Saturday, June 21, 2008

Lok Kínaferðar

Matmálstímar á ferðalögum mínum eru yfirleitt eins konar hátíðir hjá mér. Ég geri alltaf ráð fyrir því að ég finni mér eitthvað gott að borða og ef mér tekst það ekki verð ég oft fyrir vonbrigðum. Morgunmaturinn er í þessu samhengi ekki bara mikilvægur næringarfræðilega séð - það er eins gott að leggja ekki af stað með skeifu í framan að morgni dags : ( .

Ég ligg á meltunni við sundlaugarbakka í Dali-borg í suð-vestur Kína og sé fram á að geta jafnvel klárað það sem ég á eftir af banana-hafragrautnum sem ég pantaði ásamt perusafa og hrúgu af ávöxtum með jógúrti og múslí. Þetta telst þó varla til afreka sé miðað við allan matinn sem ég át í gærkvöldi! Loftslagið í Yunnan héraði - sem Dali er í - telst nokkuð þægilegra en í Guilin, Guangxi á þessum árstíma, þar sem stór hluti þess er hátt yfir sjávarmáli. Dali er til dæmis í 2000 metra hæð. Ég er þreyttur og brunninn bæði á sál og líkama eftir hjólatúr án sólarvarnar í gær og mikillar samveru við þýska túrista sem fluttu sig yfir til Víetnam nú í morgun. Lífsrúm hefur fengið nýja merkingu fyrir mér.

Stúlka í Xi'an. Talsvert auðveldara er að fá leyfi til að mynda börn en fullorðið fólk hérna.


Bogamaður

Eftir leirmennina í Xi'an og portrait myndatökur flaug ég til Guilin í suður Kína. Þaðan hafði ég ætlað mér að fara til Yangshou sem er mjög vinsæll áfangastaður bakpokalýðs sökum girnilegra pönnukaka og jú, ótrúlegs landslags. Ótrúlegir kalksteinstindar umkringja Yangshou en þá má sjá víðar en þar, t.d. hér í Guilin. Úr ferð minni til Yangshou varð þó ekki því einhverjar mestu rigningar í manna minnum gengu þá yfir suður-Kína. Þúsundir heimila skemmdust þegar ár flæddu yfir bakka sína.' 'Kalktoppar' í Guilin
Rigningarnar höfðu svo sem lítil áhrif á mig, fyrir utan að tefja mig á leið minni af flugvellinum um klukkutíma, og gerðu reyndar hjólaferð mína og Þjóðverjanna í Guilin ansi skemmtilega. Við lentum marg sinnis í því að þurfa að snúa við þegar mittisháir 'pollar' ætluðu engan enda að taka. Í Yangshou var víst svolítil ringulreið í kjölfar rigninganna og því fylgdi ég frekar Þjóðverjunum vestur.


Lögreglan leysir úr umferðahnút á einum aðal'veginum' í Guilin


Þjóðverjarnir

Stundum er ekkert grín að vera ferðamaður. Ég þarf til dæmis að setja mig inn í ótal hluti eins og hvernig á að komast frá A til B eða hvernig á að segja 'Halló'. Þegar ég færi mig yfir til Mongólíu get ég allt eins gleymt öllu því sem ég hef lært í mandarín, þ.e. 'Halló' og 'Takk'. Að segja bless hefur reynst mér og fleirum allt of erfitt og því segi ég bara takk í staðinn. Hingað til hef ég oft sýnt með látbragði mínu hvers ég leita eða hvað mig vanhagar um. Því hefur þjálfun mín í látbragðsspilinu Actionary komið að góðum notum. Því miður eru mótspilarar mínir hér ekki alltaf jafn góðir og gera bara ráð fyrir því að fyrstu sekúndu að þeir munu ekki ná að skilja neina tjáningu af minni hálfu, enda líklegast aldrei spilað Actionary. Þetta getur verið neyðarlegt þegar ég spyr um næsta klósett. Í Actionary er bannað að gefa frá sér hljóð þegar menn leika. Hér er það leyfilegt. Þó að öll mandarískan mín fari væntanlega forgörðum í Mongólíu að þá er hughreystandi að vita til þess að þeir nota kýrilískt letur eins og Rússarnir.

Kínverskt letur

Þegar þessi texti er sleginn inn er ég aftur kominn til Beijing og aðeins rúmur klukkutími í að ég legg í næstum 2 daga ferðalag til Ulan Baatar. Hver veit nema ég hoppi út í Choir, áður en ég kem til Ulan Baatar. Þar búa aðeins um 8000 manns sem væri því talsverð - og mögulega kærkomin tilbreyting frá áfangastöðum mínum hingað til. Hluta af ferðinni neyðist ég til þess að fara í rútu þar sem kindlaberar ólympíuleikanna eru að nota eina lestina á flakki sínu um Kína. Nýlega komu þeir við í Lhasa, Tíbet og var fagnað ákaft af þeim sem höfðu verið valdir til þess. Ferðamenn geta ekki heimsótt Tíbet og aðeins valdir blaðamenn mega það. Einn af þessum völdu blaðamönnum kemur fyrir í myndskeiði Reuters sem fylgir þessari mbl.is frétt.

Ég hef sett inn tvö stutt myndskeið á youtube vefinn minn (sjá krækju hér til hægri), þeim fjölgar vonandi þegar ég finn tölvu sem getur hent þessu á vefinn á stuttum tíma.

Bestu kveðjur,

Gunnar Geir

1 comment:

Gunnar Geir said...

Nokkur myndskeid komin inn a youtube siduna. Auk thess eru allar kina-myndirnar komnar inn. Faersla kemur inn a naesta solarhring asamt Mongolskum myndum.