Monday, May 01, 2017

Mánudaginn

Vekjari

Wednesday, July 16, 2008

Síbería

Ég er staddur í Tomsk í Síberíu. Ég yfirgaf Mongólíu með litlum fyrirvara þann 7. júlí síðastliðinn og hóf þá fyrir alvöru hina miklu lestarferð til Moskvu með 36 klukkustunda ferð til Irkutsk. Krasnoyarsk var næsti viðkomustaður, nú Tomsk og næst er það Yekaterinborg. Vegabréfsáritunin mín gildir til 30. júlí svo ég get ekki stoppað lengi í þessum stöðum.

Ýmislegt hefur á daga mína drifið síðan ég færði mig yfir landamærin og ég á satt að segja í vandræðum með að velja hverju á að segja frá. Á ég að segja frá

-Sex daga ferðalaginu í Mongólíu með bandarísku bræðrunum eða
-Ferðinni í villi-hestaþjóðgarðinn þar sem ég hljóp upp á hól og rakst á tvo villihesta eða kannski
-Pólitíkinni sem ríkti á milli rússnesku stúlknanna sem unnu a gistiheimilinu á Olkhon eyju í Baikal vatni og börðust um hilli ferðalanga, jaa eða
-Rússneska námuverkfræðingnum sem ég deildi klefa með frá Mongólíu til Irkutsk og þáði af soðnar kartöflur og ótæpilegt magn af afskaplega 'hreinum' vodka
-Hvernig er að deila litlu rými (og mat) með slatta af rússum á þriðja farrými í yfir 30 stiga hita þar sem ekki er hægt að opna glugga, kannski ég segi frá því
-Hvernig var að baða sig berrassaður í 8 stiga heitu Baikal vatni með dönsku strákunum fyrir framan áhorfendur eða
-Hve afskaplega efnislítil föt rússneskra kvenna eru og náttúrulegum líkamsvexti (í samanburði við fyrri lönd) eða
-Frá hinum frábæra Boris sem reykti sígarettu fyrir hvern genginn kílómetra í fallegum þjóðgarði í Krasnoyarsk sem hann leiddi okkur í gegnum og þaðan á veitingahús með vinafólki sínu og konu
?

Það er alveg ljóst að ferðalag er ekki það sama og texti á blaði eða vefsíðu, jafnvel þó að myndir fylgji með. Eitthvað hefur verið lítið um skrif á þessari síðu undanfarið, aðalega sökum ferðalags míns til hinnar afskektu Olkhon eyju þar sem gervihnattasambandið var allt að því ónothæft
'spútník, njed'
Í öllu falli getur hver sem er spurt mig út í ofangreind atriði þegar ég kem heim 'rétt eftir' mánaðarmótin.

Eins hefur nánast stanslaus félagsskapur minn við aðra ferðafélaga síðan í enda júní orðið til þess að ég hafi minni nettíma. Það er t.d. ástæðan fyrir því að ég þarf að skrifa þennan texta með hraði til að fara og hitta hinn ástralska ferðafélaga minn 'Wez' og hinn rússneska Constantin sem við hittum í lestinni í nótt. Hann ætlar auk þess að finna túlk hér í Tomsk og vini til að hitta okkur í dag og í kvöld.

