Ég var að koma úr afmæli þriggja ára nepalskrar stúlku. Hún er dóttir leiðsögumannsins sem fylgdi mér upp og niður Langtang dalinn. Langtang dalurinn er einn af þremur vinsælustu göngusvæðum túrista í Nepal. Annað frægt göngusvæði er Evrestsvæðið en Nepal hefur að geyma 8 af 10 hæstu tindum heimsins - algjör einokun.
Í göngunni miklu, sem þó telst fremur stutt miðað við ferðir sumra göngugarpa hér, ætlaði ég mér að komast upp í a.m.k. helming hæðar Everest tinds eða um 4400 metra hæð. Strandbæjarpésinn hann ég dreif þó ekki upp í nema 4000 metra hæð og var þá kominn með stífann höfuðverk. Ég vildi ekki taka hæðarlyfin sem ég hafði meðferðist frá Íslandi né heldur verkjalyf sem mér stóðu til boða og því gekk ég með höfuðverk til baka daginn eftir. Hæðarlyf á reyndar ekki að nota til að fara hærra og á helst ekki að nota til að sleppa því að fara niður - þau eru því yfirleitt gagnslaus.
Í Langtang dalnum gisti ég á fjórum mismunandi stöðum; í 1500 metra hæð, því næst 2420 metra hæð, svo 3400 metra hæð og loks 3750 metra hæð. Hæsta gistiplássið í dalnum var sem sagt í 3750 metra hæð og þar fór ég að finna fyrir höfuðverk eftir nokkurra tíma viðveru. Ég náði þó að ganga upp á lítinn hrygg sem virðist klemmdur milli tveggja skriðjökla á veturna. Eitt af stærstu vandamálum heimsins varðandi gróðurhúsaáhrif er rýrnun jöklanna sem sjá Suður-Asíubúum fyrir vatni. Skriðjöklarnir sem ég sá virtust sannarlega vera á undanhaldi (myndir verða settar inn seinna).
Til að komast í grennd við Langtang dalinn tók ég 10-tíma rútu sem hossaðist hálfa leið á malbiki en hoppaði restina á afleitum vegum. Ferðin var óvenju skemmtileg. Ég átti m.a. góðar stundir uppi á þaki rútunnar með tveimur geitum (myndbrot verður birt á youtube á næstu tveimur vikum).
Leiðsögumaðurinn minn kæri, Raj, hughreysti mig með því að í næsta gistihús væri aðeins eins og hálfs klukkustunda ganga og því gekk ég af stað. Um 10 kílómetrum og fáeinum magauppreisnum seinna auk þúsund metrum hærra og nokkrum gistihúsum lengra komst ég á áfangastað fyrsta dagsins. Ég hafði þá gengið í um 6 klukkustundir upp og niður hæðir á tómum tanki og var gjörsamlega úrvinda á leiðarenda. Ég var mjög ánægður með að hafa náð fyrsta áfangastað því ég hef aldrei keyrt mig jafn mikið áfram með svo litla orku í kroppinum og auk þess með bakpokann minn á bakinu (ég afþakkaði burðarmenn þrjóskunar vegna). Með öðrum orðum: Segið húrra fyrir mér!
Næsta dag vaknaði ég eiturhress, hljóp af stað og kláraði dag tvö á góðum tíma. Á þriðja degi var ég orkuminni því háloftaveikin var farin að gera vart við sig og þeim degi lauk með fyrrgreindum afleiðingum.
Mín fyrsta alvöru fjallganga var aldeilis ekki hræðileg lífsreynsla þó að svo megi auðveldlega skilja það sem skrifað er hér fyrir ofan. Fyrsti dagurinn var reyndar ekkert sérstaklega 'ánægjulegur'.
Vindurinn dreifir Buddha-bænum um Langtang dalinn með því að blása á bænaflögginÚtsýnið á leiðinni var fallegt og 6000 metra hvítir tindar virtust á hverju strái. Ég held ég hefði líklegast notið þeirra betur ef ég hefði ekki gengið jafn hratt og ég gerði. Leiðsögumanninum mínum og nokkrum öðrum kynntist ég á leiðinni:
Raj er forseti lítilla samtaka sem fjármagna fátæk börn í námi og taka að sér fræðslu fullorðinna. Ein saga Raj gaf mér betri skilning á þörf Nepala (og annarra) fyrir menntun: Á námskeiði samtakanna fyrir fátæka bændur um getnaðarvarnir sýndi fræðslufulltrúi nokkur hvernig nota ætti smokkinn. Til að gæta velsæmis lét hann þó duga að setja smokk á þumalputtann á sér. Nokkrum mánuðum seinna hitti fræðslufulltrúinn óánægðann fyrrum nemanda sem átti ólétta konu. Þá kom í ljós að nemandinn hafði alltaf sett smokkinn á þumalinn en ekki getnaðarliminn.
