Saturday, May 10, 2008

Í upphafi ferðar...

Þann 2. júní næstkomandi á ég bókað flug til Beijing - aðra leið. Í ferðalagi mínu í Suður-Asíu í fyrra gat ég ómögulega fengið sjálfan mig til þess að skipuleggja ferðina mína upp á dag og eitthvað lítur út fyrir að ég verði jafn óskipulagður í þessari ferð. Ávinningurinn af skipulagsleysi, eins og ég upplifi hann, er frelsi til þess að vera lengur þar sem mér lýst vel á stað, stund eða fólk sem ég kynnist. Ókosturinn er meiri kostnaður við samgöngur.

Næsta haust flyt ég til vesturstrandar Kanada, nánar tiltekið Vancouver í Bresku Kólumbíu. Þar ætla ég að demba mér í frammhaldsnám í heimfærðri stærðfræði og þarf ég að mæta í skólann 2. september. Þar sem leit að góðu leiguhúsnæði gerist ekki að sjálfu sér, þarf ég á einhverjum tímapunkti að setjast niður og fínkemba þessa tveggja milljón manna borg eftir góðu húsnæði. Þetta gæti sett ferðalaginu einhverjar skorður.

Ég hef 20 daga vegabréfsáritun í Kína, sem þýðir að ég verð að hypja mig yfir til Mongólíu í seinni hluta Júní.

Mongólía
Til að byrja með, þarf kannski að taka fram að Innri Mongólía er hérað í Kína á meðan Mongólía er sjálfstætt ríki fyrir norðan Kína og sunnan Síberíu. Mongólía telst vera strjálbýlasta sjálfstæða ríkið í heiminum með um 1.7 íbúa á hverjum ferkílómetra. Á Íslandi búa næstum því tvisvar sinnum fleiri á hverjum ferkílómetra eða 3 á hvern ferkílómetra (eins og í Síberíu). Í Mongólíu búa aðeins 2.9 milljónir manna á landsvæði sem myndi þekja ein 14 "Íslönd". Til samanburðar réðu Mongólar árið 1279 yfir stærsta samfellda landssvæðinu í sögu mannkyns, eða 33 milljónum ferkílómetra (Sovétríkin þöktu um 22 millj. ferkílómetra til samanburðar).

Það má segja að ég sé að fara öfganna á milli með því að velja Mongólíu sem þungamiðju nú, eftir að hafa heimsótt eitt þéttbýlasta land í heimi í fyrra, Indland.

Í Mongólíu vonast ég til þess að geta notið víðáttu landsins, skelt mér á bak mongólska hestsins og ímyndað mér að ég sé Genghis Khan.....áður en hann varð blóðþyrstur vitfirringur...... og vonandi rekist á einn eða tvo Mongóla til að spjalla við. Tungumálaörðugleikar verða sjálfsagt einhverjir því algengara er að Mongóli kunni rússnesku en ensku.

Í framandi landi finnast fyrirbæri sem geta verið fávísum gesti hættuleg. Heyrst hefur að ég hljóti nú að vera öruggari á þeim svæðum sem ég stefni á núna, fyrir utan kannski Síberíu, sem ég heimsæki mögulega í þessari ferð. Nokkuð ljóst er að hryðjuverkaógnin hefur skapað splunknýjar víddir í heilabúi okkar til að öðlast ótta á framandi stöðum sem og stöðum í okkar nánasta umhverfi. Reyndar er ótti ekki eingöngu bundinn við staði, heldur aðstæður, fólk, dýr og sláttuvélar.

Þegar ég lít til baka og hugsa um þau augnablik sem mögulega voru hættuleg í Indlandi, Pakistan og Nepal, er alveg ljóst í mínum huga að götuhundar fannst mér líklegastir til að bíta mig og smita, og verða til þess að ég félli, með lafandi tungu, á fjóra fætur og aðstoðaði aðra hunda í æði þeirra til að bíta túrista. Það kemur í ljós að fleiri létust í fyrra af völdum hundaæðis en í hriðjuverkaárásum, 55.000 á móti 28.000. Í Indlandi ríkir einmitt mesta æðið.
Carcase
Götuhundar gæða sér á kúahræi fyrir utan Sewa Ashramið í Delhi.

Margar nætur átti ég erfitt með svefn út af rifrildum á milli hundagengja í Indlandi. Ekki hefði mér þótt verra ef hundar þessir sæu sóma sinn í að ræða þessi mál eins og menn, og þá helst að degi til. Flestir túristar sem ég hitti voru ekki jafn hræddir og ég við að ganga óupplýstar götur í niðamirkri þar sem ég vissi að hundar héldu sig. Hundar þessir voru látnir sofa á götunni, og samkvæmt skilgreiningu voru þeir því götuhundar og í mínum huga smitaðir af hundaæði.

Reyndar hef ég það sterklega á tilfinningunni að hundur sem smitaður er af hundaæði sé ekki hæfur til þess að eiga eðlileg samskipti (voff ,voff) við heilbrigða hunda, hvað þá að taka þátt í þeirri slungnu pólitík sem verndun og viðhald pissusvæða er. Að öllum líkindum voru háværustu hundarnir sem eltu mig og geltu aðeins að hafa áhyggjur af styrk þvagefnis í andrúmsloftinu og mögulega að ögra þeim sem þeir fundu að var hræddur við þá eða of fífldjarfur að horfa í augu þeirra í gegnum linsu. Eðlismunur var á flótta túristans sem datt á rassinn eða leitaði aðstoðar hjá börnum en hjá blessuðum beljunum sem mjökuðu sér í miklu æðruleysi yfir á þvagminni stað. Ekki stingur maður hund af á hlaupum, það vissu kýrnar.
Smellið á myndina til að lesa um atburðarrásina.

3 comments:

hallurth said...

sláttuvélar? jahá...

Anonymous said...

I am really Glad i came across this site.Added gunnargeir.blogspot.com to my bookmark!

Anonymous said...

I am really Glad i discovered this website.Added gunnargeir.blogspot.com to my bookmark!