslimar (sem saman mynda 96% þjóðarinnar) borða svínakjöt. Vissulega brennur svínakjöt í maga mínum núna og mun það hjálpa mér að takast á við ,,jet-laggaðann” dag.

Á kaffihúsinu las ég mér til um Rahjastan en á þessu kaffihúsi hef ég hitt 9 túrista sem allir hafa farið til Rahjastan og voru reyndar í öllum tilfellum á leiðinni heim daginn eftir að ég talaði við þá. Rahjastan er ,,sýsla” fyrir vestan Delhi sem í búa 50 milljónir manna. Þar sem úti er kalt (8 gráður), bæði á morgnana og kvöldin, hef ég ákveðið að fara til Rahjastan eftir að hafa heimsótt Agra og fresta þannig för minni á norðlægari og kaldari slóðir þangað til þar hefur hlínað í veðri.
Rahjastan er mikið ættbálkahérað. Þar eru eyðimerkur og annað merkilegt sem mun vonandi koma fram síðar. Ættbálkarnir í Rahjastan elduðu oft grátt silfur saman hér áður fyrr og voru því oft veikburða þegar utanaðkomandi innrásarlið sótti að þeim.
Við yfirvofandi árásir stórra ættbálka sem ómögulegt var að ráða við tóku smærri ættbálkar til þess að senda konur og börn á bálköst á meðan karlarnir hlupu út í rauðan dauðann geng innrásarliðinu.
Vonandi hafa menn þó fullvissað sig um að um innrásarlið var að ræða frekar en t.d. heimsókn því ,,súrt” væri nú að senda fólkið sitt á bálið rétt fyrir veislu (afsakið svarta húmorinn, ég þarf kanski meiri svefn). Einhverra hluta vegna hefur þessi hefð þó ,,dáið út”.

Í dag ætla ég að skoða Rauða virkið í Delhi og sitthvað fleira.

Athugið að ef einhverjar stafsetningarvillur sjást hér að ofan (jafnvel i í stað y) eru þær eingöngu afleiðing lyklaborðsins sem ég nota, sem er skítugt eins og annað í þessari borg. Delhi er sjöunda mest mengaða borg í heiminum og í heimild frá 1997 las ég að þriðjungur íbúa hennar eiga í öndunarfæraerfiðleikum, hóst hóst.

Sjá fábrotnar myndir með því að smella á [My Pictures] hér til hægri.
Ein þeirra fylgir hér að neðan:
Ég keypti mér einhverskonar vafningsteppi fyrir 160 krónur íslenskar til að verjast kuldanum á meðan ég beið eftir töskunni minni. Myndin til hægri birtist á forsíðu National Geographic, hún er heimsfræg og ósambærileg við myndina mína. Því ber ég þær hér saman.

1 comment:

Asla said...

Elsku karlinn minn, frábært að lesa og sjá myndirnar, alveg snilldarlega vel gerðar myndir, bæði nýjar og gamlar, textinn alveg drep fyndinn, ástarþakkir....stórfjölskyldan fylgist spennt með þér, allir á hnjánum að biðja fyrir þér skilst mér......!
þín frænk Áslaug