Við Raj hittum á ferð okkar 12 ára dreng sem fylgdi okkur upp í hæsta fjallaþorpið. Hann á fimm systkini og hafði verið sendur til að vinna fyrir hjón í hóteli/teskála fyrir um 1000 krónur á mánuði (sem sendar eru til fátæku foreldranna nánast óskertar). Á venjulegum degi þvær hann upp og heggur við meðal annars auk þess sem hann gengur með túristum upp dalinn til að reyna að fá þá til að stunda viðskipti við svefn- og teskála sem þá greiða hótelinu hans fyrir. Þessi drengur hefur ekki kost á því að fara í skóla því vinnuveitendur hans taka það ekki í mál - það er reyndar ólöglegt. Raj ætlaði að reyna að finna heimili í Kathmandu fyrir drenginn þar sem hann getur bæði unnið og gengið í skóla, en hann er auðvitað einn af mörgum börnum fátækra foreldra sem neyðast til að senda þau að heiman. Ég mun verða í sambandi við Raj vegna þess að ég kosta tvö systkin í námi í gegnum samtökin hans og reyni að pressa á hann að finna gott heimili fyrir blessaðan drenginn. Einn daginn spurði hann Raj ,,bróðir, getur þú hjálpað mér héðan burt? Ég vil fara í skóla".
Ég man satt að segja ekki hvað drengurinn heitir en þegar ég horfi á myndina hér að neðan rifja ég upp þegar ég fylgdist með honum á fimmta deginum í laumi út um glugga á einum teskálanum. Hann hafði lokið við að vaska upp í jökulvatninu og kynda upp í skálanum og stóð því við göngustíginn og svipaðist um eftir túristum (til að bjóða í teskálann). Ég reyndi að skilja hvað drengur í þessari stöðu á þessum undarlega stað hugsaði um í frístundum sínum og hvort hann ætti einhverja vini eða vinkonur sem hann gæti spjallað við ef hann á annað borð hefði leyfi til þess. Ég fylgdist með fjórum eldri strákum sem sáu um teskála hinum megin við göngustíginn kalla á vin okkar einhver ókvæðisorð. Ég heyrði ekkert sem þeim fór á milli en ég sá og skildi nokkurn vegin hvað fólst í því sem eldri drengirnir sögðu. Þegar vinur okkar leit niður og reyndi að brosa yfir gríninu sem var á hans kostnað fann ég fyrir óþægindum sem gáfu til kynna hve nálægt þessir fáu dagar höfðu fært mig þessum dreng. Margir þeir sem hafa orðið á vegi mínum í þessu ferðalagi áttu í töluvert meiri erfiðleikum en vinur okkar í kókbolnum. Fáir urðu mér þó jafn kærkomnir sökum þess að ég hitti þá aðeins í skamma stund.
Raj (t.v.) og drengurinn síbrosandiRaj aðhyllist kommúnisma en kommúnistar eiga 5 sæti, líkt og Maóistar, á 22 manna þingi Nepala. Raj vill meina að rétta leiðin fyrir Nepal til að gerast lýðræðisríki sé að kjósa kommúnista. Hóteleigandi sem ég spjallaði við í Pokhara eftir fjallgönguna vildi meina að margir Nepalar hefðu enga hugmynd um hvað kommúnismi og maóismi gengju út á. Margir þættir hafa skemmt ímynd hinna flokkanna sem eru á þingi. Til að byrja með hafa þeir þurft að vera hliðhollir konunginum í langan tíma og hafa þurft nokkuð mikla hvatningu til hætta því. Í öðru lagi er núverandi forsætisráðherra 84 ára að aldri og virðist eðlilega ekki vera rétti maðurinn til að leiða hið Nýja Nepal til lýðræðis. Önnur ástæða eru lág laun þingmanna, 4000 krónur á mánuði án ellilífeyris, sem hefur skemmt orðspor eldri flokkanna með spillingarmálum. Aldursdýrkun verður líka til þess að steingervingar sitja í efstu sætum.