Thursday, June 26, 2008

Mongólía og óeirðirnar í Ulaanbaatar

Ég er kominn til höfuðborgar Mongólíu, Ulaanbaatar. Sovétmenn gáfu borginni nafnið sem stundum er skrifað Ulan Bator og þýðir 'rauða hetjan'. Á leið minni norður frá Beijing fór ég með rútu að mongólsku landamærunum og tók svo lest þaðan í áttina að Ulaanbaatar. Í síðustu færslu minntist ég á möguleikann á því að fara úr lestinni í bænum Choir, um 250 km frá Ulaanbaatar. Mongólskur lögfræðingur sagði mér hins vegar í lestinni að stoppað yrði í Choir um miðja nótt eða klukkan 4 um nótt og því leyst mér ekki svo vel á það.
Choir
Um nóttina vildi hins vegar þannig til að ég þurfti að fara á klósettið klukkan hálf fjögur og á endanum safnaði ég kjarki í að pakka saman og hoppa út í myrkrið. Auðvitað yfirgáfu nokkrar hræður lestina á sama tíma sem ég hengdi mig á og fékk til að benda mér á hótel. Úti var nokkuð kalt en á endanum fannst gistiheimili sem var reyndar fullt en ég var settur í herbergi með þremur hrjótandi trukkabílstjórum og svaf þar fram á morgun á dýnu á gólfinu. Konan sem rak gistiheimilið kunni enga ensku og var því frekar óróleg yfir þessu öllu saman. Um morguninn hringdi hún hins vegar í vinkonu sína, enskukennarann í bænum, sem kom á gistiheimilið í þann mund sem ég þurkaði stírurnar úr augunum. Eftir nokkuð fábrotnar samræður kom ég til skila til þessarar indælu konu að ég hafði aðeins ætlað að gista eina nótt og hefði áhuga á að sjá sovéska flugvöllinn í þorpinu. Þá kom hins vegar í ljós að ferðahandbækurnar væru ekki réttar hvað þetta varðar og að ég væri annar túristinn sem félli fyrir þessu á síðasta ári. Flugvöllurinn var í reynd í næsta þorpi, í um 25 km fjarlægð, þar sem enga hótelgistingu eða matsölustaði væri að finna.
Tveir strákar í Choir
Tveir drengir í Choir. Strákurinn til hægri hafði ekki bara sítt hár heldur fléttur í hárinu. Sumir Mongólar trúa því að með því að dulbúa drengi sem stúlkur hafi illir andar minni áhuga á að drepa þá, því meiri skaði hlytist af því að drepa strák.
Þegar á móti blæs getur verið gott að fá sér að borða. Ég skundaði því á veitingahús bæjarins og fékk mér það sem var á boðstólnum þar, lambakjöt. Þannig vildi reyndar til að lambakjöt var nákvæmlega það sem ég borðaði í kvöldmat og hádegisverð daginn áður og varð einmitt það sem ég snæddi á leið minni til Ulaanbaatar seinna um daginn. Þegar þetta er skrifað hef ég eytt um 8 dögum úti á landi í Mongólíu og hef alltaf fengið máltíð þar sem lambakjöt var í aðalhlutverki.
Eftir morgunmatinn tók ég nokkrar myndir af bæjarbúum og bænum sjálfum en tók svo rútu í átt að Ulaanbaatar sem reyndar stoppaði í skamma stund í grennd við flugvöllinn. Það eina sem virtist vera eftir af flugvellinum voru hinsvegar kommúnistablokkir hermannanna því Mongólar hafa fyrir löngu tekið allt heilnæmt af svæðinu, stál og steypuplattana sem mynduðu flugbrautina, eða þannig skildi ég ástandið allavega.
Fyrrverandi íbúðarhúsnæði sovéskra hermanna við flugvöllinn
Ég held áfram að kynnast ótrúlegum samferðalöngum. Í gær kynntist ég mexíkóbúa sem hefur verið að ferðast í 4 ár. Af og til sest hann niður og skrifar barnasögur sem hann hefur komið í sölu í Mexíkó og nýlega Bandaríkjunum. Daginn áður kynntist ég líka þremur katalóníubúum sem höfðu komið hjólandi frá Ulan Ude, sem er síberíumegin við Mongólsku landamærin, til Ulaanbaatar. Héðan ætla þau helst að reyna að komast landleiðina til Indlands sem í dag er svolítið erfitt því þau þurfa nauðsynlega að fara í gegnum Pakistan, Búrma eða Tíbet. Tíbet er og verður lokað fram yfir Ólympíuleikana á meðan vegabréfsáritun fyrir Búrma er háð geðþóttaákvörðunum og loks hefur Pakistan átt í innanlandsvandræðum sem gætu aukist þegar Pervez Musharaf er bolað úr forsetastól.

En mikið er ég ánægður með Mongólíu.
Í Kína og mörgum öðrum löndum virðist túrisminn að miklu leiti ganga út á að skoða minjar óréttlátra valdhafa sögunnar. Í Kína hafa þeir hæst settu aldeilis haft um auðugan garð að gresja í fjölmennu og frjósömu landi. Mongólía er hins vegar bæði fámennt og strjálbýlt land sem hefur að þessum sökum ekki haft bolmagn til að smíða stórfenglegar minjar. Mongólar misstu auk þess nær öll sín búddísku klaustur í stalinísku ofsóknunum 1937-1939 ásamt prestastéttinni.

En hvað er það þá sem Mongólía býður upp á?
Landið,
og ekkert smá land það, ein 14 'Íslönd'.
Kína getur auðveldlega boðið ferðamönnum upp á ósnortið land eins og hin strjálbýla Mongólía en af ýmsum ástæðum hafa lautarferðir ferðamanna fallið í skuggann af afurðum sjálf miðaðra keisara Kína. Þetta þýðir að flestar ferðahandbækur og ferðamannaiðnaður söguminja-ríkra þjóða snýst að miklu leiti um minjarnar og stórborgirnar sem hýsa þær. Þar sem þessu er ekki til að dreifa í Mongólíu, hefur ferðamannaiðnaðurinn hér snúist um ferðalög út á land.

