Monday, April 09, 2007

Umferðin og Ashramið

Á götum Indlands má finna bíla, rútur, mótorhjól, vespur, traktora, flutningabifreiðar, þríhjólaða vagna eins og Auto Rickshaw og Rickshaw, mototaxi (samsuða mótorhjóls og pallbíls), share auto (þríhjóluð Rickshaw-rúta) og einnig tvíhjólaða vagna dregna af ösnum, vatna-buffalóum, uxum, hestum, mönnum og múlösnum.

Venjulega eru öll þessi farartæki yfirhlaðin af mönnum og varningi og oft eru fólksflutningafarartæki líka notuð fyrir flutning á varningi og eins eru flutningabifreiðar notaðar til fólksflutninga.
Þessi farartæki má öll sjá á sömu götu á sama augnabliki.
Ekki er óalgengt að sjá traktor draga stóra kerru fulla af fólki - mögulega hundrað manns. Flutningabifreið gæti verið notuð til flutninga á varningi eina leið en fólki á leiðinni til baka en með bílstjóranum sitja að jafnaði um 4 farþegar óháð því hvað er á pallinum. Stundum er fólk sent upp á þak rútu ef hún er troðin - og þá er hún virkilega troðin, því rútur eru yfirleittar troðnar.
Oftar en einu sinni hef ég séð 6 farþega á einu mótorhjóli. Margoft hef ég séð reiðhjólsbílstjóra rickshawsins draga á eftir sér 6 manna fjölskyldu.
Þegar varningur er fluttur á milli staða í trukkum, traktorum, vagni dregnum af húsdýri eða flutnings-rickshaw er allt gert til að troða sem mestu í pallana og framlengja þá uppávið.
Með öðrum orðum eru vélar, skepnur og menn notaðar til hins ítrasta við flutninga hér í Indlandi.

Eðlilega gengur indverska umferðin stundum hægt fyrir sig, sama hve mikið menn flauta. Flautan gegnir mikilvægu hlutverki í Indlandi því hér nota menn varla baksýnisspegla. Það virðist á ábyrgð þess sem tekur fram úr að flauta áður en hann gerir það frekar en þess sem á undan fer að halda sig á einni akrein og fylgjast með baksýnisspeglunum. Akreinar eru reyndar ekki nærri því alltaf vel skilgreindar.
Þar sem hámarkshraði ökutækjanna hér að ofan er mjög mismunandi og þar sem þjóðvegir Indlands eru oft ekki nógu breiðir eða sléttir fyrir umferðina þarf ekki að koma á óvart að indverskir bílstjórar taka fram úr mjög reglulega. Hér virðist svolítið öðruvísi hugmyndafræði tíðkast við framúrakstur: Sá sem tekur fram úr gerir yfirleitt ráð fyrir því að þeir sem keyra á móti vilji frekar hægja ferðina snögglega eða keyra út í kant frekar en að lenda í alvarlegum árekstri. Það er því oft sem farartæki á eigin akrein þurfi að gefa réttinn yfir á þann sem tekur fram úr en hann er jú yfirleitt á meiri ferð og getur ekki farið á eigin akrein í miðjum framúrakstri. Áður en þeir gefa réttinn og bremsa blikka þeir þó ljósum og flauta í 1-2 sekúndur - sem stundum virðast 1-2 mínútur - til þess að láta ekki valta algjörlega yfir sig.

Andlát í umferðarslysum á Íslandi virðast ekki vera mikið færri en þau á Indlandi miðað við höfðatölu, merkilegt nokk. Það skal þó taka fram að höfðatölusamanburðurinn er eiginlega ónýtur sökum þess hve margir nota farartæki á Íslandi miðað við á Indlandi.

Þangað til nýlega hafði Indian Railways (IR) einokunarstöðu yfir lestarsamgöngum í landinu. Í dag hefur IR mestan fjölda starfsfólk í öllum heiminum og á ári hverju flytja lestir fyrirtækisins 6 milljarða manna og 750 milljón tonn af varningi.
Líkt og önnur farartæki í Indlandi eru lestirnar yfirfullar, þó eru aldrei fleiri farþegar í dýrari farrýmum lestanna en sem nemur sæta- eða beddafjölda. Þeir fátækustu nota tómar faraangursgeymslur lestanna til að ferðast á milli staða. Troðningur á ódýrustu farrýmum lestanna verður oft til þess að fólk dettur út úr lestunum á ferð og stórslasast. Sumir þessara óheppnu farþega stinga upp kollinum á Sewa hælinu (e. Sewa Ashram) sem ég heimsótti um daginn.

Sewa Ashram
Sewa hælið var stofna af kristnum Hollendingi sem dag einn í ferðalagi sínu í Indlandi ákvað að taka að sér hætt kominn þurfaling og flytja hann í herbergið sitt í Delhi. Hollendingurinn Ton, sem í dag er kallaður Ton Baba, stjórnar 120 manna hæli fyrir sjúka, slasaða, munaðarlausa og ósjálfbjarga þurfalinga sem hann finnur á sunnudagsrúntum sínum í Delhi.


Ton Baba (til vinstri)


Heimsókn mín í Sewa hælið var vægast sagt mögnuð lífsreynsla og jafnframt áhrifamesta lífsreynslan mín hérna úti. Af veikum mætti reyndi ég að hjálpa til í þá tvo daga sem ég gisti í Sewa hælinu. Meðal þess sem ég gerði var að taka myndir með það að markmiði að færa þær inn á myndasíðuna mína og vekja fólk til umhugsunar. Ég hjálpaði líka manni við að læra að ganga og aðstoðaði áströlsku vinkonu mína Erin í leikfimitímunum sem hún heldur fyrir íbúa hælisins. Sewa hælið þiggur frjáls framlög í gegnum heimasíðu sína.
Sjá nýtt myndaalbúm á síðunni minni fyrir frekari upplýsingar.


Daginn sem ég heimsótti hælið dó gamall maður sem Ton hafði nýlega fundið. Um þennan mann má lesa á bloggsíðu Erin. Myndbrot úr jarðarförinni er á youtube síðunni minni en myndir á myndasíðunni.

3 comments:

Gunnar Geir said...

Hef verið að endurraða myndaalbúmunum og búa til ný. Prufið að skoða t.d. "slædshowið" fyrir nýja Odd-one-out albúmið.

www.flickr.com/photos/gunnargeir

/sets/72157600062129916/show/

(copyið í tveimur skrefum)

bergbara said...

Þetta er ekkert smá magnað allt saman. Ég býð alltaf spennt eftir nýrri færslu og svo spilla myndirnar ekki fyrir sem eru bæði góðar og lýsandi get ég ímyndað mér. Hafðu það gott

Gunnar Geir said...

Takk vinan. Hlakka til ad sja ykkur!