Konungurinn fékk áður rúmlega 200 miljónir á mánuði en eftir að hann var gerður valdlaus voru launin lækkuð í um 120 milljónir á mánuði.
Eftir fjallgönguferðina fór ég í 6 daga reisu vestur til Pokhara og Bandipur. Bandipur er æðislegt þorp, byggt á fjallahrygg ekki langt frá dásamlegum hvítum 6000+ tindum. Á aðalgötu Bandipur sjást fáir túristar en hundruðir skólabarna þegar skólar þorpsins opna og loka dyrum sínum. Ég var ansi hissa á, að því er virtist, ótrúlegri kynorku bæjarbúa - fyrir hvert hús í þorpinu sá ég 10 börn á aldrinum 6 til 15. Seinna heyrði ég að japanskar nunnur hafi opnað kaþólskan skóla í þorpinu á sjötta áratug síðustu aldar. Fleiri kristnir skólar hafi svo fylgt í kjölfarið þegar hróður fyrsta skólans barst um sveitirnar og börn fluttust í heimavistir þorpsins - sem útskýrir barnafjöldann. Upphaflega ætlaði ég að stoppa við í einn sólarhring í Bandipur en átti á endanum þrjá frábæra daga.
Pokhara er ein vinsælasta túristaborgin í Nepal. Vegurinn til Pokhara var ekkert annað en slóði þegar svissneskur ,,landkönnuður" ,,uppgötvaði" þorpið, sem þá var, á sjötta áratugnum. Í dag er Pokhara álíka fjölmenn og Reykjavík. Bæði í Pokhara og Bandipur stundaði ég einhverskonar útivist, þ.e. hjólaði og gekk upp á nærliggjandi hóla og tók myndir með nýju linsunni sem ég hafði keypt nokkrum dögum áður.
Þann 10. maí flaug ég frá Kathmandu til Delhi, þaðan til London og loks til Keflavíkur. Alls tók ferðlagið um 24 klukkustundir. Á flugvellinum í Delhi átti ég góða stund þegar fulltrúar flugfélagsins Jet Airways tóku eftir því að í vegabréfi mínu var pakistanskur stimpill. Eftir smá yfirheyrslu um hvað ég hafi viljað til Pakistans og svo Indlands reyndu þeir hvað þeir gátu að finna eitthvað að vegabréfinu mínu, t.d. þeirri staðreynd að enginn enskur stimpill er í vegabréfinu þrátt fyrir millilendingu mína í Englandi áður en ég heimsótti Indland. Eftir útskýringar vísuðu þeir mér beint í flugvélina - Pakistana sleikjur eru ekki vinsælar hjá sumum Indverjum. Jet Airways er annars frábært flugfélag.
Ég hugðist eyða 8. og 9. maí í Kathmandu til að kaupa gjafir en náði að rumpa því af á 4 klukkustundum og ákvað í skyndi að fara í eina loka raftingferð 9. maí, þá þriðju í ferðinni. Ferðin var ágæt og búlgarski hópurinn, sem ekki vissi hvað 'forward' eða 'backward' þýddi, ógleymanlegur.
Ég er kominn aftur til Íslands og þessi færsla er mögulega næstsíðasta færslan um ferðina. Auðvitað hefur ferðin haft mikil áhrif á mig eins og hún átti að gera svo að ég get engu lofað um að innslög í náinni framtíð verði ekki innblásin af ferðinni á einhvern hátt. Ég er farinn að vinna á veðurstofunni við jarðskjálftarannsóknir (??) og hef í dag aðlagast lífinu á Íslandi. Hvað varðar seinasta innslagið um ferðalagið í Suður-Asíu að þá finnst mér ég skulda færslu um trúarbrögðin í Suður-Asíu eins og þau birtust mér.
Ég mun halda áfram að senda inn myndir á myndasíðuna og fáein myndbrot á youtube síðuna. Þar sem ég er farinn að vanda mig meira eftir að ég kom heim við tölvuvinnslu á myndunum mun ég líklegast geta lifað á því safni sem ég á enn eftir í nokkrar vikur.
Ég mun halda áfram að senda inn færslur á þessa síðu þó að sendingarnar gætu orðið jafnvel óreglulegri en áður.



Venjulega eru öll þessi farartæki yfirhlaðin af mönnum og varningi og oft eru fólksflutningafarartæki líka notuð fyrir flutning á varningi og eins eru flutningabifreiðar notaðar til fólksflutninga.