Ísland og Mongólía eiga margt sameiginlegt. Ísland er fámennt og strjálbýlt og hefur því ekki haft bolmagn til að byggja stórfenglega minjar.
Danir höfðu lítinn áhuga á að smíða hér eitthvað stórfenglegt og því miður ekki einu sinni járnbrautakerfi. Allt frá sjálfstæði okkar höfum við ef til vill líka verið heppin með stjórnarfar sem mögulega hefur komið í veg fyrir rugl eins og 76 metra gullstyttu af Davíð Oddssyni á Skólavörðuholti.
Ísland og Mongólía eru bæði mjög háð innflutningi frá nágrannalöndum en eiga þó hráar uppsprettur úr jörðinni. Erlend stórfyrirtæki hafa áhuga á auðæfum landanna beggja við takmarkaðar vinsældir íbúa þeirra. Landslagið sem ég sá í nánast trjálausri mið-Mongólíu var um margt mjög líkt því íslenska. Þar sá ég rautt berg og hóla, helluhraun og mosa, ásamt mjög svipaðri villigrasaflóru, sbr. myndir sem ég hendi inn á myndasíðuna seinna. Lambakjöt og mjólkurafurðir höfum við innbyrt á Íslandi í gegnum aldirnar og aðhilst frekar einfalda matseld og notast við frekar litla hesta, rétt eins og Mongólar.

Gamlar Fréttir
Á sama tíma og ég ræddi við mongólskan leiðsögumann um tilgangsleysi mongólska hersins í fjalladal vestur af Ulaanbaatar fóru hundruðir manna berserksgang í miðborginni. Óeirðirnar komu í kjölfarið af frumniðurstöðum kosninga hér í landi sem féllu núverandi ríkisstjórn í vil. Fimm manns létu lífið, hundruðir særðust og 4000 málverk brunnu inni í þjóðlistasafni borgarinnar. Múgurinn hafði fyrr um daginn mótmælt kosningasvindli í miðborginni en síðar um kvöldið þegar nokkrar vodkaflöskur höfðu verið tæmdar og jarðýta lék lausum hala fyrir utan húsnæði flokksins sem fékk meirihluta atkvæða fór heldur að færast hasar í leikinn. Að lokum voru hurðir húsnæðisins brotnar upp með jarðýtunni og það sem ekki var brennt var stolið úr húsnæðinu. Því miður var þjóðlistasafnið í næsta húsnæði, án þess þó að vera samvaxið flokkshúsnæðinu, og fékk ekki að vera í friði með áðurgreindum afleiðingum. Einn ferðamaður á gistihúsinu mínu hér í bæ var víst í miðju mannhafinu og þurfti að leita sér hjálpar daginn eftir út af reykeitrun. Hann gerðist svo fífldjarfur að fara inn í brennandi húsið til að taka myndir af glæpamönnum í verki, en slapp einhverra hluta vegna. Einn Víetnami var barinn ansi illa fyrir það eitt að líta út eins og Kínverji.

Í miðborg Ulaanbaatar ríkir útgöngubann frá klukkan 10 á kvöldin, þungvopnaðir hermenn og lögreglumenn eru hér við hvert götuhorn, áfengissala er bönnuð og aðeins ríkissjónvarpið hefur leyfi til útsendinga. Ekki er þó útlit fyrir meiri hasar enda sýnist mér að flestir fordæmi skemmdarverkinn harðlega og allt bendir til þess að útgöngubanninu ljúki á morgun. Það sem virðist hafa gert mótmælin jafn öfgafull og raun bar vitni eru hagsmunir Mongóla í pólitísku þrætuepli um einkavæðingu námuvinnsla landsins og þreyta gagnvart spillingu stjórnmálamanna. Á síðustu árum hefur verið mikill uppgangur í námuvinnslu landsins. Hér hafa fundist ýmsir verðmæti málmar eins og t.d. úraníum.

Saturday, June 21, 2008

Lok Kínaferðar

Matmálstímar á ferðalögum mínum eru yfirleitt eins konar hátíðir hjá mér. Ég geri alltaf ráð fyrir því að ég finni mér eitthvað gott að borða og ef mér tekst það ekki verð ég oft fyrir vonbrigðum. Morgunmaturinn er í þessu samhengi ekki bara mikilvægur næringarfræðilega séð - það er eins gott að leggja ekki af stað með skeifu í framan að morgni dags : ( .

