Wednesday, March 07, 2007

Pakistan

Jahérna. Í nokkra daga, þangað til í dag, hef ég ekki komist inn á þessa síðu þó svo að þið hafið getað það.

Pakistanar og Indverjar eiga margt sameiginlegt eins og t.d. gestrisnina. Ekki eru nema 60 ár síðan að gamla Indlandi var skipt upp og það ævintýri byrjaði með ófriði og 2000 kílómetra girðingu.

Í Pakistan hef ég engar moskítóflugur séð en í stað þeirra lögregluþjóna í þúsundum. Sem betur fer eru þeir síðarnefndu ekki í felum í hótelherberginu mínu eins og flugurnar.
Í Pakistan eru asnar ekki eingöngu bjánar í umferðinni heldur líka dráttardýr í umferðinni. Segja má að ég hafi tekið annað skref aftur í tímann.

Ég kynntist svissneskum ungum manni hérna sem hefur hjólað alla leið frá Sviss til Pakistan. Í því felst að hjóla frá Sviss að landamærum Tyrklands, hjóla svo eftir endilöngu Tyrklandi og endilöngu Íran en Tyrkland og Íran eru RISAstór lönd. Hann hefur verið 6 mánuði á leiðinni og haft gaman að - þangað til hann kom til Pakistan. Á mörgum svæðum í Pakistan er þess krafist af ferðamönnum að þeir hafi með sér vopnaðan vörð. Á öðrum svæðum getur ferðamaður átt von á því að lögreglumenn krefjist þess að fá að vernda þá.
Lögreglumönnum við landamæri Írans og Pakistan fannst vinur okkar Steven eitthvað berskjaldaður og fylgdu honum því 1000 km leið til Lahore.
Ferðalagið tók hann um 4 vikur og allan tímann var lögreglubifreið á eftir honum. Á næturnar svaf hann í lögreglustöðvum og fékk yfirleitt mat sem lögreglumenn færðu honum - að ná í hann sjálfur var of ,,hættulegt" (bull). Oftar en einu sinni notuðu lögreglumenn bambusprikin sín til að fæla burt áhugasama Pakistana frá Steven, þrátt fyrir góðan ásetning Pakistananna og reiði Stevens. Steven virðist nokkuð taugatrektur eftir þennan Pakistan spotta og ætlar ekki að dvelja hér lengur en fara þess í stað beint til Indlands. Þegar hann kom hingað til Lahore spurði hann mig og aðra í fullri alvöru hvort hann mætti í alvöru fara einn út af hótelinu án lögreglufylgdar.

Ég hef spjallað við heilu hrúgurnar af áhugaverðu fólki. Sumir eru útlendingar sem koma aftur og aftur til Pakistan. Af þeim sem ég hef hitt í Lahore má helst nefna pakistanskan (kristinn) prest, nýsjálenska konu sem á gamals aldri ,,hitti" löngu dáinn múslimskan dýrling og gerðist múslimi, stofnanda hótelsins sem ég gisti í - fyrrum blaðamaður sem skrifaði hættulegar greinar í pakistönsk blöð og að lokum Englending sem hefur verið 4 ár á leiðinni í kringum hnöttinn á hjóli en segist eiga 5 ár framundan í að hjóla strandlengju Afríku.
Í Pakistan finnur maður ferðamenn sem þora að ferðast hvert sem er og þeir eru nánast alltaf einir á ferð. Fólkið sem gistir hérna núna hefur prufað allt! Íran, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Kasakstan, Úsbekistan, Kyrgistan, Afganistan, Tíbet...

Síðasti útlendingurinn sem var drepinn í Pakistan var frægur blaðamaður, gyðingur sem eltist við hryðjuverkamenn í suður Pakistan þangað til hann var drepinn um það bil árið 1997.

Pakistanar sem ég hef hitt hafa verið mjög leiðir yfir fordómum Evrópubúa gagnvart múslimum og Pakistönum. Þó að ég hafi kannski ekki verið fordómafullur gagnvart múslimum áður en ég kom hingað finn ég núna að margt hefur breyst í viðhorfum mínum gagnvart múslimum, Íslam og Pakistönum. Þessi breyttu viðhorf verða kannski efni í önnur innslög.

3 comments:

Anonymous said...

Hlakka til að lesa um breyttar hugmyndir gagnvart islam og múslimum og fleiru.
Kveðja, Heiða Björk

Anonymous said...

Ég var bara að komast að þessu bloggi þínu núna. Mjög svo skemmtilegt og áhugavert að lesa um ferðir þínar á fjarlægum slóðum og mikið eru myndirnar þínar fallegar.

Gunnar Geir said...

Heiða: Ég mun gera mitt besta.

Ella: Vertu velkomin og takk fyrir!

Nýjar myndir og vídeo komin inn og fleiri á leiðinni.