Þegar varningur er fluttur á milli staða í trukkum, traktorum, vagni dregnum af húsdýri eða flutnings-rickshaw er allt gert til að troða sem mestu í pallana og framlengja þá uppávið.
Eðlilega gengur indverska umferðin stundum hægt fyrir sig, sama hve mikið menn flauta. Flautan gegnir mikilvægu hlutverki í Indlandi því hér nota menn varla baksýnisspegla. Það virðist á ábyrgð þess sem tekur fram úr að flauta áður en hann gerir það frekar en þess sem á undan fer að halda sig á einni akrein og fylgjast með baksýnisspeglunum. Akreinar eru reyndar ekki nærri því alltaf vel skilgreindar.
Þar sem hámarkshraði ökutækjanna hér að ofan er mjög mismunandi og þar sem þjóðvegir Indlands eru oft ekki nógu breiðir eða sléttir fyrir umferðina þarf ekki að koma á óvart að indverskir bílstjórar taka fram úr mjög reglulega. Hér virðist svolítið öðruvísi hugmyndafræði tíðkast við framúrakstur: Sá sem tekur fram úr gerir yfirleitt ráð fyrir því að þeir sem keyra á móti vilji frekar hægja ferðina snögglega eða keyra út í kant frekar en að lenda í alvarlegum árekstri. Það er því oft sem farartæki á eigin akrein þurfi að gefa réttinn yfir á þann sem tekur fram úr en hann er jú yfirleitt á meiri ferð og getur ekki farið á eigin akrein í miðjum framúrakstri. Áður en þeir gefa réttinn og bremsa blikka þeir þó ljósum og flauta í 1-2 sekúndur - sem stundum virðast 1-2 mínútur - til þess að láta ekki valta algjörlega yfir sig.


Ég hef tekið eftir því á ferðum mínum í Himachal Pradesh að Tíbetarnir hérna virðast eiga nóg af peningum. Til að mynda er menningarmiðstöðin sem ég mynntist á mikilfengleg og eitthvað hef ég séð af nýjum hofum og einnig hof sem eru í smíðum.
Jaisalmer stoppið er komið á netið í myndum og myndbrotum. Það sem ég afrekaði helst í Jaisalmer var að skreppa í safaríferð á kameldýrum út í eyðimörkina með nokkrum skammtíma vinum og gista þar eina nótt undir berum himni. Jaisalmer er um 100.000 manna bær sem í er frægt virki, Jaine (?) hof, hallir og
Mér finnst stórmerkilegt að ég skuli hafi keypt fuglabók því fyrir 2 mánuðum síðan hafði ég afar lítinn áhuga á fuglum. Áhugi minn á dýralífi hefur reyndar aukist mikið eftir að ég fór í þjóðgarðana í Gujarat – ég lá stjarfur um daginn inn á hótelherbergi á meðan ég horfði á David Attenborough þátt í sjónvarpinu. Kannski var ein ástæða fyrir því magakveisan og hitinn sem fylgdi henni en ég naut þess í öllu falli að horfa.
Þeir Indverjar sem ég hef hitt hingað til hafa yfirleitt álík svipbrigði og Evrópubúar og í gær hitti ég tvo Indverja sem hafa blá augu og a.m.k. annar þeirra vildi meina að hann ætti ekki ættir að rekja til Evrópu.
Í bænum kynnstist ég ungum úrviðgerðarmanni, Varesh, sem gerði hlé á vinnu sinni til að skutla mér á vespu sinni á áhugaverðari staði bæjarins. Að skilnaðargjöf færði hann mér Kutch-skyrtu, þrátt fyrir mótbárur mínar.

Vanir tröppumenn gera sér kanski grein fyrir því hvað felst í því að klífa 8000 tröppur. Til að gera sér betur grein fyrir þessum fjölda má ímynda sér að maður gangi upp heilar 80 tröppur en þá er maður búinn með 1% af ferðinni upp.
Í enda ferðarinnar vorum við svo heppin að sjá tvö ljón í viðbót sem við gátum nálgast fótgangandi og í þetta skipti í birtu. Ljónsungi og móðir þess lágu í makindum rétt fyrir utan vegg sem umkringdi varðstöð skógarvarða og því gátum við gengið innan veggja varðstöðvarinnar og tekið myndir af ljónunum. Okkur var þó sagt að hafa varann á því vitlaus ljónsunginn hafði sært 3 verði á síðastliðnu ári.