Ég ligg á meltunni við sundlaugarbakka í Dali-borg í suð-vestur Kína og sé fram á að geta jafnvel klárað það sem ég á eftir af banana-hafragrautnum sem ég pantaði ásamt perusafa og hrúgu af ávöxtum með jógúrti og múslí. Þetta telst þó varla til afreka sé miðað við allan matinn sem ég át í gærkvöldi! Loftslagið í Yunnan héraði - sem Dali er í - telst nokkuð þægilegra en í Guilin, Guangxi á þessum árstíma, þar sem stór hluti þess er hátt yfir sjávarmáli. Dali er til dæmis í 2000 metra hæð. Ég er þreyttur og brunninn bæði á sál og líkama eftir hjólatúr án sólarvarnar í gær og mikillar samveru við þýska túrista sem fluttu sig yfir til Víetnam nú í morgun. Lífsrúm hefur fengið nýja merkingu fyrir mér.

Stúlka í Xi'an. Talsvert auðveldara er að fá leyfi til að mynda börn en fullorðið fólk hérna.


Bogamaður

Eftir leirmennina í Xi'an og portrait myndatökur flaug ég til Guilin í suður Kína. Þaðan hafði ég ætlað mér að fara til Yangshou sem er mjög vinsæll áfangastaður bakpokalýðs sökum girnilegra pönnukaka og jú, ótrúlegs landslags. Ótrúlegir kalksteinstindar umkringja Yangshou en þá má sjá víðar en þar, t.d. hér í Guilin. Úr ferð minni til Yangshou varð þó ekki því einhverjar mestu rigningar í manna minnum gengu þá yfir suður-Kína. Þúsundir heimila skemmdust þegar ár flæddu yfir bakka sína.' 'Kalktoppar' í Guilin
Rigningarnar höfðu svo sem lítil áhrif á mig, fyrir utan að tefja mig á leið minni af flugvellinum um klukkutíma, og gerðu reyndar hjólaferð mína og Þjóðverjanna í Guilin ansi skemmtilega. Við lentum marg sinnis í því að þurfa að snúa við þegar mittisháir 'pollar' ætluðu engan enda að taka. Í Yangshou var víst svolítil ringulreið í kjölfar rigninganna og því fylgdi ég frekar Þjóðverjunum vestur.


Lögreglan leysir úr umferðahnút á einum aðal'veginum' í Guilin


Þjóðverjarnir

Stundum er ekkert grín að vera ferðamaður. Ég þarf til dæmis að setja mig inn í ótal hluti eins og hvernig á að komast frá A til B eða hvernig á að segja 'Halló'. Þegar ég færi mig yfir til Mongólíu get ég allt eins gleymt öllu því sem ég hef lært í mandarín, þ.e. 'Halló' og 'Takk'. Að segja bless hefur reynst mér og fleirum allt of erfitt og því segi ég bara takk í staðinn. Hingað til hef ég oft sýnt með látbragði mínu hvers ég leita eða hvað mig vanhagar um. Því hefur þjálfun mín í látbragðsspilinu Actionary komið að góðum notum. Því miður eru mótspilarar mínir hér ekki alltaf jafn góðir og gera bara ráð fyrir því að fyrstu sekúndu að þeir munu ekki ná að skilja neina tjáningu af minni hálfu, enda líklegast aldrei spilað Actionary. Þetta getur verið neyðarlegt þegar ég spyr um næsta klósett. Í Actionary er bannað að gefa frá sér hljóð þegar menn leika. Hér er það leyfilegt. Þó að öll mandarískan mín fari væntanlega forgörðum í Mongólíu að þá er hughreystandi að vita til þess að þeir nota kýrilískt letur eins og Rússarnir.

Kínverskt letur

Þegar þessi texti er sleginn inn er ég aftur kominn til Beijing og aðeins rúmur klukkutími í að ég legg í næstum 2 daga ferðalag til Ulan Baatar. Hver veit nema ég hoppi út í Choir, áður en ég kem til Ulan Baatar. Þar búa aðeins um 8000 manns sem væri því talsverð - og mögulega kærkomin tilbreyting frá áfangastöðum mínum hingað til. Hluta af ferðinni neyðist ég til þess að fara í rútu þar sem kindlaberar ólympíuleikanna eru að nota eina lestina á flakki sínu um Kína. Nýlega komu þeir við í Lhasa, Tíbet og var fagnað ákaft af þeim sem höfðu verið valdir til þess. Ferðamenn geta ekki heimsótt Tíbet og aðeins valdir blaðamenn mega það. Einn af þessum völdu blaðamönnum kemur fyrir í myndskeiði Reuters sem fylgir þessari mbl.is frétt.

Ég hef sett inn tvö stutt myndskeið á youtube vefinn minn (sjá krækju hér til hægri), þeim fjölgar vonandi þegar ég finn tölvu sem getur hent þessu á vefinn á stuttum tíma.





Bestu kveðjur,

Gunnar Geir