Þegar ég snéri aftur á gististaðinn hitti ég Svía sem hafði gengið í skóginn í 5 tíma um morguninn og auk þess farið kvöldið áður í myrkri með leiðsögumanni. Hann var ekki jafn heppinn og við jepplingarnir og það sama má segja um ferð Íranans þegar hann fór seinna um kvöldið. Þeir heirðu í ljónum og sáu kanski tvö glóandi augu í fjarska en fátt annað en það.
Seinna um daginn skildi ég svo við indversku stelpurnar þrjár, indverska jógamanninn, Íranan og Svíann þegar ég lagði af stað í afslöppun og gott hótel á eyjunni Diu. Í Diu hef ég skrifað síðustu 3 innslög, skroppið á ströndina og notið þess að fara í heita sturtu á tandurhreynu hótelherbergi. Diu er fyrrum portúgölsk nýlenda og hér hef ég skoðað portúgalskar kirkjur og virki. Diu er eini staðurinn í Gujarat þar sem áfengi er leyft og því koma Indverjar úr næstu sveitum til að fá sér í glas.
Þær drunur sem hrista rúðurnar í hótelherbeginu mínu nú, þegar klukkan er farin að ganga eitt um nótt, tilheyra einhverskonar kvöldskemmtunum sem haldnar eru á undan brúðkaupi hér í bæ. Í gærkvöldi var spilað eitthvað fram á nótt en svo kom það mér á óvart að klukkan 8 næsta morgun var tónlistin sett í gang og háværir kínverjar sprengdir í eins og klukkustund, svona rétt til þess að vekja fólk í hverfinu. Þetta kom sér reyndar vel fyrir bleiknefja eins og mig sem þarf helst að nota morgnana í útiveru áður en sólin verður of sterk og áður en hitinn fer yfir 30 gráður. Svo virðist sem gestir brúðkaupsskemmtunarinnar noti morgna og kvöld í dansinn en mæti svo þess á milli í vinnu.
Það er skemmtilegt að lesa eigin pirring í síðustu færslu, tölvu pirring. Það er margt í Indlandi sem getur farið í taugarnar á Vesturlandabúa eins og t.d. slappar tölvur, seinar lestir, börn sem biðja um peninga og ágengir sölumenn. Við ákveðið áreiti stendur einstaklingi, fræðilega séð, til boða að láta það fara í taugarnar á sér eða ekki. Aðlögun er besta leiðin til að takast á við það sem maður er ekki vanur en auðvitað er hverjum einstaklingi takmörk sett hvað þetta varðar. Ef markmiðið með heimsókn til einhvers lands er skemmtun að þá er kannski við hæfi að velja áfangastað sem krefst lítillar aðlögunnar.
Í næstu kofum gistu tveir þjóðverjar og tveir hollendingar sem fóru með mér í jeppaferðir tvo daga í röð.
Annan daginn héldum við í átt að heimkynnum pelikana og flamingóa – einu af fáum svæðum í Indlandi þar sem flamingóar fjölga sér náttúrulega.
Með myndunum á flickr síðunni fylgja upplýsingar um salt-ættbálkana í Kutch.
I gaer for eg a indverskt hestbak i halfan dag. Eg er enn af jafna mig i rassinum eftir toltid - thessir hestar voru otrulega viljugir! Thad thurfti ekki nema snerta tha einu sinni med faetinum til ad fa tha af stad. Eg hef ad visu ekki mikinn samanburd ne heldur get eg tekid mikid mark a sogum Rachel sem for med mer a hestbak, thvi hun hefur bara prufad ameriska hesta sem hafa verid undir of morgum, of feitum amerikonum (her er betra a skrifa amerikonum frekar en konum, fyrst islenska stafinn vantar). Myndir ur ferdinni eru a flickr sidunni.


Það var því kvíðapési sem mætti á fátæklegan spítalann í Udaipur í annað sinn til að vitja niðurstaðna. Í ljós kom að Gunnar er sko ekki með berkla, heldur er ég með lungnasýkingu eins og fjórðungur ferðamanna fær sem færa sig úr köldu loftslagi yfir í heitt. Flensan og allt þar á undan passar eins og flís við rass við lýsinguna í Lonely Planet bókinni minni. Því er ég með æðalegg í handleggnum og fer í þriðja og síðasta skipti á morgun á spítalann til að fá sýklalyf en auk þess hef ég önnu lyf við sýkingu í ennisholunum (held ég).